Jæja, ég er búinn að fresta því að skrifa þessa grein alltof lengi.

Hugmyndin var að fjalla aðeins um nokkrar metalhljómsveitir sem ég hef rekist á, og breiða út fagnaðarerindið. Þessar hljómsveitir eru ekki mainstream, þær eru ekki „frægar“, en þær eru hinsvegar frábærar.

Anorexia Nervosa
- http://www.mother-anorexia.com

Melódískur sinfóníublackmetall frá Frakklandi. Sveitin hefur verið til í nokkur ár og gefið út nokkrar plötur en sú sem mér finnst allra allra best er New Obscurantis Order sem kom út 2001. Ég held ég hafi bara aldrei heyrt annan eins kraft í hljómsveit, og þetta er einn af þeim 3-4 bestu diskunum sem ég uppgötvaði á seinasta ári. Búnir að gefa út nýjan disk, Redemption Process, sem ég er að reyna að nálgast núna.

Eitt lag fyrir hina óþolinmóðu: Chatiment de la Rose af New Obscurantis Order, sem hægt er að finna í download-hluta síðunnar. Það var lagið sem náði mér fyrst allavega.


Ulver
- http://www.jester-records.com/ulver/

Að reyna að lýsa Ulver í einhverju einu orði eða hugtaki er út í hött. Til að reyna að útskýra hvað ég er að meina ætla ég bara að telja upp plöturnar sem þeir hafa gefið út:

Bergtatt - Et Eeventyr i 5 Capitler – 1995

Fyrsta platan sem Ulver gefa út, og fjölbreytt er hún. Á henni blanda þeir saman hráum blackmetal og rólegu folk-kassagítarspili meðan söngvarinn Garm ýmist öskrar hásri röddu eða kyrjar eins og munkur. Mjög góður diskur.

Eitt lag fyrir hina óþolinmóðu: Capitel I, I Troldskog Faren Vild

Kveldssanger – 1995

Hérna taka Ulver folk-kassagítarspælinguna sem var í sumum lögum á Bergtatt, og gera heila plötu útfrá henni. Ekki beint rökrétt framhald af síðustu plötu, en það er ekkert sem heitir „rökrétt framhald“ hjá Ulver yfirleitt. Þessi diskur er rólegheitin uppmáluð, lögin samanstanda öll af kassagítarplokki og einskonar a cappella söng.

Eitt lag fyrir hina óþolinmóðu: Høyfjeldsbilde

Nattens Madrigal - Aatte Hymne til Ulven i Manden – 1996

Ef þessi plata væri matur þá væri hún dauður köttur sem liggur í vegkantinum. Svo hrá og óþægileg er hún. Nú vona ég að enginn móðgist, en a.m.k. fyrir mitt leyti ætla ég að halda því fram að þetta sé ein hráasta blackmetalplata sem gefin hefur verið út. Gítararnir eru fuzzy og söngurinn nánast óheyrilegur, en eftir nokkrar hlustanir fer maður að heyra yndislega frábæra tónlist úr þessum graut. Sagan segir að platan hafi verið tekin upp í norskum skógi, og sannarlega bjóða hljómgæðin upp á þann möguleika, en ég sel það ekki dýrara en ég keypti það.

Eitt lag fyrir hina óþolinmóðu: Hymn I – Of Wolf and Fear

Metamorphosis ep – 1999

Stafurinn U kemst ekki nálægt því að tákna hversu mikla beygju Ulver tóku á þessari plötu. Eftir að hafa gefið út hráustu blackmetalplötu sem ég hef nokkurntíman heyrt ákveða þessir menn að skipta algjörlega um gír… og fara út í trip-hop. Og það er ekki það ótrúlegasta. Það ótrúlegasta er að þessi plata er frábær, og ég er enginn trip-hop maður.

Eitt lag fyrir hina óþolinmóðu: Of Wolves and Vibrancy

Perdition City – 2000

Hér eru Ulver komnir í rólega gírinn aftur, með elektró-píanó-jazz blöndu sem er ekkert ótrúlega ósvipuð t.d. Kid A með Radiohead. Önnur U-beygja hér á ferð, samt sem áður frábær diskur.

Eitt lag fyrir hina óþolinmóðu: Lost in Moments

Eins og þið sjáið þá eru þessir menn óhræddir við að snúa blaðinu í marga hringi þegar þeir semja efni fyrir sinn næsta disk, og þessvegna er ómögulegt að reyna að lýsa Ulver í einhverjum nokkrum línum. Ef þú ert í plötubúð og sérð Ulver disk, keyptu hann.


Dub Buk
- fann enga official síðu

Dub Buk er á margan hátt lík „hinni“ blackmetalhljómsveitinni frá Úkraínu, Nokturnal Mortum. Báðar eru þær úkraínskar, spila báðar blackmetal og eru meðlimir þeirra beggja hoppandi nýnasistar. Þó eru Dub Buk tilraunakenndari í lagasmíðum sínum og nota til að mynda elektró-synthesizer í mörgum lögum sínum. Það sem mér finnst skemmtilegast við Dub Buk er hvernig þeim tekst að mynda Austur-Evrópska stemmningu í lögunum með ýmsum hljóðfærum og söngröddum. Stundum mætti jafnvel kalla þetta sígauna-blackmetal. Platan Idu Na Wy var sú sem greip mig fyrst og núna nýlega gáfu þeir út plötuna Rus Ponad Wse, sem ég er mikið að hlusta á þessa dagana.

Eitt lag fyrir hina óþolinmóðu: Idu Na Wy af Idu Na Wy


Borknagar
- http://www.borknagar.com

Borknagar er einskonar bland-í-poka-hliðarverkefni úr mörgum hljómsveitum. Hún var stofnuð af Oystein Brun sem var í Molested, Garm úr Ulver, Infernus, Ivar Bjornson sem var í Enslaved og Grim sem trommaði m.a. með Immortal og Gorgoroth.
Þeir hafa gefið út 6 plötur og hef ég mest verið að hlusta á The Olden Domain, The Archaic Course og Quintessence. Þetta er tónlist sem ég vil kalla framúrstefnu-(black)metal, og er stundum nokkuð lík tónlist Arcturus fyrir þá þekkja þá (enda er Garm, maðurinn á bakvið Ulver, í Arcturus). Enn ein frábæra hljómsveitin sem teygir blackmetalhugtakið það mikið að hún getur varla kallast blackmetalhljómsveit, en ræturnar ná sannarlega þangað.

Eitt lag fyrir hina óþolinmóðu: Colossus af Quintessence


Naglfar
- http://www.naglfar.net/

Ég hef bara hlustað á eina plötu með Naglfar, Diabolical, en mér finnst hún svo hressilega frábær að ég varð bara að nefna þessa hljómsveit. Mitt á milli blackmetal og deathmetal með sérlega skemmtilegum riffum, enda sænskir menn sem kunna á sín riff. Svo finnst mér nafnið líka alveg magnað.

Eitt lag fyrir hina óþolinmóðu: 12th Rising af Diabolical


Aborym
- http://web.tiscali.it/aborym/

Eins og með Naglfar þá hef ég takmarkaða reynslu af þessari hljómsveit, en það er margt sem réttlætir það að hafa hana á þessum lista. Fyrir það fyrsta er þetta ítölsk blackmetalhljómsveit, sem er ekki eitthvað sem maður heyrir um á hverjum degi. Einnig er söngvarinn í Aborym enginn annar en Attila Csihar, en hann er frægastur fyrir að eiga röddina á goðsagnakenndu plötunni De Mysteriis Dom Sathanas með Mayhem. Eina platan sem ég hef hlustað almennilega á með Aborym er Fire Walk With Us sem kom út 2001, og mér finnst hún alveg frábær. Svokallaður industrial-blackmetall, ef það segir ykkur eitthvað.

Eitt lag fyrir hina óþolinmóðu: Our Sentence af Fire Walk With Us


Ég ætla að segja þetta gott í bili, og ég vona að a.m.k. einn sem les þessa grein eigi eftir að uppgötva hljómsveit sem honum finnst frábær.

PS. Ég geri mér grein fyrir að ég taldi ekki upp hverja einustu útgáfu Ulver (t.d. sleppti ég allra fyrstu smáskífunni þeirra Vargnatt) en það var viljandi gert. Ég vildi bara fara stutt yfir sögu þeirra með því að fjalla örlítið um allar helstu plötur þeirra.

Zedlic