Sælt veri fólkið :) Ég hef óskaplega gaman af öllu sem tengist matargerð. Þar sem ég er námsmaður (og þar af leiðandi ekki með mikið á milli handanna) og með allskonar fæðuóþol og vesen, þá hef ég mikið prófað mig áfram með hollan og ódýran mat. Ég ætla að reyna að skrifa meira en þessa einu grein, en til að byrja með ætla ég að skrifa um kjúklingabaunir.

Baunir eru (ásamt hnetum) próteinríkustu fæðutegundirnar fyrir utan dýraafurðir. Fleira gott sem næringarfræðin hefur um baunir að segja er m.a. að þær eru trefjaríkar, hafa jákvæð áhrif á blósykur og innihalda mikið af bætiefnum. Þær eru mjög ódýrar og henta vel sem “uppfylling” í ýmsa rétti. Ég hef mikið notað kjúklingabaunir í matargerð, þá sérstaklega í pottrétti. Mér finnst þær mjög bragðgóðar, þær eru ódýar og mjög hollar.

Baunirnar er ódýrast að kaupa ósoðnar. Þær fást í stórum pokum fyrir örfáa hundraðkalla. Þá þarf að sjóða baunirnar:
- Áður en baunir eru lagðar í bleyti þarf að skola þær vel.
- Látið liggja í bleyti í um sólarhring, en a.m.k. yfir nótt.
- Sjóðið í miklu vatni, í um einn og hálfan klukkutíma. (Það má snjóða baunirnar í krydduðu vatni).
- Fleytið froðuna ofan af.
- Sniðugt að sjóða mikið í einu og frysta svo í litlum skömmtum.

Í raun má nota baunirnar í hvað sem er. Þær eru góðar í pottrétti, súpur, o.fl. Svo má nota þær kaldar í salöt. Einnig er hægt að mauka baunirnar t.d. saman við grænmetisbuff eða kjötbollur. Svo er hægt að elda bara kjúklingabaunir, nota þær í staðinn fyrir aðra próteingjafa (t.d. kjöt).
Ég er lítið fyrir uppskriftir en meira fyrir hugmyndir. Það er gott að setja baunir og sveppi, blómkál eða spergilkál í pott, krydda með t.d. grænmetiskrafti, oregano og basiliku. Svo má bæta við niðursoðnum tómötum, sýrðum rjóma eða hverju sem ykkur dettur í hug.

Vona að þetta hafi reynst einhverjum gagnlegt :)
Hello, is there anybody in there?