Eftir nokkura ára reynslu í hamborgaragerð tel ég mig vera orðinn nokkuð sjóaðan þegar kemur að framreiðslu borgara. Eftir að ég eignaðist grill opnuðust ýmsar nýjar víddir enda grillaðir hamborgarar alltaf betri en þeir sem steiktir eru á pönnu. Áðan vorum við konan með helvíti djúsí borgara á borðum, þar sem ég byrjaði bara að steikja og vann mig svo áfram eftir því sem var til í ísskápnum. Útkoman varð ansi hreint bragðgóð og því ætla ég hér að birta “uppskriftina” svo fleiri geti notið.

Hráefni:

Hamborgarar og hamborgarabrauð
Ostur
Beikonskinka
Egg
Sveppir
Ananas (ananas mauk er að koma sterkt inn, maður smyr því bara á borgarann)
Smjör
Salt, pipar og krydd (mæli með McCormick Grill Mates á borgarana, tær snilld)

Ef að þið hafið kost á því grillið hamborgara. Þá er líka hægt að byrja á meðlætinu inní eldhúsi á meðan. Ef að grillið er ekki í boði (eins og í kvöld þar sem það slokknaði alltaf á því sökum hvassviðris!) mæli ég með því að láta hamborgana steikjast bara uppúr eigin fitu. Ef þeir eru steiktir í olíu verða þeir hálf slepjulegir. (En hvað með smjörið gæti einhver spurt? All in good time my friends!) Kryddið hamborgarana vel með McCormick kryddinu báðu megin og bræðið ost ofan á. Þegar hamborgararnir eru tilbúnir takið þá af pönnunni og geymið þar sem þeir haldast sæmilega heitir. Smellið beikonskinkunni á heita pönnuna, enginn þörf á olíu enda löðrar allt sem heitir beikon í fitu. Otti félagi kynnti mig fyrir þeirri snilld sem beikonskinkan er og kann ég honum bestu þakkir fyrir, snilldar millistig á milli skinku og beikons, the best of both worlds (sem er þó í raun einn og sami heimurinn.) Brúnið skinkuna létt og geymið svo með hamborgurunum. Spælið því næst eggin eftir smekk, mæli þó með að spæla þau báðu megin því annars fer allt á flot um leið og maður sker/bítur í rauðuna. Þegar eggin eru tilbúin fjarlægið þau af pönnunni og geymið með hamborgurunum og beikonskinkunni, því núna er komið að rúsínunni í pylsuendanum. Takið fram sveppina og skerið í sæmilega stóra bita (snilld ef maður kemst í stóra íslenska sveppi), skellið smjöri á pönnuna og sveppunum strax á eftir. Saltið og kryddið eftir smekk og látið svo brúnast vel. Samt ekki um og of því maður vill ekki að sveppirnir verði of slepjulegir, heldur bara svona rétt passlegir.

Þá erum við tilbúin að éta. Auðvitað er það smekksatriði hvernig maður raðar borgara saman en ég persónulega set sósu á bæði brauðin, sveppi neðst, síðan egg, beikonskinku, borgarann og svo ananas þar ofan á. Ég set ekkert grænmeti með þessari blöndu því mér finnst það ekki passa. Þetta er djúsí og sæmilega sveitt blanda svo að grænmetið fær að bíða betri tíma. Svo er auðvitað gott að fá sér smá kartöflusalat með til að toppa allt saman en ég hef það bara með til hliðar svo að borgarinn sé ennþá innan skynsamlegra hæðarmarka.

Þá er bara að skella sér inní eldhús og hefjast handa! Þetta er ótrúlega fljótlegt og þægilegt, og bragðast hreint unaðslega. Verði ykkur svo að góðu.
_ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _