Espresso súkkulaðibitakökur


Fátt slær út súkkulaðiköku við lok veislu. Sú franska hefur oft verið á okkar borðum í Litlabæ og af skiljanlegum ástæðum. Þegar fjölskyldan var í Kaliforníu datt Elín í uppskriftabækur og blöð og veiddi þessa fínu uppskrift og lagaði hana lítillega. Súkkulaðigrísir allra landa sameinast í umlinu.

1/2 bolli smjör

85 gr súkkulaði (gjarnan dökkt og ósætt)

3/4 bolli hveiti

1/2 tsk lyftiduft

1/4 tsk salt

2 egg

1 1/4 bolli sykur (gott að nota að hluta til dökkan hrásykur með vítamínum og steinefnum)

2 msk instant expresso kaffiduft

2 msk kaffilíkjör

1 tsk vanilludropar

Bræðið smjör og súkkulaði í potti við vægan hita, kælið. Blandið saman hveiti, lyftidufti og salti í skál og setjið til hliðar. Þeytið saman í annarri skál eggjum, sykri, espresso dufti, líkjör og vanillu þar til blandast vel saman. Setjið þá saman við súkkulaðiblönduna. Blandið öllu vel saman.

Smyrjið ferkantað form, um 20×20 cm. Bakið við 180 gráðu hita í 25 mínútur, eða þar til yfirborðið er þurrt.

Skerið í litla bita. Gott er að setja sítrónumelissublað og hindber á hverja köku, og strá að lokum flórsykri yfir.

Uppskriftin í ágústblaði Gestgjafans 2004. Espressókökurnar voru bornar fram í lok veislu Heilsuklúbbsins í Litlabæ.