Helloween - Keeper of the seven keys, part 1 Helloween – Keeper of the Seven Keys, Part 1

Þýska hljómsveitin Helloween var ein af þessum power metal hljómsveitum sem skutu upp kollinum á áttunda áratugnum. Power metallinn var tegund af traditional metalnum og Helloween, ásamt fleiri hljómsveitum áttu stóran þátt í að finna hann upp og þróa hann áfram. Dæmi um fleiri þýsk power metalbönd eru hljómsveitir eins og Rage, Running Wild og Grave Digger. Traditional metallinn er að mörgu leyti skyldur NWOBHM stefnunni og Judas Priest var ein af hljómsveitunum sem spilaði þetta dálítið í bland. Eitt af því sem einkenndi power metalinn var hraðinn og hvernig söngvararnir náðu oft að syngja í hárri tónhæð. Tempóið var oftast hraðar heldur en í þessum venjulega traditional metalli en þó ekki eins hratt og í death-, trash- og blackmetalnum.

Keeper of the Seven Keys Part 1 var 3. breiðskífa Helloween, en áður höfðu þeir gefið út plöturnar Helloween og Walls of Jericho, báðar frá 1985. Einnig höfðu þeir gefið út eina smáskífu ári síðar sem hét Judas. Á þessum plötum var hljómsveitin skipuð þeim Kai Hansen, sem spilaði á gítar og söng, gítarleikaranum Michael Weikath, bassaleikaranum Markus Grosskoph og trommaranum Ingo Schwichtenberg. Þessir fjórir menn höfðu verið að spila saman frá árinu 1984 en sögu hljómsveitarinnar mátti rekja allt til ársins 1979 þegar Kai Hansen og gítarleikari að nafni Piet Sielck voru að spila saman í hljómsveit sem hét Gentry. Eftir mikil meðlimaskipti fékk bandið nafnið Ironfish. Þá voru Ingo Schwitchtenberg og Markus Grosskoph komnir til sögunnar. Piet hætti svo í hljómsveitinni og fór að vinna sem hljóðmaður fyrir hljómsveitir eins og Grave Digger og Blind Guardian. Annar gítarleikari sem þekkti til þessara stráka, Micheal Weikath, hætti þá í hljómsveit sinni og gekk í hljómsveit Kais. Svona var hljómsveitin árið 1984 og fékk þá nafnið Helloween. Á fyrstu diskunum hafði Kai Hansen sungið en vegna þess hve honum þótti erfitt að syngja og spila á gítarinn í einu var ákveðið að ráða frábæran mann í bandið að nafni Michael Kiske. Kai gat nú einbeitt sér einungis að gítarnum. Með Michael Kiske tók Helloween upp mörg af sínum frægustu verkum. Fyrst þeirra voru Keeper of the seven keys plöturnar. Jæja, nú held ég að ég sé búinn að blaðra nóg um hljómsveitina svo að ég sný mér að því að skrifa um fyrri Keeper of the seven keys plötuna.

Keeper of the seven keys, part 1 var gefin út af útgáfufyrirtækinu Noise árið 1987 og var hún tekin upp í Horus Sound stúdíóinu í Hannover. Tommy Hansen og Tommy Newton voru framleiðendurnir og tóku plötuna upp og hljóðblönduðu hana. Kai Hansen og listamaðurinn Limb bjuggu til umslagið á plötunni. Kai Hansen samdi langflest lögin á plötunni, og því mun ég bara láta það koma fram hver samdi lögin, þegar ég fjalla um þau sem eru samin af hinum meðlimunum.

Platan byrjar á stuttum forleik eða Inatition eins og þeir láta það heita. Þetta er svona eins konar innsetningarathöfn og dálítið eins og verið sé að bjóða mann velkominn. Það inniheldur engan söng. Lagið endar á því að færa mann beint inn í næsta lag. Það kemur gríðarlega flott út og eiginlega er ekkert bil á milli þessara tveggja laga. Maður gæti haldið að þetta væri sama lagið.

Annað lag plötunnar heitir I’m alive. Það er virkilega flott lag og krafturinn heldur sig allan tímann. Lagið inniheldur nokkur hröð og flott sóló, samin og spiluð aðallega af Kai Hansen. Textinn fjallar dálítið um kóng, en margir Power metal-textar fjölluðu um það. Hér kemur örstutt brot úr textanum úr staðnum í laginu sem mér fannst flottastur: “Look into my eyes. So many things are waiting to be done, you just need a friend, together we will sing along.” Eins og í nær öllum lögum plötunnar syngja Kai Hansen, Micheal Weikath og Markus Grosskoph bakraddirnar af fullum krafti.

A little time heitir næsta lag plötunnar. Lagið er virkilega grípandi, sérstaklega viðlagið, en versin eru einnig mjög flott. Inniheldur sniðugan, rólegan millikafla. Hugmyndin á bakvið textann er mjög svipuð og í fyrra laginu. Þess verður líka að geta að lagið er eftir Michael Kiske, sem syngur það einnig af miklum krafti.

Fjórða lagið heitir Twilight of the gods. Að mínu mati er það með verstu lögunum á plötunni. Þó er það ágætt í sjálfu sér en ekki fyrr en maður skilur það almennilega. Í rauninni er lagið dálítið flókið og mér fannst það ekki sérstakt í fyrsta skipti sem ég heyrði það, en í annað skipti fannst mér það betra. Byrjar á mjög flottri gítarmelódíu frá Kai Hansen og síðan tekur við djúp tölvugerð rödd. Ekki er rödd Michael Kiske langt undan, sem heldur áfram með lagið og gerir það að því sem það er. Textanum er ég hrifnari af heldur en í hinum lögunum. Fjallaði um að guðirnir muni vernda líf stríðsmannana í bardaganum, ætli þeir hafi ekki fengið hugmyndina í gamla testamentinu?

Þá tekur við frábært lag eftir Michael Weikath, A tale that was’t right. Það er miklu rólegra heldur en hin lögin, en þrátt fyrir rólegheitin og fallegheitin er það mjög kröftugt og söngur Kiske magnaður. Hann beitir dýpri rödd heldur en í hinum lögunum, sem sýnir það eitt hve góður söngvari hann er.

Það er dálítið skrýtið og jafnframt frumlegt það sem gerist næst á plötunni. Næsta lagið er ekkert gefið upp að sé á plötunni. Enginn texti í bæklingnum og aftan á henni eru gefin upp átta lög en með þessu lagi eru þau níu. Þannig að ég veit ekkert hvað þetta lag heitir og heyri ekki almennilega um hvað textinn er. Hins vegar er þetta leiðinlegasta lagið á plötunni, þrátt fyrir að það sé ágætt. Sungið dálítið öðruvísi heldur en hin lögin og ég er ekki viss um að Kiske sé að syngja aðalröddina. ég verð að viðurkenna að ég hef ekki hlustað á Walls og Jericho og þessar fyrri plötur þannig að ég veit ekki almennilega hvernig Kai Hansen syngur.

Future world heitir svo næsta lag. Miklu betra heldur en það fyrra og allur söngur og hljóðfæraleikur virkilega flottur. Viðlagið held ég mest upp á. Textinn fjallar um framtíðarveröldina, þar sem lífið er fullkomið.

Áttunda lagið er hið þrettán mínútna langa Halloween-lag. Virkilega kraftmikið lag og með flottu viðlagi. Ástæðan fyrir því að það er svona gríðarlega langt eru allir millikaflarnir og sólóin. Semsagt er meiri hluti lagsins hálfgerðir útúrdúrar, sem væru kannski ekki nauðsynlegir, en eru samt flottir. Kiske syngur frábærlega og Kai Hansen og Michael Weikath taka nokkur sóló. Textinn fjallar um hrekkjarvökunóttina og er verið að gefa í skyn að eitthvað yfirnáttúrulegra sé á seiði heldur en grínið og glensið. Fjallar líka um mann sem hefur verið fangaður af hinu illa og gerir hvað sem er til að verða aftur frjáls.

Síðasta lagið á plötunni heitir svo Follow the sign. Í því er Kai Hansen að spila ágætis melódíu á gítarinn og Kiske að hvísla texta sem hljómar svona: “Now that you’ve made your choice. Follow the sign. Did you make your choice. You’re the Keeper of the seven keys. Our only hope is victory, so follow the sign”. Eins og diskurinn byrjaði á hálfgerðu intrói, má kannski segja að þetta sé akkúrat andstæðan við það. Lagið er samið af Kai Hansen og Michael Weikath í sameiningu.

Það verður að segjast að þessi plata er ein af flottustu verkum sem power metallinn hefur alið sér. Uppáhalds lögin mín á henni eru I’m alive, A tale that wasn’t right og Future world. Ég gef henni 9 í einkunn. Twilight of the gods og 6. lagið, sem ekki er gefið upp að sé á disknum, lækka hann örlítið niður. Ég held að þetta sé orðin fulllöng plötugagnrýni svo að ég hugsa að ég fari að segja þetta gott.

Takk fyrir mig

Kv. Jói