David Scott Mustaine fæddist 13. september 1961 í La Mesa Californíu. Hann átti erfiða æsku þar sem pabbi hans var alkóhólisti og lamdi mömmu hans og Dave sjálfan oft. Þau fluttu oft milli 1960 og ‘70 en þegar Dave var 16 ára ákvað hann að fara að búa einn í Los Angeles. Hann hafði lært á gítar sjálfur, með miklum áhrifum frá Cat Stevens.

Á þeim tímum sem hann bjó einn að þá seldi hann dóp til að eiga fyrir leigunni á íbúðinni sinni. Stundum átti einn af hans fastakúnnum ekki pening og ákvað að gefa honum plötur í staðin. Þannig komst Dave inn í Heavy metalinn, NWOBHM (New Wave Of British Heavy Metal).
Árið 1981 var Dave farið að langa í hljómsveit. Hann sá auglýsingu í blaði frá tveim drengjum að nafni Lars Ulrich og James Hetfield. Dave leist vel á þessa auglýsingu og þeir ákváðu að hittast þar sem Lars og James bjuggu. Dave mætti og hann byrjaði að hita sig upp, Lars og James voru svo yfir sig hrifnir bara af þessari upphitun að þeir buðu honum starfið áður en þeir í rauninni byrjuðu að spila. Þeir, ásamt Ron McGovney á bassa, stofnuðu hljómsveitina Metallica.

Metallica spiluðu á nokkrum klúbbum í LA í nokkra mánuði og árið 1982 gáfu þeir út demó upptökuna “No Life Till Leather”.

Sama ár fóru þeir félagar á tónleika með hljómsveit að nafni Trauma, þar var bassaleikari að nafni Cliff Burton. Þeir voru yfir sig hrifnir af bassaleik hans. Ron var þá rekinn og Cliff var boðið að taka stöðu hans, en aðeins með einu skilyrði, hljómsveitin yrði þá að flytja til San Fransisco því Cliff var ekkert á því að flytja. Hljómsveitin flutti til San Fransisco og héldu þeir áfram að vinna sér inn aðdáendur. Þeir vöktu líka athygli fyrirtækis að nafni Megaforce Records, þeir vildu gera samning við þá og flutti hljómsveitin sig enn og aftur um set, nú til New York þar sem Megaforce var til húsa.

Árið 1983 voru þeir á leið í mini-rútunni sinni til New York, eftir langan akstur var Dave rekinn við komuna til New York vegna alltof mikillar drykkju og lætin sem fylgdu með því. Dave dreif sig í burt í mikilli ósátt við þá og hélt á leið til LA með rútu. Þess má til gamans geta að Dave samdi mörg lög á Kill’em All (fyrsta plata Metallica) og einnig Ride The Lightning og Call Of Ctulu sem má finna á Ride The Lightning (plötu nr. 2 með Metallica).

Stuttu eftir komu hans til LA hitti hann bassaleikara að nafni David Ellefson. Þeir tveir ákváðu að stofna hljómsveit saman og þeir byrjuðu að leita að meðlimum í hljómsveitina, Dave ætlaði að syngja og spila sem gítarleikari og David á bassanum.. Hjlómsveitin átti að bera nafnið Megadeth, fyrsta Megadeth line-upið leit svona út; Dave og David, Kerry King (gítarleikari Slayer) og trommarinn Lee Rash. Kerry King og Lee Rash tóku þó aldrei upp plötu með Megadeth. Upphaflega var þetta bara side project hjá Kerry King, og hætti hann til að geta tekið upp fyrstu plötu Slayer, Show No Mercy. Dave réð þá Chris Poland (gítar) og Gar Samuelson (trommur) og saman gerðu þeir plötuna Killing Is My Business…And Business Is Good, hún kom út 1985. Platan fékk frábæra dóma alls staðar og seldist gríðarlega vel. Þetta laðaði að athygli stórra plötufyrirtækja. Í lok ársins 1985 hafði Megadeth skrifað undir samning við Capitol redords. Næsta plata þeirra kom út haustið 1986 og bar heitið Peace Sells…But Who's Buying?. Platan fékk, eins og fyrri plata þeirra, alveg stórgóða dóma og seldist einnig vel, platan fór meira að segja í Platínum.

Þrátt fyrir velgengni Megadeth sökk Dave dýpra og dýpra ofan í fíkniefnapittinn. Fíkniefnavandamál hans var farið að hafa áhrif á vinnu Dave's , margar sögur kviknuðu upp um að hann væri orðinn alveg kolruglaður. Hann rak þá bæði Samuelson og Poland, Poland fyrir að selja gítara Dave, og keypti Poland dóp fyrir ágóðann. Áður en Megadeth tók upp þeirra þriðju plötu réð Dave þá Jeff Young(gítar) og Chuck Behler (trommur). Árið 1988 gáfu þeir, ásamt David Ellefson að sjálfsögðu, út plötuna So Far, So Good…So What!. Platan fór upp í 28. sæti á sölulistanum og fór líka í Platínum (þrátt fyrir að fá ekki eins góða dóma).

Árið 1990 var Dave handtekinn eftir að hafa keyrt undir áhrifum fíkniefna og fór hann í meðferð. Í lok ársins hætti hann ekki bara að drekka, heldur ákvað hann að breyta hljómsveitinni aftur, en hann hefur samtals farið í svona 20 meðferðir vegna áfengis og fíkniefnavandamála. Hann rak Jeff Young og Behler, í staðin fyrir þá réð hann gítarleikarann Marty Friedman og trommarann Nick Menza (hann hafði áður verið tæknimaður Behler's). Þetta line-up gerði plötuna Rust In Peace. Þessi plata er að mörgum talin ein af bestu metal plötum allra tíma og fór hún í 23. sæti á sölulistanum yfir plötur í USA.

1991 breyttist Metallica til að höfða til fleirri hlustenda með meiri mainstream tónlist. Dave vildi þá gera soundið flottara til að gera jafn ‘góða’ hluti og Metallica, þeir seldu kannski ekki jafn mörg eintök og Metallica gerði, en platan er að mínu mati 1000 sinnum betri. Niðurstaðan varð ný plata, hún bar heitið Countdown To Extinction og kom hún út 1992. Platan fór í tvöfalt platínum (ekki spyrja mig hvernig þetta virkar), komst í annað sæti á sölulistanum og varð þeirra stærsti smellur (platan er einnig talin til betri metal platna allra tíma…).

Nú var Megadeth orðin ein vinsælasta metal hljómsveitin í heiminum og héldu Megadeth á þá leið að höfða til sem flestra hlustendra, alveg eins og Metallica gerðu. Þetta gerðu þeir með plötunni Youthanasia sem kom út árið 1994 og komst hún í fjórða sæti á sölulistanum og enn og aftur fór platan í platínum. Árið seinna gaf hljómsveitin út plötuna Hidden Treasures, safn af lögum sem hafa annað hvort verið í bíómyndum eða á öðrum diskum, t.d. Paranoid sem kom út á tribute disk til Black Sabbath. Þeirra næsta plata, Cryptic Writings fékk ágætis dóma en var ekki eins góð og síðustu tvær plötur. Fyrrverandi trommari Suicidal Tendencies, Jimmy DeGrasso gekk til liðs við Megadeth áður en þeir gerðu plötuna Risk eftir að Nick hætti. Risk þykir að margra mati þeirra lang versti diskur. Marty Friedman fór eftir Risk (hann fór til að spila japanskt popp, og er hann enn að gera það í dag eftir því sem ég best veit) og gítarleikarinn Al Pitrelli (var áður með Alice Cooper og Savatage) gekk einnig til liðs við þá, en það var eftir Risk.

Árið 2001 kom út platan The World Needs a Hero og var það fyrsta platan með þessu line-upi. Eftir hana fór Megadeth í smá pásu. Á meðan á pásunni stóð sofnaði Dave Mustaine í stól heima hjá sér á hendinni á sér og var þannig alla nóttina. Það hafði þær afleiðingar að hann klemmdi einhverjar taugar í vinstri handleggnum og læknar sögðu að hann myndi ekki geta spilað á gítar aftur, það var bull. Pásan þurfti því að vera lengri en áætlað var í upphafi enda gat Megadeth ekki spilað án Dave. Dave spilaði ekki á gítar í eitt ár sökum meiðsla sinna en hann var staðráðinn í því að snúa aftur.

Árið 2002 komu út tveir geisladiskar með hljómsveitinni og meira að segja 1 DVD diskur. Það er að segja Rude Awakening(LIVE tónleikar frá TWNAH túrnum) sem var bæði gefið út á 2xCD og dvd og svo Still Alive…And Well sem samanstóð af live upptökum og lögum af The World Needs A Hero.

Síðasta haust kom út platan The System Has Failed. Line-upið á þessari plötu er allt annað en áður. Dave og David Ellefson lentu í einhverjum lagadeilum (frekar flókið mál sem ég skil ekki..) og fékk Dave þá Jimmy Less Sloas til að spila á bassann, Dave fékk einnig Chris Poland til liðs við sig en hann var áður í hljómsveitinni, og að lokum fékk hann Vinnie Colaiuta til að tromma. Sem sagt algerlega nýtt line-up og í fyrsta sinn sem Dave spilar án David's Ellefson. Þessi plata er stórgóð, Dave frábær á gítarnum eins og hann hafði aldrei meiðst. Platan er full af stórgóðum smellum eins og Back In The Day, The Scorpion og mitt uppáhalds; Die Dead Enough.

Upphaflega átti line-upið sem tók upp The System Has Failed ekki að gera neitt meira en að taka upp diskinn, því þetta átti að vera sólóplata frá Dave. En Dave ‘skuldaði’ eina Megadeth plötu í viðbót, og var þetta líklegast síðasta plata Megadeth. Dave fékk þá til sín nýtt line-up, og lítur þá line-upið svona út í dag: Dave auðvitað, Glen Drover, lead guitar, James McDonough, bassi og Shawn Drover, trommur.

Þetta var svona til að leyfa ykkur aðeins að vita meira um Megadeth. Ég stiklaði nú mikið á stóru og eflaust eitthvað sem hefði mátt bæta við. Ég hvet alla, farið og kaupið Megadeth diska ef þið hafið ekki heyrt í þeim. Auðveldast væri að kaupa The Capitol Years ef þið hafið aldrei heyrt í þeim því það er nokkurs konar best of diskur.

Ég skrifaði þetta fyrst á RR spjallið fyrir nokkru, ákvað að skella þessu hingað bara til að kynna þá betur áður en tónleikarnir verða, þeas ef það verður af þeim…:S
Undirskriftin mín