Metallica - Ride the Lightning Ride the Lightning var stór framför frá Kill ‘Em All, hinni góðu thrash-metalplötu sem átti drjúgan hlut í því að skapa thrashmetalinn, sumir vilja meina að sú plata hafi búið til Thrash-Metal. En það eru nú skiptar skoðanir um það. Það sem gerir Ride the Lightning að betri plötu en Kill ‘Em All er að lagasmíðarnar eru vandaðri og ekki eins hráar og á Kill ‘Em All. Dýpri textar og skemmtilegri sóló. Ástæðan fyrir betri sólóum er kannski að Kirk fór þá að semja sjálfur í stað þess að vera reyna gera eins og Dave Mustaine. Þarna voru þeir líka byrjaðir að læra meira um aðra hljóma og prófuðu þeir ný hljóðfæri. En þarna með þessari plötu vissu gagnrýnendur og almenningur að hér væri hljómsveit sem vert væri að fylgjast með.

1. Fight Fire With Fire – 4:44
Rólegt introið spilað á 12 strengja akústik gítar. Eftir smátíma kemur svo hraðasta lag Metallica sem þeir hafa samið. Riffið minnir mig nokkuð mikið á Angel of Death með Slayer, en það lag kom út þremur árum seinna á Reign in Blood. Það eina sem pirrar mig smá er hvernig James syngur lagið. Lagið fjallar um ef kjarnorkusprengja er send í hefndarskyni og það myndi binda endan á tilveruna. Kröftugt sóló setur góðan svip á lagið. Í heildina þrælgott lag.
9/10

2. Ride the Lightning – 6:37
Titillag plötunnar stendur fyrir sínu. Grípandi intro og öflugur söngur hjá Hetfield. Lagið fjallar mann sem á að fara taka af lífi fyrir glæp sem hann framdi ekki. Lagið rennur ljúflega í gegn þar til kemur að gítarsólói meistara Kirk sem heldur manni föstum, frábært sóló. Eitt af hans flottustu. Frábært lag.
9/10

3. For Whom the Bell Tolls – 5:11
Epísk. Hvað annað er hægt að segja um það? Frábært lag með einni flottustu byrjun sem ég hef heyrt í gegnum hátalara. Fyrstu tvær mínúturnar fá hvern og einn til að slefa yfir. Restin er ekki eins mögnuð en þrátt fyrir það mjög góð. Lagið er byggt á sögu Ernest Hemmingway um fimm hermenn sem eru drepnir af loftárás.
9.5/10

4. Fade to Black – 6:55
Ef þetta hefði verið eina lagið á disknum hefði ég samt keypt hann. Ótrúlega frábært lag í alla staði. Það er ekkert sem ég get sett út á það. Frábært intro sem segir manni að hér er lag sem maður verður að hlusta á. Lagið var samið rétt eftir að meðlimir Metallica urðu fyrir miklu áfalli, m.a. var einum mjög sérstökum Marshall magnara þeirra var stolið eftir tónleika í Boston ásamt helling af öðrum græjum. Þeir þurftu að leita í tveimur heimsálfum til að fá annan magnara með svipuðum hljóm. Margir aðdáendur köstuðu skít í þá fyrir að vera með ‘ballöðu’ á plötunni. Fyndið í dag þar sem þetta er talið eitt af allra bestu lögum þeirra. Lagið fjallar um mann sem missir viljann til að halda áfram og fremur sjálfsmorð. Metallica fengu bréf frá mörgum sem hættu við að fremja sjálfsmorð eftir að hafa hlustað á lagið. En þeir fengu líka bréf um að krakkar væru að drepa sig vegna lagsins. Svo kemur lokahlutinn sem ég held mjög mikið upp á. Á síðustu tveimur mínútunum kemur mitt uppáhaldssóló með Metallica og eitt af mínum uppáhaldssólóum almennt. Hreint út sagt stórkostlegt lag.
10/10

5. Trapped under Ice – 4:04
Eftir að hafa hlustað á Fade to Black er ekki sanngjarnt að miða Trapped Under Ice við það, því það kæmi út sem hræðilegt lag. Trapped Under Ice er fínt lag með grípandi riffi og skemmtilegum texta. Lagið fjallar um einhvern sem líður eins og hann sé fastur undir ís og frýs til dauða. Hægt að líkja þessu við lífi eiturlyfjaneytanda. Lagið byrjar á hröðu og flottu sólói og kemur svo þéttur söngur Hetfields. Lagið er mjög fínt en vantar eitthvað í það til að gera það að frábæru lagi.
8/10

6. Escape – 4:24
Á öllum plötum er lélegasta lagið. Þetta varð fyrir valinu á þessari plötu að mínu mati. Reyndar er textinn ekki svo vitlaus. Hann fjallar um fanga á flótta. Það er einnig hægt að túlka þetta sem flótta frá öllu sem reynir að hindra þig frá því að gera það sem þú vilt. Boðskapurinn í þessu lagi er þá e.t.v. að láta ekki neinn skipa þér fyrir hvernig þú átt að lifa þínu lífi. Ágætt lag.
7/10

7. Creeping Death – 6:36
Þetta lag er Master of Puppets þessa disks, ef þið skiljið mig. Skemmtilega grípandi riff frá byrjun til enda og magnað sóló frá Kirk. Hvatningin að þessu lagi var þegar meðlimir Metallica sáu kvikmyndina ‘The Ten Commandments’. Hún er um plágur sem réðust á Egyptaland. Titillinn af laginu er kominn beint frá Cliff sjálfum, en hann sagði þessa skemmtilegu setningu, “whoa.. that’s like creeping death”. ‘Creeping Death’ sjálfur er engill sendur af guði, Engill Dauðans, og hann er sendur til að drepa frumburð allra fjölskylda. Frábært lag.
10/10

8. The Call of Ktulu – 8:55
Fyrsta instrumental verk þeirra og er óhætt að segja að þeir hafi verið vel af stað. Eins og með The Thing That Should Not Be þá er The Call of Ktulu byggt á einni af sögu H.P. Lovecrafts, ‘The Shadow over Innsmouth’. Það kemur kannski mörgum á óvart en það var enginn annar en Cliff sjálfur sem kynnti hljómsveitina fyrir þessari bók. Reyndar á Cliff stóran þátt í öllu epísku sem þeir hafa gert. Cliff var líka alltaf að stúdera klassíska tónlist og þannig lagað. Það má kannski segja að Cliff hafi haft stóran hluta í því að beina Metallica yfir á þessa góðu braut. Frábært lag en mér finnst það margfalt betra í S&M flutningi.
10/10

Þetta er þriðja og síðasta platan með Metallica sem fær fullt hús hjá mér. Vonandi hafið þið haft gaman af.