Motley Crue - fyrri hluti Hljómsvetin Motley Crue er sennilega mest þekkt í dag fyrir skrautlegt líferni meðlima hennar og hjónbönd sem hafa endað með barsmíðum og öðru slíku. Þeir hafa flestir gifst og verið með fyrirsætum, leikkonum og Baywatch-gellum. Hljómsvetin hefur starfað í 23 ár, en samt ekki gefið út nema 7 stúdíóplötur, sem geta ekki talist mikil afköst, en um tíma voru þeir í hópi vinsælustu hljómsveita Bandaríkjanna og hafa selt um meira en 30 milljón plötur að meðtöldum ýmsum live og best of útgáfum.

Motley Crue var stofnuð í Hollywood í Kaliforníu árið 1980 af þeim Nikki Sixx bassaleikara, sem heitir réttu nafni Frank Farrino, Vince Neil söngvara sem heitir réttu nafni Vincent Neil Wharton, Mick Mars gítarleikara, sem heitir réttu nafni Robert Deal og hinum grískættaða Tommy Lee trommuleikara sem heitir réttu nafni Thomas Lee Bass.

Neil og Lee höfðu verið saman í bandi sem hét Rock Candy, en Sixx hafði verið með hljómsveit sem hét London. Það var auglýst eftir gítarleikara og þannig höfðu þeir uppá Mars. Hann ar dálítið eldri en þeir og reyndari í bransanum og hann kom á sambandi við umboðsmann sem skaffaði þeim peninga til að kaupa hljóðfæri og spila. Þeir ætluðu upphaflega að bæta við öðrum gítarleikara og voru búnir að ráða Jake Lee sem síðar spilaði með Ozzy Osbourne, en þegar Mars frétti af því hótði hann að hætta og taka peningana með sér því að hann hafði aflað þeirra, þannig að það varð ekkert úr þeim áformum.

Þeir lögðu strax mikið uppúr því að klæðast skrautlegum fötum, málningu í andlitið og túperuðu hári og urðu fljótlega mjög vinsælir á Los Angeles svæðinu þar sem var mikið að gerast á þessum tíma og hljómsveitir spruttu upp hver af annarri. Ólíkt mörgum hljómsveitum þá þurftu þeir ekki að berjast í bökkum vegna þess hversu vinsælir þeir urðu strax sem hljómleikaband á þessu svæði. Til að gefa eitthvað út þá stofnuðu þeir sjálfir útgáfufyrirtækið Lethur Records og tóku sjálfir og gáfu út litla plötu með tveimur lögum sumarið 1981.

Í ágúst árið eftir gáfu þeir út stóra plötu sem fékk nafnið “Too Fast For Love”. Hún seldist upp og varð fljótlega safngripur og er ófáanleg í dag. Þeir fengu nær strax samning vi Electra útgáfuna og rætt var um að þeir tækju plötuna upp aftur, en upphaflega útgáfan var afar hrá og groddaleg. Það var síðan fallið frá því og Electra endurútgáfu plötuna eftir að endurhljóðblanda hana rösklega. Tónlistin á Too Fast þótti raunar minna dálítið á enska pönktónlist í poppuðu ívafi og helstu lögin af henni eru Live Wire, Piece Of Your Action og tiltillagið Too Fast For Love.

Too fast for love seldist mjög vel og bandið vakti mikla athygli utan LA. Þeir spiluðu vítt og breytt um Bandaríkin og hituðu upp hjá mörgum sveitum sem voru orðnar mun þekktari eins og AC/DC og Judas Priest. Electra vildu fljótlega fara að sjá nýtt efni og í snemma árs 1983 fóru þeir að taka upp næstu plötu. Hún kom út síðar á því ári og fékk nafnið “Shout At The Devil”. Það var mikið í hana lagt og umslag plötunnar var býsna vandað. Sömuleiðis var sándið allt annað en á fyrstu plötunni og nú var kominn þéttar bassalínur ofaná þungt bassatrommusandið hjá Tommy Lee.

Hljómsveitin fékk strax gagnrýni á titil plötunnar. Þeir voru og höfðu verið frá upphafi sakaðir um djöfladýrkun og annað í þeim dúr. Á innra umslagi Too Fast hafði verið mynd af þeim við altari og stóra pentagram stjörnu og framaná framan á umslagi Shout var mynd af pentagram á hvolfi. Þeir félagar létu sér þetta allt í léttu rúmi liggja eins og flest annað. Shout seldist í meira en milljón eintökum og þeir spiluðu m.a. í Japan og Evrópu til að fylgja henni eftir. Helstu lögin á Shout eru auk titillagsins, Looks that kill, Red Hot, og Danger. Einnig var að finna á henni útgáfu af Bítlalaginu Helter Skelter.

Þegar undirbúningur að þriðju plötu þeirra stóð yfir, varð rétt fyrir jólin 1984, atburður sem setti framtíð bandsins í mikinn vafa um tíma. Vince Neil söngvari missti þá vald á Ferrari bílnum sínum á mikilli ferð á hrðabraut þannig að hann lenti framaná öðrum bíl. Í bílnum með Neil var trommari finnsku hljómsvetarinnar Hanoi Rocks að nafni Razzle. Hann lést í árekstrinum og þeir sem voru í hinum bílnum slösuðust alvarlega. Neil var kærður vegna atviksins og vegna þess að hann var vel við skál eins og hann hafði venjulega verið undanfarin ár, gat hann búist við allt að 15 ára fangelsi. Það tók nokkra mánuði að klára málið og að lokum slapp Vince Neil með tveggja mánaða fangelsi og háar bætur. Þetta tafði útgáfu plötunnar verulega og sögur gengu um að bandið hefði verð leyst upp. En platan kom að lokum út síðla árs 1985 og fékk nafnið “Theater Of Pain”. Hún seldist í meira en 3 milljón eintökum og þeir urðu í kjölfarið ein vinsælasta hljómleikasveit Bandaríkjanna.

Á Theater Of Pain notuðu þeir í fyrsta sinn hljómborð, en Tommy Lee spilaði á píanó í laginu Home Sweet Home. Það er tekið til marks um vinsældir þeirra á þessum tíma að þessi stutti píaónókafli Tommy Lee var til þess að hann vann titilinn hljómborðsleikari ársins í vinsældakosningum fjölda tímarita. Home Sweet Home varð býsna vinsælt auk laganna Smokin In The Boys Room og Wild Side.

Hljómleikferðirnar voru skrautlegar. Dópið í kílóatali og whiskíið flaut allstaðar. Sögur um stöðugt hópsex og ótrúlegt kynsvall og partí sem stóðu í marga daga barust í sífellu og sumar þeirra svo ótrúlegar að þær gátu vart verið annað en sannar, því að hefði þurft verulegt hugmyndaflug til að skálda þær. Hótelherbergjumm og bílum var rústað og þeir fengu stimpilinn villtasta rokksveit heims.

Það var því viðeigandi að næsta plata fengi nafnið “Girls, Girls, Girls”. Hún kom út 1987. Hún náði efsta sæti á vinsældalista í Bandaríkjunum og seldist í 6 milljón eintökum. Nokkur lög af henni urðu vinsæl og hæst þeirra náði lagið Your'e All I Need. Á henni var líka útgáfa af Elvislaginu Jailhouse Rock.

Lífstíllin var farinn að segja nokkuð til sína á þessum tíma og að Nikki Sixx var nálægt því að drepa sig úr overdose af heróíni árið 1986. Hjarta hans stöðvaðist þá skamma stund, en hann var vakinn aftur til lífsins. En ekki löngu eftir að GGG kom út, komst á kreik undarleg saga sem hljómar eins og tómt rugl en það er engu að síður margt sem bendir til þess að hún sé sönn að einhverju leyti.

En sagan og framhaldið verður rakið í næstu grein.