Into Eternity (Kan) 27. okt í Hellinum / 28. okt Grand Rokk RestingMind Concerts kynnir með stolti:

INTO ETERNITY á Íslandi

Hin margrómaða þungarokkshljómsveit Into Eternity frá Kanada mun leggja leið sína til landsins í október þar sem hún mun spila á tvennum tónleikum. Þessi stórkostlega hljómsveit er á mála hjá Century Media útgáfufyrirtækinu, sem er eitt það stærsta í bransanum og er á leiðinni í langt tónleikaferðalag í Evrópu í október mánuði með samlöndum sínum í sveitinni Kataklysm og þýsku sveitunum Graveworm og Mystic Circle. Sveitin mun enda tónleikaferðalag sitt hér á landi, og má því búast við alveg ótrúlega þéttri frammistöðu frá þeim, enda sveitin orðin vel þétt og með keyrsluna í lagi.

Into Eternity er ein af allra áhugaverðustu hljómsveitunum í þungarokkinu í dag og bryddar upp á sambræðing af nokkrum gerðum þungarokks, allt frá melódíum og söng í stíl við Iron Maiden og The Mars Volta, út í samhljómun á borð við Queen, og yfir í argasta dauðarokk. Óaðfinnanleg samblöndun á progressive power metal og tæknilegu dauðarokki, eins ólíkar stíltegundir og þær nú eru. Svo vel gera þeir það að bandaríska tímaritið Metal Maniacs lýsti því yfir nýlega að bandið hafi einfaldlega skapað sína eigin stefnu eitt síns liðs. Það sem gerir sveitina hvað sérstakasta er að allir meðlimir hennar syngja, 4 aðalsöngvarar sem allir syngja með (mismunandi) dauðarokksröddum, ásamt því að tveir þeirra skipta reglulega yfir í hreinar “clean” raddir. Þetta myndar mjög eftirminnilega hljóðmynd harmónía sem ekki margar sveitir leika eftir svo vel sé. Sveitin hefur einnig á að skipa framúrskarandi hljóðfæraleikurum sem sjá til þess að tónlistin kemst vel til skila, þétt og mössuð, enda er hún síður en svo í einhverju aukahlutverki.

Fyrri tónleikarnir verða fyrir alla aldurshópa og verða haldnir í Hellinum, hinu nýja og glæsilega tónleikahúsnæði í Tónlistarþróunarmiðstöðinni úti á Granda. Seinni tónleikarnir verða svo á Grand Rokk, sem er að verða einn af skemmtilegustu tónleikastöðum borgarinnar, en þar myndast oft alveg ótrúleg stemning.

Tóndæmi (innlend download)
Af Buried in Oblivion:
Spiralling Into Depression -
http://pc.skjalfti.is/dordingull/mp3/06_-_Spiralling_into_Depression.mp3
Embraced By Desolation -
http://pc.skjalfti.is/dordingull/mp3/02_-_Embraced_by_Desolation.mp3
Splintered Visions -
http://notendur.centrum.is/~drastl/IE/Into_Eternity_01_Splintered_Visions.mp3

Af Dead or Dreaming:
Dead or Dreaming -
http://notendur.centrum.is/~drastl/IE/IntoEternity_DeadorDreaming_deadordreaming.mp3

Video
Sjónvarpsstöðin Much Music gerði smá feature um sveitina fyrir nokkru, þar sem er tekið viðtal við hana, auk þess sem sýndar eru nokkrar glefsur af bandinu live.

Hér eru nokkur screenshots

http://www.intoeternity.com/video/iemm1.jpg
http://www.intoeternity.com/video/iemm2.jpg
http://www.intoeternity.com/video/iemm3.jpg
http://www.intoeternity.com/video/iemm4.jpg

http://www.intoeternity.com/video/ie-muchdoessask.wmv

Upphitunarhljómsveitirnar
Upphitunarhljómsveitirnar eru ekki af lakari endanum en þar fara fremstir í flokki hinir mögnuðu Klink sem eru að koma saman aftur eftir langt frí. Þessi sveit er ein af dáðustu sveitunum í íslensku harðkjarnasenunni og gáfu út stuttskífuna 666°N árið 2001 sem gerði allt vitlaust. Endurkomu Klink er beðið með mikilli eftirvæntingu.

Önnur sveit sem er að fá fólk til að sperra eyrun er norðlenska hljómsveitin Nevolution. Sveitin er nýbúin að gefa út 5 laga stuttskífu, The Jumpstop Theory sem er með því besta sem hefur heyrst frá íslenskri þungarokkshljómsveit lengi. Naut bandið fulltingis Smára ‘Tarfs’ Jósepssonar gítarleikara við gerð þessarar skífu, sem var tekin upp og framleidd (produced) af bandinu sjálfu.

Momentum, sem hét áður Afsprengi Satans, er sveit sem varð til úr ösku svartmetalsveitarinnar Myrk. Sveitin er gríðarlega þétt, enda skipuð miklum reynsluboltum í íslenska þungarokkinu. Sveitin losaði sig þó við svartmetal stimpilinn snemma þessa árs og fór að blanda alls konar áhrifum við tónlist sína. Virkilega gott band.

Hljómsveitin Brothers Majere úr Breiðholtinu er ein af yngstu en jafnframt skærustu þungarokkshljómsveitunum á Íslandi í dag. Sveitin komst í úrslit músiktilrauna í vor og hlaut fyrir vikið dóma eins og “Þéttari metalsveit en Brothers Majere er erfitt að finna sunnan Kolbeinseyjar.” [Birgir Örn Steinarsson, Fréttablaðið], “Spilagleðin var nánast smitandi og þéttleikinn og lagasmíðarnar í góðu lagi. Mjög efnilegt.” [Arnar Eggert, Morgunblaðið] og “Frábær rokksveit” [Árni Matthíasson, Morgunblaðið]. Sveitin hefur síðan gefið út split plötu með harðkjarnasveitinni Fighting Shit sem hefur fengið góðar viðtökur.

Still Not Fallen, er harðkjarnasveit, sem hefur látið mikið af sér kveða í tónleikahaldi síðustu ár. Sveitin hefur þó verið í löngum dvala og er að vakna nú til lífs aftur og því mikil eftirvænting hjá ansi mörgum. Sveitin komst í úrslit músiktilrauna 2003 og er núna að hljóðrita stuttskífu sem ætti að líta dagsins ljós í október.

Uppröðunin
Tónleikarnir og uppröðun hljómsveita er sem hér segir:

Miðvikudagur 27. október
Staður: TÞM (Tónlistarþróunarmiðstöðin). Strætó leið 2 stoppar beint fyrir utan!
Aldurstakmark: Ekkert! Vímuefnalaus skemmtun!
Húsið opnar: 19:00
Byrjar: 19:30
Miðaverð: aðeins 1.000 kr.
Uppröðunin:

INTO ETERNITY (Kanada)

NEVOLUTION (Akureyri)

MOMENTUM

BROTHERS MAJERE


Fimmtudagur 28. október
Staður: Grand Rokk
Aldurstakmark: 20 ára
Húsið opnar: 20:00
Byrjar: 21:00
Miðaverð: aðeins 1.000 kr.
Uppröðunin:

INTO ETERNITY (Kanada)

KLINK

NEVOLUTION (Akureyri)

STILL NOT FALLEN


RestingMind flutti inn fjórar erlendar hljómsveitir árið 2003, og hefur þegar flutt inn eina sveit það sem af er þessu ári, sænsku hljómsveitina Amon Amarth. Sú sveit hafði heljarinnar fylgdarlið með sér, kvikmyndatökulið til að taka upp tónleikana, fulltrúa 5 stærstu þungarokkstímaritanna í Evrópu sem fjölluðu um tónleikana, ásamt þriggja manna fylgdarliði frá útgáfufyrirtæki Amon Amarth, sem voru hér m.a. til að kíkja á íslensku sveitirnar sem hituðu upp. Hægt er að lesa allt um þetta á www.restingmind.com

Afrakstur þessa atburðar var að 1 - 4 síðna greinar birtust í öllum þessum tímaritum og upptaka tónleikanna á Grand Rokk skilaði sér sem bónus DVD diskur á nýjustu plötu sveitarinnar, Fate of Norns. Frábær landkynning það, en Amon Amarth er ein söluhæsta sveitin á útgáfufyrirtækinu sínu, Metal Blade Records.
Resting Mind concerts