Gamlir risar rísa á ný Ef allt gengur að óskum, verða gefnir út tveir nýir diskar af tveimur af stærstu böndunum innan metalheimsins. Þessi litla grein samanstendur af mínum pælingum varðandi ný line-up og verðandi áhrif þess á komandi útgáfur.

Nýi diskur Metallica. Eflaust bíða margir með mikilli eftirvæntingu eftir þeirri útgáfu í von um hreinan eðal, eða í það minnsta ágætis plötu, eftir mistökin (vitaskuld persónubundið) St. Anger. Annar nýr diskur frá öðru stóru nafni innan (thrash)metalheimsins er á leiðinni, en það mun vera komandi plata thrash-risanna Slayer. Þessi tvö bönd eiga ýmislegt sameiginlegt. Þau komu upp á svipuðum tíma og þrykktu thrashmetalnum á kortið innan tónlistarheimsins. Nú nýlega hafa þau eignast annað sameiginlegt, en það er að Rick Rubin mun producera báða umrædda diska.

Metallica tilkynnti nú á dögunum að Rubin myndi producera komandi plötu þeirra. Mér, og eflaust mörgum öðrum þeirra sem fíla eldra stöffið (+- Black Album) en eru hins vegar lítt hrifnir af því nýrra, til ómældrar ánægju. Þeir hafa sem sagt sagt skilið við Bob Rock, en eins og flestir vita tók hann við sem producer á Black Album, og flestir eru þeirrar skoðunnar að Metallica hafi verið á niðurleið síðan (þó persónulega finnist mér Black Album mjög góður, og Load og Reload eiga sín lög). Slayer hefur einnig tilkynnt að Rick Rubin muni producera nýju plötu þeirra.

Ætli maður hefji mál sitt ekki aðeins á Metallica. Vissulega er það góðs viti að Rock sé ekki lengur í slagtogi með þeim, en engu síður hef ég nú satt best að segja enga tröllatrú á þeim kumpánum. Þó svo tónlist þeirra hafi tekið miklum stakkaskiptum eftir að Rock gekk til liðs við þá, þá geng ég ekki svo langt að segja að hann sé eina ástæðan fyrir þessari þróun hjá þeim. Auðvitað vonar maður samt það besta, og það verður gaman að heyra hvernig nýja efnið þeirra hljómar, og hver veit nema Rubin kveiki upp í gömlum glóðum og þeir gefi út nýja gamla plötu (þið skiljið vonandi hvað ég meina með þessu). En það getur aðeins tíminn leitt í ljós. Eins og ég segi þá er ég alls ekki að búast við neinum eðal, en sjáum hvað setur.

Þegar kemur að Slayer og þeirra nýja efni, þá er ég aftur á móti spenntur. Með Dave Lombardo á bakvið settið aftur í fyrsta sinn síðan Seasons in the Abyss, og Rubin sem producer, þá býst ég við einhverju mjög góðu. Ekki það að ég hafi verið eitthvað ósáttur með síðustu útgáfur þeirra, síður en svo. Mér finnst síðasti diskur þeirra, God Hates Us All, vera bara fjandi góður. En það sem er svo áhugavert við nýja diskinn er að þeir eru með sama line-up og þegar þeir gáfu út hina heilögu þrenningu (veit að “heilagt” á alls ekki við þegar kemur að Slayer) Reign in Blood, South of Heaven og Seasons in the Abyss. Rick Rubin var nefninlega producer á þessum þremur plötum þeirra (ásamt öðrum plötum).

Það verður vissulega gaman að heyra báða þessa diska. Eins og staðan er í dag þá er stefnt á útgáfu í vor/sumar á þessu ári og ég ætla að vona að það standist. Slayer disknum hefur þó verið seinkað áður, þannig þetta skýrist allt þegar nær dregur.

Eins og ég hef sagt, þá hef ég mikla trú á flottum disk frá Slayer, en ekki eins vongóður um Metallica, þannig ef þeir gera ágætis disk þá er það bara bónus.

Þetta eru bara svona smá hugsanir sem eru í gangi í toppstykkinu hjá mér og ég ákvað að deila þeim með ykkur, og enda ég hér með mína fyrstu grein inn á Hugi/Metall eftir langan tíma af browsi hérna.

Ég þakka lesningu og endilega látið í ljós skoðanir ykkar.

-HypnoToad