Ég prófaði fyrir stuttu coca-cola köku upp úr bók Nigellu Lawson, og þessi kaka virkaði bara ágætlega. Uppskriftin er svohljóðandi:

200 gr. hveiti
250 gr. ljós púðursykur
1/2 tsk. matarsódi
1/4 tsk. salt
1 stórt egg
125 ml. nýmjólk
1 tsk. vanilludropar
125 gr. smjör
2 matsk. kakó
175 ml. Coca-Cola

Aðferðin var í þremur skrefum og fylgdi ég þeim nákvæmlega. Byrjaði á því að blanda saman hveiti, sykri, matarsóda og salti í skál. Hrærði síðan saman egginu, mjólk og vanilludropum í mælikönnu. Bræddi síðan smjörið, kakóið og kókið varlega saman í potti og blandaði því síðan vel saman við þurrefnin með sleif og þegar það leit vel út fór vökvinn úr mælikönnunni saman við. Hrærði bara með sleifinni þar til allt hafði blandast vel saman. Mér fannst deigið heldur þunnt en það á víst að vera svona.

Setti það í smelluhringform, ca. 22-23 cm form og smurði formið vel. Nigella mælti með að settur yrði bökunarpappír meðfram til að deigið læki ekki úr forminu en ég sleppti því. Enda lak formið örlítið en það kom ekki að sök. Þetta bakaði ég síðan við 180 gráður í ca. 40 mínútur, notaði gamla prjóninn og þetta var nánast tilbúið eftir 35 mín. Kökunni leyfði ég síðan að kólna í fimmtán mínútur, skellti henni þá úr forminu og á grind með opnu úr Mogganum undir því ofaná kom þetta líka fína krem:

225 gr. flórsykur
30 gr. smjör (tvær matsk.)
45 ml. Coca-Cola (þrjár matsk.)
1 matsk. kakó
1/2 tsk. vanilludropar.

Sigtaði fyrst flórsykurinn og hafði tilbúinn í skál, bræddi smjörið, kókið og kakóið í potti, tók af hitanum þegar þetta var allt vel blandað saman og setti þá vanilludropana út í. Hrærði síðan smám saman flórsykrunum út í (ein til tvær matskeiðar í einu) og útkoman varð vel flott krem. Skellti því síðan á kökuna meðan hún var enn heit (kremið er frekar þunnt þó svo að það sé vel smyrjanlegt og lak því niður að blaðið undir grindinni) og leyfði öllu síðan að kólna og skellti því á kökudisk. Útkoman var bara hreint ansi góð, þetta er auðvitað ekkert annað en súkkulaðikaka, ég er ekki aðdáandi þeirra en þessi var fín, ekki síst með smá þeyttum rjóma.

Nigella gefur upp þann möguleika að skella deiginu í muffins form (ca. 12), setja þá kremið á rétt eftir að formin eru tekin úr ofninum og skella ofaná sem skreytingu þessu gúmmísælgæti sem lítur út eins og mini coca-cola flaska (þegar kremið hefur kólnað örlítið en þó áður en það harðnar). Ekki enn prófað þessa útgáfu en geri það kannski fyrir spilakvöldið í kvöld.

Uppskriftin er úr bókinni How to be a domestic goddess, sem er fantagóð bók eftir títtnefnda Nigellu Lawson.