Platan ‘The Gallery’ með Dark Tranquillity Árið 1995 var stórgott og innblástursfullt ár fyrir metalinn í fyrndinni og þá sérstaklega fyrir sænsku metalsenuna. Það árið komu út plötur eins og ‘Slaughter of the Soul’ með At the Gates, ‘The Jester Race’ með In Flames, ‘Storm of the Light’s Bane’ með Dissection nokkrum, frumburður Opeth – er hét ‘Orchid’. Einnig ber að nefna aðrar plötur eins og ‘Destroy Erase Imrpove’ með taktnauðgurnum í Meshuggah, ‘Opus Nocturne’ með svartmálmurunum í Marduk og plötuna sem batt enda á feril hina goðsagnakenndu Candlemass, ‘Chapter VI’. Flestar ofangreindar plötur voru eitthvað í sviðsljósinu á því ári, með þeim afleiðingum að margar verðugri plötur féllu í skuggann á þeim og létu ekki eins mikið á sér kræla. Ein þessara plata er meistaraverkið ‘The Gallery’ með svíunum í Dark Tranquillity, einu því frumlegasta bandi sem hefur nokkuð tíman komið út úr ‘Gautaborgar-senuni’ svokölluðu. Ólíkt lærifeðrum sínum í t.d Entombed eða At the Gates, reyndu Dark Tranquillity að gera melódískari, frumlegri, léttari en í raun harðari hluti en flestar aðrar sænskar hljómsveitir. Í kringum 1991 var hljómsveitinn farinn að tjá sig á þann hátt mjög sýnilega, en hún var stofnuð í kringum 1989 – en ég tel að flestir hafa lesið greinina um Dark Tranquillity sem er að finna á dordingul. Ég nenni ekki að fara að tala um meðlimi eða mannskipanir, en á plötunni sem ég er að tala um er mannskipaninn eftirfarandi:

Mikael Stanne: Söngur
Frederik Johannsson: Gítar
Niklas Sundin: Gítar
Martin Hendriksson: Bassi
Anders Jivarp: Trommur

Núverandi söngvari In Flames, Anders Freiden söng á fyrstu plötu þeirra, ‘Skydancer’, sem leit dagsins ljós árið 1993. Þar er tilraunamennskan að sýna sig einum of og hlutir sem ættu að hljóma vel undir venjulegum kringumstæðum klikka, eins og söngurinn t.d sem passar alls ekki. Óhefðbundinn píanóleikur leikur einum of lausum hala á plötunni, ofnotkun kassagítarra og kvenradda dregur úr flæði plötunar og framleiðslan er líka full hrá. En ekki vantar atmoið á plötunni og viðbrögðin voru allgóð. Á ‘The Gallery’ eru þeir hins vegar á allt öðrum slóðum og með fullu viti á því hvað þeir eru að gera. Lögin eru ekki eins löng og þeir eru ekki algjörir grænjaxlar á þessu sviði lengur heldur eru þeir að spila af meiri fagmennsku. Framleiðslan er mjög góð, enda er um að ræða plötu sem var tekin upp í Studio Fredman, eins og margar plötur árið 1995 en samt hljóma þær plötur tiltörulega ósvipaðar. Sándið á ‘The Gallery’ setur lögin í mun betra form en áður, er góð þróun frá ‘Skydancer’ og gefur lögunum sem hér eru að finna allt annan fíling og líf. Formúlan er nokkurn vegin þessi: Tæknilegur trommuleikur sem skiptir mjög um hraða og stjórnar lögum mun frekar en í annarri hljómsveit, mjög melódískar gítarriffur sem virka bæði mjög léttar eða harðar, fer aðallega eftir trommuhraðanum en lögin byggjast samt alveg eftir riffunum og svo loks söng sem er góður millivegur á milli “ælusöngs” og “hreinum söng”, svona þokkalega skiljanlegum growl-söng. Bassinn fær líka að njóta sig hér og hefur meiri tilgang frekar en að “vera bara þarna” eins og í mörgum hljómsveitum og ofan á þetta allt saman bættist mikil tilraunamennska eins og kassagítarleikur og kvenbakraddir. Á ‘The Gallery’, sem er gefin út af Century Media til að taka það sérstkalega fram, er þetta fullkomnað allt saman.

(Dómur um hvert lag fyrir sig)
Á plötunni er að finna 11 frábær lög og mér hefur lítið leiðst einhver þeirra.


01. ‘Punish My Heaven’ (4:47)

Byrjar á nokkra sekúndu trommuleik og svo byrjar mjög óhefðbundinn en melódísk og hröð “gautaborgar”-riffa. Þeir bíða ekkert með að sýna hvað í þeim býr, þetta er alveg frábært og mjög góðar kaflaskiptingar í þessu lagi. Einnig mjög flott hvernig þeir setja flottar og tilfinningaríkar gítarbölluður með engum undirleik frá öðrum hljóðfærum og svona “hvísl” á milli kafla stundum. Þetta er fyrsta lagið sem ég heyrði með þessum dúðum og þetta var einnig fyrsti “hittarinn” sem þeir áttu og fyrsta tónleika-uppáhaldið fyrir utan kannski lagið ‘Nightfall by the Shore’, opnunarlag ‘Skydancer’ plötunar. Þetta lag kom mér beinlínis ekki inn í Dark Tranquillity við fyrstu hlustun, enda virkaði það frekar þungt á mig þegar ég heyrði það fyrst, 13 ára gamall vesælingur. Það sannfærði mig ekki alveg á ‘The Gallery’ fyrst vegna þess að það er mun minna af grípandi stefum og tempo-um hér en í öðrum lögum, en annars er þetta fyrirmyndar lag sem þarf kannski bara smá þolinmæði.
9/10

02. ‘Silence, And The Firmament Withdrew’ (2:36)

Það er aðeins einn galli á þessu meistaraverki, það er of stutt. Í raunninni eru tveir gallar, það að ég geti ekki sett inn í link fyrir lagið inn á greinum inn á huga – þið sem lesið þetta yrðuð öll ofurháðir aðdáendur sveitarinnar á nokkrum sekúndum. Lagið byrjar á ógeðslega flottu og grípandi melódíu sem maður vildi glaður fá á heilann í daglegu lífi og svo aðeins hraðari “leiðarariffu” áður en að aðrir kaflar taka við. Hér er t.d meira af tilfinningaríkum hljómagöngum og grípandi stefum en í fyrsta lagi plötunar sem ég var að tala um en þeir gera þetta eflaust að einu besta lagi sem ég hef heyrt í langan tíma. Lang besta lag disksins.
10/10

03. ‘Edenspring’ (4:31)

Hér er að finna enn einn gerlissneydda gullmolann. Byrjar aðeins öðruvísi máta með flottri bassabyrjun með symbölum undir. Svo fer að hljóma harkalega í floor-tom trommunni og gítarnum að spila sama stef og svo fer allt í hraðasta gír. Lagið verður með tímanum aðeins rokkarða og endar á sama stefi og hér að finna vanfundin, himnesk gítarsólo. Þessi hljómsveit er ansi frjógvur eyrnakonfekts-framleiðandi, hér annað fullkomið lag. Gallalaust og frábært lag, algjör gullmoli.
10/10 (og ég sem hef mjög háan staðal á tónlist)

04. ‘The Dividing Line’ (5:01)

Ofangreind frjóvsemi hefur eilítið hjaðnað í þessu lagi en þetta er samt mjög gott lag.. Þeir eru á þessum kafla plötunar að gera lög í aðeins rokkaðri kanti og blanda hér aftur flottum sólum (og meira að segja píanóleik undir :o) inn á milli kafla sem byggjast flestir á sömu melódíuni. Lagið er líka aðeins lengra en fyrri lög plötunar, hér annað gott lag á ferðini.
8/10

05. ‘The Gallery’ (4:08)

Það er meiri sorglegheit og tilfinningar í þessu tiltekna lagi en annars staðar á plötuni, finnst mér. Aðeins meiri gothic-stemming sem verður sýnileg frekar snemma. Ólíkt öðrum lögum byrjar þetta allt saman á kassagítar og fer svo yfir í mjög tilfinningaþrunginn gítarleik. Þetta er annað “anthem” bandsins, á eftir ‘Punish My Heaven’. Hér í laginu er að finnast eitt það fyrsta á plötunni sem mér finnst draga hana niður og það er þessi kvensöngur sem blandast ofan í sorgarstemminguna, en það virkar allt saman niðurdrepandi á mig. Ég reyni helst að sleppa þessu lagi meðan ég er að hlusta á plötuna en það eru eflaust margir aðrir sem finnst þetta flott og sannfærandi.
6/10

06. ‘The One Brooding Warning’ (4:14)

Ef platan væri línurit væri línan að fara aðeins niður á við hér, þetta er svona helsti “niðurpunktur” hennar, þessi kafli. Það er samt alveg hægt að misskilja mig með þessari myndlíkingu, þetta lag á sína spretti – eins og t.d mjög flotta byrjun og aðra kafla en gothic, “myrkvaða” stemminginn er hér á fullri ferð og það eyðileggur soldið fyrir hljómsveitinni finnst mér. Ágætt lag samt.
7/10

07. ‘Midway Through Infinity’ (3:28)

Ég held að stystu lögin á plötunni séu þau bestu, því hér fara hlutrnir að batna all-verulega. Ógeðslega flottar melódíur framkvæmdar ofan á vélbyssu-trommuleik mest allan tíman og fyrsti alvöru double-bass notkunin hérna í þessu lagi. Viðlagið er líka mjög flott, en það er samt minna af tónlistarlegri lógísk hér en í öðrum lögum.
9/10

08. ‘Lethe’ (4:42)

Djöfull tekst þeim að kokka upp flott lög á þessari plötu, hvert lagið á fætur öðru eru ógleymanlega mögnuð og flott. Þetta tiltekna lag byrjar á þokkalegu strengjaplokki sem nær yfir fyrstu mínutuna og svo taka flott gítargrip manni með opnum hlýjum faðmi og heilla mann upp úr skónnum. Þetta lag er aðeins hægara en hið fyrra og þarf kannski aðeins að melta það meira en önnur lög á plötuni, en hluturnir smella ekki síður saman en í öðrum lögum. Þriðja “anthem” bandsins.

8/10

09. ‘The Emptiness From Which I Fed’ (5:43)

Byrjuninn á þessu lagi er soldið sérstök þar sem er meira af svona effekta-hvirfilvindi blandað ofan í gítarleikinn en svo tekur við enn eitt melódíubaðið. Ég get varla kallað þetta uppfyllingarefni frekar en önnur lög vegna þess að eins og öll þau á ‘The Emptiness From Which I Fed’ sín andartök, en ég hef aldrei fílað þetta lag neitt sérstkalega svona persónulega. Samt lag sem ég mundi taka með inn í hópinn ef ég vildi reyna að hlusta á alla plötuna í heild sinni.
7/10

10. ‘Mine Is The Grandeur’ (2:27)

Söguleg kassagítar-spilun undir háværum trommum svona til að róa mann sitt hvað niður og halda manni á ákveðnu róli fyrir loka lagið. Þetta lag er mjög flott, mætti nota í einhver bardaga-atriðin í myndunum um Hringadróttinssögu þegar tekið er tillit til þess hversu epískt lagið er. Mjög flott og melódískt og sýnir fram á fjölbreytni hljómsveitarinnar.

9/10

11. ‘…Of Melancholy Burning’ (6:15)

Einn besti endir á plötu sem ég hef heyrt í langan tíma. Annað persónulegt uppáhald. Það væri kannski hægt að nota þetta í Hringadróttinssögu líka eftir að hið góða sigrar að lokum í svipaðri stemmingu og í lokaatriði ‘Return of the Jedi’. Allt sem einkennnir hljómsveitina á þessum disk í öðrum lögum og í raun flest Gautarborgar-böndin fær að njóta sín til fulls hér líka, gítarsólo svo flott að orð komast ekki nálægt því að lýsa því, prógressív kaflaskipting – mikið af bæði mjög hröðum og frekar hægum köflum í þessu lagi og ofangreindum “leiðarariffum” sem eru ansi sannfærandi verð ég að segja. Frábært lag…

10/10

Bestu lög:

‘Silence, And The Firmament Withdrew’
‘Edenspring’
‘…Of Melancholy Burning’

Dark Tranquillity hafa farið í gegnum talsverðar breytingar í gegnum árin og eru í dag fastir í ansi sorglegum örlagavef. Þeir héldu áfram að sýna meistaratilþrif sem voru engum lík á plötuni ‘The Mind’s I’ árið 1997 sem innihélt mörg klassískar Dark Tranquillity ballöður eins og t.d ‘Dreamlore Degenerate’, ‘Zodijackyl Light’ og ‘Insanity’s Crescendo’. Þeir öðlust mikla hyllingu fyrir þá plötu sem er í svipuðum dúr og ‘The Gallery’. Diskurinn er sannkallað meistaraverk einnig, þótt ég verð að segja að mér finnst ‘The Gallery’ aðeins betri. Árið 1999 gáfu þeir út ‘Projector’ sem olli miklum vonbriðgum á meðal hörðustu aðdáenda þar sem þeir fóru að gera léttari og myrkvaðri tónlist og tóku svo umfangsmiklum breytingum að fólk hélt stundum að þetta væri ekki sama bandið. ´Haven’ platan fylgdi í kjölfarið árið 2000 og þá voru þeir búnir að bæta ofan í harmleikinn hljómborðsleikara sem bætir ekki beinlínis ástandið, og lögin orðin mun gotneskari og rokkaðri fyrir vikið. ‘Damage Done’ sá svo dagsljósið 2002 og er í svipaðri umgjörð og ‘Haven’. Þetta árið munu upptökur á nýrri plötu hefjast þar sem einnig verður gefin út DVD diskur og plata undir nafninu ‘Live Damage’.