Iron Maiden - The X Factor Released: October 2nd, 1995 UK Chart Position: 8

Lineup:
Blaze Bayley (söngur)
Dave Murray (gítar)
Janick Gers (gítar)
Steve Harris (bassi)
Nicko McBrain (trommur)

Já, vegna margra áskoranna og aðallega vegna þess að ég er kominn með leið á fólki sem spammar mailboxið mitt hef ég ákveðið að drullast til að skrifa grein um X Factor. Það er alveg magnað með þessa plötu, að eins og með fleiri plötur (aðallega progressive plötur) þá verður þessi bara einfaldlega betri og betri. Fyrrum Wolfsbane frontmaðurinn Blaze Bayley er hér kominn í stöðu Bruce, en hann hætti vegna þess að hann vildi hvíla sig og fara í skóla og eitthvað fleira. Man ekki alveg og skiptir kannski ekki höfuðmáli því að mínu mati hefði Bruce aldrei getað farið svona vel með þessa plötu. Þó svo að hann sé betri söngvari og allt það, þá hefur hann bara ekki réttu röddina í það. En Blaze hefur hana. Því er ég sáttur. Svo hættir hann líka seinna og Bruce kemur aftur og ég verð ennþá sáttari.

En allavegana, The X Factor er tiltölulega dimmri og dýpri plata en þær fyrri. Þarna eru heimsmeistararnir í rokki búnir að losa sig við allt þetta happy happy go go sound sem var svo nokkuð áberandi á tveimur fyrri plötum þeirra og allt gott og blessað með það að segja. Hún er líka alveg frábær, var ég búinn að segja það? En á þessum tíma var Heavy Metall nánast útdauður, sérstaklega í Bandaríkjunum. En þá koma þessir gæjar og rústa öllu. Þó svo að þeir hafi spilað á frekar minni tónleikum (færri áhorfendur þeas) þá var hann allt annað en slæmur. Blaze söng víst mjög vel, en hann þurfti að baila vegna þess að hann fékk einhverskonar ofnæmisdót í þegar þeir voru einhverstaðar í Suður-Ameríku. En þeir spiluðu samt á fáránlegustu stöðum eins og í Ísrael og Suður-Afríku. Líklega í fyrsta skipti fyrir þá. Allt gott og blessað með það að segja. Kannski að nefna það að bönd eins og My Dying Bride, Fear Factory, Psycho Motel og fleiri hituðu upp.

Coverið! Maður má ekki gleyma því. Eins og með Fear of the Dark þá var enginn Derek Riggs núna, heldur einhver Hugh Syme gæji. Og verð ég bara að segja það að þetta er hræðilegt cover. Ég er að öllu leyti ósáttur með það. Og hana nú! En platan sjálf er frábær!


Sign of the Cross (Harris)
Þetta er ekta Harris. Lengra en 11 mínútur, geggjaður texti (úff já..), instrúmental kafli og bara allur pakkinn. Byrjar að vísu á einhverskonar gregorísku bulli sem er líklega "Aeternus Halleluia" (latína og þýðir.. tjahh… [The] Eternal [One], Halleluia), en það gefur góðan svip á lagið. Í laginu er aðallega verið að lýsa þeirri hræðslu sem var ríkjandi á miðöldum varðandi kristna trú, með kannski smá kaldhæðnislegu ívafi. "Eleven saintly shrouded men“, eins og hann segir, standa fyrir þessum ”heilaga rannsóknarrétt“ sem fann það út að ókristnir menn væru ekki bara réttdræpilegir, heldur væri skylda að drepa þá. Þetta tengist síðan allt saman krossferðunum og fleira. Eða það er allavegana ein útskýringin.

Six saintly shrouded men move across the lawn slowly.
The seventh walks in front with a cross held high in hand


(Úr Genesis laginu Supper's Ready). Nei, nei. Þetta var bara svona pæling. Aftur að Maiden, Eleven Saintly Shrouded, blablabla, One in front with a cross held high. = 12? Líklega. 11 Lærisveinar og Jesús.. Anyone? Júdas drap sig og það ”má“ samkvæmt Biblíunni að upphaflegu lærisveinarnir komi aftur með Jesú. Svo gæti restin af textanum vel passað við andrúmsloftið hjá lærisveinunum þegar það var búið að negla Jesús fastan á krossinn.

Svo kemur þessi líka klikkaði instrúmental kafli, með meiru gregorísku bulli og svo geggjuðum sólóum.

Hann minnist líka á ”The Name of the Rose" í laginu. Umberto Eco, líklega spænskur eða eitthvað álíka, gaf út bók einhvern tímann í eldgamla daga með sama nafni. Svo seinna meir kom út mynd eftir bókinni þar sem meðal annars Sean Connery kom fyrir. Eða lék aðalhlutverkið. Ég hef nú ekki lesið bókina sjálfa, en ég hef lesið mikið um hana. Og hún gæti alveg flækst inní þetta. Hún fjallar um tvo menn, Guilherme og Adso. Þeir eru að ferðast einhversstaðar í Ítalíu og stoppa í klaustri og eiga að rannsaka einhvern glæp. Þar hafði einhver munkur framið sjálfsmorð nokkrum dögum áður. Hann hafði hoppað útum gluggan á bókasafninu, sem var bannað að vera í, sérstaklega á næturnar (hann dó að nóttu til). Allavegana, bókasafnið er fullt af gildrum og svona hræðslu dóti og maður getur rétt ýmindað sér spennuna sem ríkir þarna á nóttunni. Fyrsta versið í laginu, sem ég nenni ekki að peista hérna, þið getið bara drullast til að lesa það sjálf, passar einstaklega vel við þá stemningu. Svo var þessi munkur líka hommi! Þannig þetta smellur allt voða vel saman. Hmm, já, hann var að vísu myrtur, gleymdi að minnast á það.. En allavegana, ýmindið ykkur stemninguna, í eldgömlu bókasafni (sem er bannað að vera í), rok og rigning úti og djöfullinn er á hælum ykkar. Úff.. Svo síðar er Adso gaurinn að ríða einhverri gellu sem hann veit ekki hvað heitir, en þekkir hana bara sem rose (Name the rose), en hún verður brennd fyrir nornabasl, sem hún var ekkert að basla í. Svo er bókasafnið líka brennt eftir einhvern bardaga og þá brennur allt klaustrið og voða læti, en þetta smellur allt saman. Ég ætti eiginlega bara að gera grein um þetta lag…

En það að þessi diskur skuli byrja á þessu líka rosalega lagi er svolítið magnað. Þetta er eiginlega slap in the face fyrir alla þessa disco lovers þarna úti og eitt stærsta fokk jú merkið á níunda áratugnum (eða tíunda, hef aldrei pælt í því hvernig þetta virkar og nenni því engan veginn núna). En restin af lögunum eru ekki alveg jafn intense og þetta. En samt góð lög.


Lord of the Flies (Harris, Gers)
Þetta lag er byggt á bókinni ‘Lord of the Flies’, eftir William Golding, skrifuð 1954, svo komu líka út myndir 1963 og 1990. Sagan segir frá hóp af skólastrákum sem festast einhvern veginn á eyðieyju og þurfa að stofna sitt eigið samfélag. Mjög heimspekileg bók þar sem þetta samfélag þeirra er svo langt frá því mannlega samfélagi sem við lifum í, en mun meira svona basic maður. Sem er í rauninni bara dýr. Þeir hætta að pæla í tilfinningum og þannig dóti, verða mannætur og ég veit ekki hvað og hvað. 2 þeirra deyja og eru þeir einhverskonar myndlíking fyrir það góða í heiminum og er síðan breytt í einhverskonar Jesús týpur. Boðskapur sögunnar er í raun hversu auðveldlega illska getur tekið völdin og breytt okkur í dýr.

"We are Lord of the Flies" We are Lord.. Það passar ekki alveg, enda mikill boðskapur í gangi. Krakkarnir á eyjunni missa allt sem kallast má nútímalegt mannlegt eðli (eða eitthvað) og verða eitthvað allt annað. Þetta má kannski færa yfir í nútímann líka. Unglingar í dag gefa ekki mikið fyrir súpuna sína. Fordómar, rasismi og hatur einkennir okkar kynslóð nokkurn veginn. VIÐ ERUM LORD OF THE FLIES.

En lagið sjálft er líka fínt, þó svo að það sé kannski aðeins of mikið reverb á gíturunum að mínu mati. Hef heyrt að það sé bara miklu flottara live, sérstaklega með Bruce þar sem hann syngur pre-chorusinn og chorusinn áttundu hærra en Blaze, en ég verð víst að gerast sekur um að hafa ekki heyrt það live. Já, svo var líka gefin út smáskífa. Það sem var svona merkilegast við hana var að á henni var að finna 2 cover lög, eitt þeirra var ‘My Generation’ eftir ‘The Who’ og verð ég bara að segja það að Steve Harris er eiginlega bara betri en John Entwistle. Mæli stórkostlega með þessu lagi. Svo var líka gamla góða ‘UFO’ lagið ‘Doctor, Doctor’, sem er alveg frábært lag, en erfitt að útskýra afhverju.. Doctor Doctor, pleeeeaase…


Man on the Edge (Bayley, Gers)
Byggt á myndinni ‘Man on the Edge’ eftir Joel Schumacher, held ég. Hann leikstýrði henni allavegana. En hún er um mann sem er fastur í traffík og alveg ótrúlega stressaður. Mig minnir endilega að ég hafi séð hana, og hann er síðan laminn af einhverjum asíugaurum og rómönskum gaurum og fer síðan að elta einhvern nasista.. Allavegana, þetta passar við það sem ég hef verið að lesa um. En þetta tengist ekki kynþáttafordómum neitt. Þetta er bara um stressið sem fylgir stórborgum og hvernig menn geta snappað alveg sisvona. SPOILER! (málað hvítt, ekki sverta ef þið ætlið að sjá myndina) = Held að hann deyji í endann…

Og fleiri smáskífur. Þessi er aðeins flóknari en ‘Lord of the Flies’ þar sem hún kom út í mismunandi útgáfum og læti. En allt gott um það að segja. Þarna var að finna, ásamt ‘Man on the Edge’, lögin ‘The Edge of Darkness’, ‘Judgement Day’ og svo eitthvað viðtal við Blaze Bayley sem enginn hefur áhuga á.. En ‘Judgement Day’ er óttalega flott lag. Það átti að fara á X-Factor (og Justice of Peace líka, kem að því seinna) en komst ekki, því maður getur bara troðið aumum 74 mínútum á geisladisk.. En svona megin boðskapurinn er að útlit manna segir voða lítið um characterinn, meira svona í áttina að því að fallegt fólk sé oft uppfullt af illsku. Mjög flott lag, synd að það komst ekki á plötuna sjálfa. Svo kom líka út 12" þar sem laginu I Live my Way var skellt inná. Því var að vísu líka skellt inná tvöföldu japönsku útgáfuna af X-Factor. Þetta er flottur rokkari sem segir frá því að við eigum að reyna að njóta lífsins og eitthvað þannig. Svo átti líka að koma út Part 2 af Man on the Edge smáskífunni. Þar átti lagið Justice of Peace að vera, líklega í staðinn fyrir Judgement Day, en þessi part 2 kom víst aldrei út. Þið getið samt örugglega fundið Justice of Peace einhverstaðar á veraldarvefnum. Hið ágætasta lag.


Fortunes of War (Harris)
Þetta lag fjallar um hin andlegu örlög stríðs. Ekki er tekið fram hvaða stríð það er verið að tala um, en það er líklega Víetnam eða Kórea, þar sem eftir þau stríð var mest um svona brjálæðislega geðveiki hjá stríðsmönnum. Þetta gæti líka verið framhald af ‘Afraid to Shoot Strangers’ en þá væri það Persaflóastríðið. En til eru.. svona reports.. hvað sem það heitir aftur á íslensku.. af hermönnum sem bara duttu niður í þetta líka svakalega þunglyndi og fengu stóran glefs af geðveiki með. Margir sem börðust í því stríðið þurftu líka að lifa við það að hafa skotið niður sjálsmorðsprengjumenn sem komu hlaupandi á móti þeim, og voru börn.. Gæti líka verið um heimstyrjaldirnar, en ég held að Alliesarnir hafi ekkert mikið orðið fyrir þessu, nema kannski þeir sem flugu Enola Gay. Þó svo að því sé staðfastlega haldið fram að þeir séu umfram allt stoltir af þessari þjóðarskyldu sinni.

En það skiptir kannski ekki öllu máli… Basically er þetta lag bara um mann sem hefur verið í stríði, er kominn heim og fattar afleiðingarnar. Sem eru skelfilegar, dauði og eyðilegging og hann hjálpaði til. Geðveikin tekur yfir hann og hann veit ekki hvort hann hefur styrkinn til að halda áfram. Svo er lagið bara búið.. En lagið sjálft er alveg frábært, hægt og flott. Geggjaður bassi í því og nokkurs konar Black Sabbath fílíngur yfir þessu. Eitt af þeim betri á disknum.


Look for the Truth (Bayley, Gers, Harris)
Þó svo að textinn í þessu lagi fjalli ekki um jafn svakalega mikið og hin lögin, þá er hann ótrúlega flottur. Svona ljóða stíll yfir honum og það er ekki hægt að lýsa honum. Þið verðið að lesa hann. Hann fjallar um að komast yfir óttann sinn og martraðir. Á mjög ljóðrænan hátt. Lagið er líka fokking flott! Get samt aldrei talað mikið um lögin sjálf.. En það er mjög flott!


The Aftermath (Harris, Bayley, Gers)
Eins og Fortunes of War fjallar þetta lag um ástandið eftir stríð. Frábært lag með góðum rythma og bara alveg ótrúlega kúl! Textinn er líklega séður frá sjónarhorni þýsks hermanns sem skilur ekkert í því afhverju þeir fóru í stríð. Fyrra stríðið það er að segja. Hann hefur líklega barist við Paschendale því þarna er minnst á sinnepsgas og mikið af drullu. Það má kannski geta þess að bændur við þetta svæði eru enn þann dag í dag að finna drasl, ósprengdar sprengjur (Belgía er með spes stofnun til að sjá um svoleiðis dót), riffla, hjálma og jafnvel lík. Paschendale var líka bara orðið að einskonar Woodstock stríði því þarna var allt útí drullu og þannig drasli. "What is at home when the battles are done? After the war and when no one has won."


Judgement of Heaven (Harris)
Sem heitir að vísu Judgement of the War í playlistanum mínum… Helvítis internet… En þetta er flott lag. Ef einhver sem les þetta er þunglyndur þá mæli ég alveg með því að sá og hinn sami lesi yfir textann, það gæti alveg hjálpað. Þetta eru svona vangaveltur um það hvort lífið hafi farið á réttan veg og hvort það sé einhver tilgangur með því yfirhöfuð. Ekki taka orðin "Judgement of Heaven" of alvarlega. Það mætti alveg færa það yfir í hvaða trú sem er, fólk á bara auðveldast með að fatta kristnar vísbendingar, ef svo má að orði komast. Frábært lag sem kann kannski ekki að hljóma svo frábært við fyrstu hlustun, en eftir nokkrar hlustanir átt þú ekki eftir að koma taktinum úr hausnum á þér.


Blood on the World's Hands (Harris)
Flott bassaintro, minnir mann á gömlu tímana. En textinn er svipast til Public Enema Number One af ‘No Prayer for the Dying’. Kannski endirinn á því lagi. Fjallar einfaldlega um öll hræðilegheitin í heiminum og allt þetta I-don't-give-a-shit-attitude sem virðist vera svo vinsælt í dag. Hættið því, þið vitið öll hvað ég er að tala um >.<


The Edge of Darkness (Harris, Bayley, Gers)
Þetta lag sýnir vel að Maiden er meistarar í riffa og rythma skiptingum, æðislegir kaflar þarna. En textinn er algjörlega byggður á myndinni ‘Apocalypse Now’ frá árinu 1979. Sú mynd var að vísu nokkurn veginn, ekki algjörlega, byggð á bókinni ‘Heart of Darkness’ eftir Joseph Conrad. Myndin fjallar um ferð manns upp einhverja á í Vietnam stríðinu. Höfundur bókarinnar var barasta ekki lifandi þegar Vietnam stríðið átti sér stað, þannig þar kemur þessi nokkurn veginn partur inní söguna. En semsagt þessi maður sem er í þessu missioni er að leita að einhverjum brjáluðum snilling sem hefur fallið í þessa meðfæddu villimennsku sem býr í okkur öllum. Dimmt en ákaflega flott lag, svipaður fílíngur og í Sign of the Cross.


2 A.M. (Bayley, Gers, Harris)
Textinn í þessu lagi gæti væntanlega hafa verið skrifaður fyrir okkur öll, því alltaf kemur sá tími í lífinu að við spyrjum okkur að því hvort það sé einhver tilgangur með þessu. “Söguhetjan” í þessu lagi er fastur í einhverri rútínu og honum finnst lífið bara snúast í hringi. That's it eiginlega, hálfstuttur textinn í þessu, en góður boðskapur. Sólóið, eftir Janick, passar líka alveg ótrúlega vel við stemninguna í laginu. Hef sjaldan heyrt það smella jafnvel saman.


The Unbeliever (Harris, Gers)
Einstaklega skrýtið lag. Hmm… Já, mjög skrýtið lag. Textinn í því eru eiginlega bara spurningar. Má eiginlega horfa á þetta sem einskonar próf. Svara annað hvort já eða nei og fá síðan niðurstöðu um það hvort maður sé sáttur við lífið eður ei. Eða svona þannig séð. Ég hef aldrei dottið inní þetta lag… En ég er náttúrulega töluvert sáttur gaur, veit ekki hvort það hafi einhver áhrif. En textinn er flottur, veit það ekki.. Mér finnst röddin í Blaze líka alveg hræðileg þarna, eins og hann sé að æla útúr sér orðunum á vissum tímapunktum. En ég veit ekki, ætli það skáni ekki ef fólk hlustar mikið á það, ég nenni því varla, það er bara of skrýtinn fílíngur í því…


Já, frábær diskur, fyrir utan The Unbeliever. Kannski ekki besta platan fyrir uppkomandi aðdáendur, þá mæli ég frekar með 7th Son, Number of the Beast eða Powerslave. En þarna sína þeir og sanna að þeir eru meistarar í byggja upp spennu í introum (Metallica who?). Flottir og heimspekilegir textar sem láta manni líða betur á svipaðan hátt og ‘Dark Side of the Moon’ gerir. Ætli maður skelli ekki bara… tjahh.. Einhversstaðar á milli 6.9 og 7, held ég. Og minni fólk enn og aftur á að 10 er hin fullkomna plata, þar sem ekki er hægt að fá leið á neinni einustu nótu.

Takk fyrir mig.
indoubitably