Undirbúningur: 10~ mín. Kostnaður: 200~ kr.

Fyrir þá sem ekki vita, þá er ciabatta eða ítalskt seigbrauð, eitt það auðveldasta sem hægt er að baka og eitt það besta undir tönn.  Ciabatta er selt dýrum dómum út í bakarí en stór hleifur getur hæglega kostað minna en 200 krónur heimabakaður.

Þið þurfið fjóra bolla af hveiti, hálfa teskeið af þurrgeri, hálfa teskeið af salti og matskeið af góðri olífuolíu.

Takið fram stóra skál, setjið tvo bolla af volgu vatni ofan í skálina, svo þurrgerið, olífuolíuna og saltið.  Notið sleif til að hrærar aðeins upp í þessu.  Svo setjið þið einn bolla í einu af hveiti, þetta er galdurinn, einn bolla í einu og hrærið lauslega í circa eina mínútu og bætið svo við næsta bolla, endurtakið þar til þið eruð búinn að setja alla fjóra bollana af hveitinu ofan í skálina.  Deigið ætti að vera mjög blautt, miklu blautara en þið hafið líklegast vanist við venjulega brauðgerð.

Setjið bökunarpappír á djúpan ofnbakka, hellið deiginu beint úr skálinni á miðjan bakkan og setjið síðan álpappír yfir ofnbakkan.  Leyfið deiginu að súrna og hefast í að minnsta kosti hálfan sólahring.  Bakið svo við 200°C í ~30 mínútur eða þangað til brauðskorpan er orðinn dökkgul og stökk.

Hér er ágæt Youtube klippa um hvernig er hægt að gera þetta:


Eins og þið sjáið er hann að brasa töluvert í því að móta deigið og umhella því úr skálinni eftir hefun, ég persónulega nenni þessi ekki þannig ég set þetta bara beint í ofnbakkan, það verður svona skífulaga brauðhleifur úr því og mér finnst það bara allt í lagi.

Sjálfur geri ég deigið oft bara beint eftir kvöldmat, ef ég vakna snemma (fyrir níu, sem er sjaldgæft) þá set ég stundum bara aðeins meira þurrger í uppskriftina þannig að það nái að lyftast almennilega og súrna.  Getur vel verið að ég sé að gleyma einhverju, en þetta er skítlétt og það er um að gera að prufa bara, á endanum verður þetta bara sjálfsagður hlutur.  Ég mæli ekkert lengur nema vatnið og hveitið circa, hendi þessu saman á innan við 10 mínútum.

By the way, það er geggja að borða þetta brauð bara með því að dífa ofan í olífuolíu.  Það er líka ekkert mál að nota heilhveiti eða krydda brauðið (ég nota stundum svona pizzakrydd, sem er oreganó og eitthvað fleira).  Ég varð ekkert smá svangur við að skrifa þetta, smjattsmjatt.