Keppnismatreiðsla

Veitingahús
Það er í keppnismatreiðslu eins og öðrum íþróttagreinum að það þarf að vera sterkur bakhjarl til að ná árangri. Til gamans lagði ég saman árangur frá upphafi keppninar um “Matreiðslumann ársins” og kom þá í ljós að Perlan er í efsta sæti og svolítið langt á undan næstu Veitingahúsum. Ég notaðist við aðferð við úrvinnslu stiga sem einnig er notuð í mörgum keppnum, Ég gaf 10 stig fyrir 1 sæti og 6 stig fyrir 2. sæti og svo koll af kolli.

Perlan nr 1.
Perlan er í fyrsta sæti með 52 stig og nær þessum árangri með því að senda matreiðslumenn sína til keppni og hrifsa gullið 5 sinnum og 5. sætið einu sinni. Það eru þeir Sturla Birgisson og Elmar Kristjánsson sem hafa sigrað tvisvar hvor og Björgvin Mýrdal hefur sigrað einu sinni. Jón Ólafur lenti svo í 5 sæti. Það þykir gríðarlega góður árangur að vinna keppnina 5 sinnum en keppnin hefur alls verið haldin 8 sinnum. Því mætti segja að Perlan hafa eignað sér titilinn fyrir sína matreiðslumenn.

Hótel Saga nr 2.
Matreiðslumenn Hótel Sögu hafa gert margar tilraunir en ældrei hlotið titilinn “Matreiðslumaður ársins” en oft verið nálægt því. Með útreikningum Veitingavefsins fengu Matreiðslumenn Hótel Sögu samtals 32 stig fyrir þrenn silfurverðlaun, tvenn brons og einu sinni hafa þeir vermt 4 sætið. Bjarni Gunnar Kristinsson hefur þrisvar tekið þátt og lent í 2. 3. og 4. sæti. Brynjólfur Halldórsson hefur hlotið 2. sæti og Sigurður Gíslason sömuleiðis. Sæmundur Kristjánsson hefur hlotið 2. og 3. sæti.

Hótel Holt nr 3.
Hótel Holt er í þriðja sæti miðað við stigafjölda, 27 stig, en hefur þó hlotið tvenn gullverðlaun, og ef miðað yrði við það myndi Hótel Holt færast upp fyrir Hótel Sögu. Reyndar hafa einungis Þrír Veitingastaðir frá Upphafi hlotið þessi verðlaun og eru það einmitt Hótel Holt, Jónatan Livingston Mávur og Perlan sem hefur gert svo oftast. Hákon Már Örvarsson og Ragnar Ómarsson hafa skipt með sér heiðrinum að titlinum “Matreiðslumaður ársins” og hefur Ragnar einnig hlotið þriðja sætið í keppninni. Það var svo Lárus Gunnar Jónsson sem hlaut 5. sæti fyrir Hótel Holt.

Lækjarbrekka nr 4.
Það kemur kannski einhverjum á óvart að Lækjarbrekka skuli vera hér einungis einu stigi fyrir neðan Hótel Holt en þeir fá samanlagt 26 stig í þessari mjög svo óvísindalegu samanlagningu. Matreiðslumenn Lækjarbrekku hafa í gegnum tíðina verið að næla sér í stig og má nefna Einar Geirsson en hann hefur tvisvar lent í þriðja sæti og einu sinni í því fjórða. Þorkell Garðarsson hefur hreppt þriðja og fimmta sæti.

Jónatan Livingston Mávur nr 5.
Jónatan L. M. hefur sent matreiðslumann til að vinna keppnina um “Matreiðslumann ársins” en það var Úlfar Finnbjörnsson sem gerði svo í fyrstu keppninni árið 1994.

Hótel Loftleiðir, Skólabrú, Matborðið, og Hótel Borg hafa einning unnið til verðlauna í Keppninni um “Matreiðslumann ársins”.

Elvar Örn Reynisson
www.veitingavefurinn.is