Bókaumfjöllun - "Hvundagsmatur og kræsingar" Smá tilraun til að breita um stíl hér á hugi.is/matargerð og sendi ég því inn smá umfjöllun um eina af mínum Matreiðslubókum. Sendi kannski inn fleirri ef þið eruð hrifin af þessu.

Þessi bók er nokkuð gömul eða 10 ára og því kannski örlítið úrelt en gaman er að fletta þessari bók

Forlagið - 1992
Bókin er gefin út af Forlaginu og höfundur er Sigurvin Gunnarsson
127 bls

Í inngangi bókarinnar er fjallað um tilgang bókarinnar en höfundurinn, Sigurvin Gunnarsson er einn þeirra sem upp úr 1970 boðuðu breytta tíma í matreiðslu á íslenskum veitingahúsum, en hann er einnig áhugamaður um hefðbundna íslenska matreiðslu. Þessi bók sameinar því eldri uppskriftir og nýja tíma (1992).
Bókin er 10 ára á þessu ári (2002) og því mjög gaman að fletta henni og skoða uppskriftirnar og bera þær saman við það sem notast er við í dag. Þá er hægt að spyrja, hver er munurinn? Er hann mikill eða erum við að nota sömu aðferðir og þá?

Sjálfsagt eru flestir að notast við sömu eða svipaðar uppskriftir og þá. Sumt breitist ekkert þó því sé gefið nýtt nafn og get ég ekki betur séð en menn notist við hugtakið “nýtt” þegar þeir vilja fá athygli.

Matreiðslan gengur í hringi og er háð tískusveiflum, það sem er flott í dag verður úrelt á morgun og öfugt. Þó svo bókin sé orðin 10 ára gömul þá á hún fullan rétt á sér, sérstaklega til að minnka áhrifin af fusion eldamennskunni, sem eru alls ekkert slæm, bara óþarfi að allir séu að eltast við hana.

Bókin inniheldur fjölbreittar uppskriftir allt frá Rabarbarasúpu og brauðsúpu til Grænmetisseyðis og Breninetlusúpu. Sigurvin leggur mikið upp úr síldarréttum og er hún steikt eða lagað buff úr henni og auðvitað síldarkokteill með hrárri eggjarauðu og seyddu rúgbrauði. Skatan fær líka nokkuð pláss í bókinni og þá í formi skötu stöppu, bæði að gömlum vestfirskum sið og auðvitað að nútimasið. Athygli mína vakti hrognavöflur og hrognaklattar. Sigurvin kennir okkur að gera Hreindýrakjötsúpu, Rjúpnasúpu og auðvitað gömlu góðu lambakjötssúpuna og mikið er lagt upp úr villibráðaruppskriftum og þá sérstaklega á fugli. Gefin er uppskrift af gömlu góðu pönnukökunum og svo Bláberjapönnukökum ásamt mörgum girnilegum eftirréttum. Að lokum er svo fjallað um kaffi bæði með mat og í mat.

Það er óhætt að mæla með þessari bók fyrir alla sem hafa áhuga á eldri bókum og matarmenningu, matarmenningu sem er enn í hávegum höfð.

Elvar Örn Reynisson