At The Gates At The Gates

Ég ákvað að skrifa grein um eitt besta melodic death metal band frá upphafi. Ég er að tala um At The Gates. Þeir ásamt Entombed breyttu þessari death metal senu með því m.a. að nota fiðlur í lögum sínum í kringum 1990 þegar bönd eins og Cannibal Corpse voru einnig að gera garðinn frægan og death metal stefnan að rísa. Þessi grein tók mig langan tíma svo þið skulið spara skítköstin.

At The Gates var stofnuð seint árið 1990 meðlimir hennar höfðu flest allir verið saman í öðrum böndum. Meðlimir á þeim tíma voru Thomas Lindberg (söngur), Alf Svenson (gítar), Anders Björler (gítar), Jonas Björler (bassi) og Adrian Erlandson (trommur). Þessi line-up tók upp Gardens Of Grief árið 1991 en það var einhverskonar promotion plata með fáum lögum. Seinna sama ár fengu þeir samning hjá útgáfufyrirtækinu Dolores. The Red In The Sky Is Ours var svo fyrsta alvöru platan þeirra og var hún sérstök að því leyti að hún innihélt lög sem voru að hluta til flutt á fiðlu t.d. lögin Windows og Seasons to come. Sú plata var gefin út af Deaf records og kom út árið 1992. Fiðluleikarinn Jesper Jarold var titlaður sem meðlimur á bakhlið disksins en hann var einungis tímabundið með þeim og ekki á næstu plötu.
With Fear I Kiss The Burning Darkness er mín uppáhaldsplata með At The Gates og kom aðeins ári á eftir The Red In The Sky Is Ours. Platan inniheldur alveg þrusugóð lög þ.á.m. The burning darkness og The Architects. Á þeirri plötu var enginn fiðluleikari og voru það vonbrigði sumra aðdáenda, Alf Svenson gítarleikari hafði þá einnig sagt skilið við At The Gates vegna þess að hann vildi gera sína eigin hluti. Alf tók samt upp með þeim plötuna og var titlaður á plötunni sem recording line-up member. Hann stofnaði seinna bandið Oxiplegatz. Maður að nafni Martin Larson tók þá við gítarspilinu og átti hann stórann hlut í að semja lög fyrir næstu plötu At The Gates. Eftir það voru At The Gates farnir að túra með böndunum My Dying Bride og Cradle Of Filth (þegar þeir voru black metal). With Fear I Kiss The Burning Darkness var gefin út af Peaceville Records árið 1993. Peaceville Records hefur einnig gefið út plötur frá Autopsy, Vital Remains, My Dying Bride, Isengard og Darkthrone.

Terminal Spirit Disease kom svo næst í röðinni og var hún talin platan sem breytti stefnu At The Gates í átt að thrash metalnum (þó að þeir héldu sig við einnig melodic death). Hún var gefin út 1994. Einungis 6 lög eru á plötunni (fyrir utan live stuffið) og eru það allt saman snilldar lög. Þar var aftur kominn fiðluleikari og var það Ylva Wåhlstedt en hún spilaði einnig á fiðlu fyrir In Flames á plötunni Lunar Strain sem ég mæli með að fólk kíki á þegar þeim gefst tími því sú plata er tímans virði. En nóg um In Flames, Peaceville Records sá einnig um útgáfu á Terminal Spirit Disease og tók Peaceville einnig að sér að gefa út þeirra fyrri verka á betra formi. At The Gates voru á þessum tíma að farnir túra með fullt af böndum og voru orðnir þekktir í death metal senunni um alla Evrópu. At The Gates héldu áfram að semja efni og Earache hafði áhuga á því að gefa út næstu plötu þeirra. Earache eru nokkuð þekktara fyrirtæki heldur en Peaceville svo að At The Gates færðu sig yfir til þeirra. Smellur At The Gates sem kom heiminum í opna skjöldu var svo meistaraverkið Saughter Of The Soul. Sú plata hefur annars vegar verið sögð þeirra versta verk eða þeirra allra besta því hún er ólík þeirra fyrri platna að því leyti að lagasmíðin er öðruvísi og hljómgæðin allt öðruvísi s.s. ekki eins hrá og þeirra fyrri verk. Engu að síður er Slaugther Of The Soul alveg frábær frá a til ö. þeir voru tilnefndir til sænsku grammy verðlaunanna fyrir plötuna. Lykilög plötunnar eru án efa Blinded by fear, Slaughter of the soul, Cold, Under a serpent sun, Suicide nation og World of lies. Þess má geta að Andy La Rocque gítarleikari King Diamond hjálpaði til við að semja gítarsólóið í Cold.

Þegar Slaughter Of The Soul var búin að seljast í mörg þúsund eintökum og At The Gates búnir að túra um Bandaríkin gerist sá skrýtni atburður að Anders Björler hætti skyndilega í bandinu. Engin ástæða var gefin upp fyrir því að Anders hætti en At The Gates gátu ekki haldið áfram án hans þannig að þeir hættu. Segja má að At The Gates hafi sannarlega hætt á toppnum. Þeir hafa einnig sagt hinu umtalaða blabbermouth.net að þeir muni aldrei koma saman aftur.

Hljómsveitarmeðlimir voru hins vegar ekki hættir að spila tónlist og fóru þeir í sitthvora áttina Adrian Erlandsson trommuleikari fór og stofnaði nýtt band og fékk bræðurna Anders og Jonas með sér í það. Adrian hætti svo í þessu bandi og gekk til liðs við Cradle Of Filth. Björler bræðurnir héldu áfram með bandið og er það þekkt í dag sem The Haunted. Tomas Lindberg er í mörgum böndum þ.á.m. The Great Deciever, World Without End(Martin Larson er einnig í þessaru bandi), Skitsystem og Lock-Up. Gefinn var út Best of plata At The Gates og ber hún heitið Suicidal Final Art. Á henni eru 15 lög sem eru þrusugóð.

Ég þakka fyrir mig og vona að þið hafið haft gaman af þessum lestri um mitt uppáhaldsband.