Nightwish - Ein vinsælasta hljómsveitin í Evrópu Nightwish - Ein vinsælasta hljómsveitin í Evrópu um þessar mundir

Finnar hafa nú ekki oft verið þekktir fyrir mikla landvinninga á tónlistarsviðinu, árangur þeirra í Eurovision verið t.d. oftast frekar slæmur og tónlist þeirra átt lítið upp á pallborðið hjá öðrum þjóðum. Í fyrra kom hins vegar fram á sjónarsviðið hljómsveitin The Rasmus og tröllreið öllu og nú er röðin komin að hljómsveitinni Nightwish.

Nightwish þessi hefur þó verið starfandi um marga ára skeið (líkt og The Rasmus) og það er ekki fyrr en með útkomu nýjustu plötunnar, Once, að sveitin er að verða verulega vinsæl í Evrópu. Once kom út 7. júní síðastliðinn en strax daginn eftir var platan komin í platínusölu í Finnlandi! Platan hefur síðan þá náð gullsölu í Þýskalandi og Noregi og salan í Sviss, Austurríki og Svíþjóð er brátt að nálgast gullið. Platan hefur þar að auki verið í toppsætinu á sölulistum í löndum eins langt í burtu og Ungverjaland, Slóvenía og Grikkland. Er svo komið nú að í lok júní var Once vinsælasta platan í Evrópu skv. Eurocharts lista Billboard. Hefur platan þegar selst í um 500.000 eintökum!

Það sem gerir Nightwish svo sérstaka er að hún blandar saman melódísku þungarokki og klassískri tónlist Þar sem útkoman er epísk og mikilfengleg og samblöndunin því sem næst fullkomin. Söngkona Nightwish er lærð sópran söngkona og tónlist sveitarinnar er oft á tíðum skreytt stórfenglegum strengjaútsetningum, enda fór sveitin til London fyrir gerð Once og naut fulltingis London Session Orchestra, þeirrar hinnar sömu og sá um tónlistarflutning í Lord of the Rings III.

Velgengni í kjölfar Nemo myndbandsins
Fyrsta smáskífan af Once er lagið Nemo. Sú smáskífa hefur einnig selst eins og heitar lummur og náði platínusölu í Finnlandi, auk þess að ná toppsætinu í nokkrum löndum Evrópu. Myndbandið náði toppsætinu á MTV Europe Upnorth vinsældalistanum og hélt því í þrjár vikur. Vinsældir í Suður Ameríku láta heldur ekki á sér standa, því lagið náði fyrsta sætinu á MTV Brazil.

Lagið er á leiðinni í spilun á PoppTíví og Skjá Einum, þannig endilega vera dugleg að biðja um lagið á þessum miðlum ef þið getið.
Resting Mind concerts