Metallica - ...And Justice For All Eftir harmleikinn sem átti sér stað þann 27. september, 1986 voru meðlimir Metallica aðeins hársbreidd frá því að hætta en þeir vissu að Cliff hefði viljað að þeir hefðu haldið áfram og sem betur fer fórum þeir ‘að hans ráðum’. Hófst þá mánaðarlöng leit að nýjum bassaleikara. James þótti ekkert ljúfmenni þegar kom að áheyrnarprófum, ef honum líkaði ekki bassann þeirra þá öskraði hann bara ‘Næsti!’ Þá 28. október mætti Jason Newsted í áheyrnarpróf og var þá búinn að læra öll lögin á nokkrum dögum, hann vakti þrjá daga samfellt að læra lögin. Þeir spurðu hann hvað hann ætlaði að spila og hann spurði bara hvað þeir vildu að hann spilaði. Nokkru seinna buðu þeir hann velkominn í Metallica. Þetta átti þó ekki eftir að verða neinn dans á rósum fyrir Newsted að vera meðlimur í Metallica því hinir þrír meðlimirnir reyndu á þolrif hans til hins ýtrasta með alls konar hrekkjum og leiðindum til að sjá hvort hann gæti fetað í fótspor Cliff Burtons. Jason minnist þess sérstaklega að það versta sem þeir gerðu honum var að útiloka hann á …And Justice For All plötunni eða lækka bassann eiginlega alveg niður. En þrátt fyrir það er þetta mögnuð plata og fylgir Master of Puppets fast á eftir.

1. Blackened – 6:42
Byrjar með rólegum 40 sekúndna part og kemur svo töff byrjun á frábæru lagi. Þetta lag fjallar um það sama og Hetfield söng um í Fight Fire With Fire, kjarnorkustríð sem myndi enda heiminn. Flott riff og sólóið eitt af mínum uppáhalds. Svo eru trommurnar á fullu að hætti Ulrich. Frábært lag.
9/10

2. …And Justice For All – 9:46
Kannski aðeins fullangt fyrir minn smekk en mjög gott lag engu að síður. Lagið er líklega byggt á kvikmynd frá ‘76 með Al Pacino í aðalhlutverki, hún ber sama nafn og lagið. Lagið fjallar um spillingu í réttarkerfinu og hvernig peningar verða mikilvægari en sannleikurinn. Flottur texti að venju hjá Hetfield, “Halls of Justice Painted Green, Money Talking”. Svo eftir nokkurn tíma kemur flott sóló, byrjar með smá tilfinningum inn í en verður svo hratt. Mjög gott lag.
9/10

3. Eye of the Beholder – 6:25
Ég hef aldrei verið neitt sérstaklega hrifinn af þessu lagi en ágætt fyrir það. Fjallar um hvernig frelsið er takmarkað með lögunum. Fínt riff, sólóið ágætt en frekar stutt. Ég veit eiginlega ekkert hvað ég á að segja meira um þetta lag. Ágætt lag en ekki með þeirra bestu.
7/10

4. One – 7:26
Snilld, hvað annað er hægt að segja um þetta lag? Flott gítarintro hjá Hetfield og svakalegt gítarsóló hjá Kirk. Þetta sóló endaði í 4. sæti yfir bestu sólóin, með sóló úr Stairway to Heaven (1.), Comfortably Numb (3.) og Free Bird (5.) að verma sætin við hliðina. Svo hafnaði það aftur á sama lista ári seinna í 7. sæti. Ekki slæmt. Lagið fjallar um hvernig það er að verða útskúfaður frá alheiminum rétt eins og persónan í kvikmyndinni sem Hetfield byggir lagið á, ’Johnny Got His Gun' frá ‘71. Frábært hvernig Metallica byggir lagið upp frá meðalrólegu lagi upp í frábært hratt og hart lag með flottum trommum og geðveikum gítar. Með þeirra allra, allra bestu og þeim bestu sem hafa verið samin frá upphafi.
10/10

5. The Shortest Straw – 6:35
Kannski ekki margir sem vita þetta en sumir pæla í því hvort þetta lag gæti verið tribute til Cliff Burtons. Allir meðlimirnir fjórir áttu sér sæti í rútunni en svo vildi Cliff skipta við Kirk og drógu þeir uppá það, Kirk dró spaðaásinn þannig að Cliff hefur liklega dregið ’stysta stráið'. Lagið fjallar hinsvegar um ‘Svarta listann’ á tímum 6. áratugarins þegar menn með mismunandi stjórnarskoðanir voru settir á listann og þeim haldið niðri. Skemmtilegt lag með flottum riff og góðu sólói. Þetta er bara mjög gott lag en fer samt ekki á listann yfir þeirra allra bestu.
8/10

6. Harvester of Sorrow – 5:45
Gott lag um drukkinn og dópaðan mann sem pínir fjölskyldu sína áður en hann bilast og myrðir þau öll. Gott riff og fínt sóló. Varla meira hægt að segja um þetta lag en það. Fínt lag.
8/10

7. The Frayed Ends of Sanity – 7:43
Byrjunin á þessu lagi er fengin lánuð úr ‘The Wizard of Oz’. Lagið fjallar um paranoiu og þann galla að geta ekki greint raunveruleika frá óraunveruleika. Grípandi á köflum með fínu riffi og með skemmtilega hressandi sólói. Aldrei hlustað neitt mikið á þetta lag. Gott lag.
7.5/10

8. To Live Is To Die – 9:49
Þriðja Instrumental verk Metallica. Lagið er tileinkað Cliff heitnum. Það er ekkert neitt magnað við þetta lag nema þegar komið er á 4:30 mínútu, þegar það kemur þetta ótrúlega fallega sóló sem ég gleymi aldrei. Það eru svo miklar tilfinningar í þessu sólói. Svo kemur annað sóló sem er ekki síðra og svo annað! Ég vara ykkur við að hlusta á þetta lag ef þið eruð sorgmædd, þið gætuð farið að gráta! Frábært lag.
10/10

9. Dyers Eve – 5:14
Þetta er lokalagið á plötunni og það lýkur henni með rykk. Virkilega hratt og gott lag með frábærum riff og hreint frábæru sólói. Svo er alltaf hressandi að hlusta á Double-kickerinn hans Lars á fullu. Lagið fjallar um reiði einhvers gagnvart foreldrum sínum og hvernig þeir fóru með hann á yngri árum. Talið er að þetta sé eitthvað skylt James og fortíð hans. Frábært lag.
10/10

Þessi plata fær fullt hús hjá mér. Hún er þó ekki jafngóð og Master of Puppets finnst mér. Önnur skyldueign í safnið.