Langaði að deila með ykkur hvernig maður sýður fisk fyrir þá sem ekki kunna og vilja læra það og finnst fiskur góður.
 
Þessi aðferð hefur reynst mér vel í gegnu tíðina:

Það er best að byrja á því að sjóða kartöflurnar því þær þurfa lengri suðu en fiskurinn. Vatnið í pottinum á að vera það mikið að fljóti aðeins yfir kartöflurnar, oft er gott að setja örlítið af salti í pottinn (þá erum við tala um sirka hálfa teskeið, á auðvitað ekki að vera brimsaltað). Einnig er gott ráð að hafa gaffal og/eða prjón (fyrir þær prjónakonur sem eiga kannski stakan prjón) til þess að nota við að athuga hvort kartöflurnar séu soðnar (ath. hvort þær séu nokkuð ennþá harðar) ef það er auðvelt að stinga í þær – þá eru þær soðnar. Nýjar kartöflur þurfa styttri suðu en almennt þurfa kartöflur sirka 15-20 mínútur í suðu – fer líka eftir stærð þeirra.

    Þegar þær eru soðnar er best að hella vatninu af þeim en leyfa þeim að vera áfram í lokuðu íláti – t.d í skál og diskur yfir, sem lok eða þá áfram í pottinum með loki á. Þetta kemur í veg fyrir að þær verði kaldar meðan þú sýður fiskinn.
           
    Þegar ég sýð fisk finnst mér best að nota ýsu (helst nýja). Ef fiskiflökin eru stór er best að skera þau í tvennt eða þrennt. Það er gott að nota miðlungsstóran pott. Mér finnst best að setja örlítið salt í vatnið meðan það er að sjóða. Eldavélin er þá sett á hæstu stillingu og beðið eftir suðu. Þegar suðan kemur upp er fiskurinn settur ofan í vatnið – athugið að hafa stærstu (þykkustu) bitana neðst og þá þynnstu efst, annars getur sú hætta orðið að þeir þykkustu séu ekki nógu vel soðnir ef þeir eru settir efst. Vatnið í pottinum rís þegar bitarnir eru settir ofan í – þess vegna er ekki gott að hafa pottinn fullan af vatni heldur svona um það bil hálffullann. Þegar bitarnir eru komnir ofan í pottinn skal slökkva undir – en hafa pottinn áfram á hellunni. Fiskurinn er soðinn þegar hann er orðinn fallega hvítur. Þetta getur tekið 2-3 mínútur ef miðað er við nýjan fisk – annars örlítið lengur.
           
Að þessu loknu er sniðugt að bera fiskinn og kartöflurnar fram með til að mynda niðurskornum gúrkum og tómötum eða hvers kyns öðru grænmeti.
 
Ef einhverjir hafa önnur tilbrigði við að sjóða fisk væru þau vel þegin :) 
“Life's like a dick, it gets hard for no reason”