Týr Hér er smá brot af sögu Færeysku hljómsveitarinnar Týr.

Upphaf hljómsveitarinnar má rekja til janúar 1998 þegar Heri Joensen gítarleikari og Kári Streymoy trommari (sem höfðu eitt sinn verið saman í hljómsveit) hittust á skemmtistað í Kaupmannahöfn. Heri stakk upp á að þeir myndu djamma saman en Kára leist ekki vel á það í fyrstu enda hafði hann ekki snert trommukjuða í tvö ár. Þrátt fyrir þetta prufuðu þeir sig áfram og annar fyrrverandi hljómsveitarfélagi þeirra, Gunnar H. Thomsen bassaleikari, slóst í hópinn.

Kjarni hljómsveitarinnar var kominn. Áhrifavaldar þeirra voru helst færeysk þjóðlög, Black Sabbath, Dream Theater og einnig klassísk tónlist. Einnig kom norræn goðafræði sterk inn sem áhrifavaldur.

Innan skamms bættust við Jón Joensen gítarleikari og Pól Arni Holm söngvari. Allir meðlimirnir eru Færeyjingar. Nafnið hljómsveitarinnar kemur úr norrænni goðafræði, herguðinn Týr.

Jón Joensen hætti í hljómsveitinni skömmu áður en platan How Far to Asgaard var tekinn upp. Terji Skibenæs kom síðan inn í hljómsveitina áður en platan var gefin út í byrjun ársins 2002.

Í mars 2002 kynntust Íslendingar hljómsveitinni þegar hún kom til landsins og heillaði landann með laginu Ormurin Langi. Tónleikar hljómsveitarinn á Broadway voru teknir upp og hafa verið sendir út á Rás 2 í einhver skipti. Þar hafa heppnir hlustendur fengið að heyra lögin Ramund den Unge og Ólavur Riddararós sem ekki eru á plötunni, einnig tóku þeir lagið Whisky in the Jar.

Í september 2002 var tilkynnt um söngvaraskipti í Tý, Pól Arni sá sér ekki fært að gera tónlistina að sínu aðalstarfi og Allan Streymoy (bróðir Kára trommara) tók við. Allan spilaði ekki lengi með og nú er Heri aðalsöngvari.

Þeir hafa einnig fengið íslenskan gítarleikara með sér í lið, Ottó Páll, en hann er víst ekki lengur með þeim.