Kobe Nautakjöt Undanfarin misseri hefur Kobe nautakjöt verið mikið í fréttum. Nautasteikur úr þessu kjöti og jafnvel hamborgarar hafa verið að seljast á gríða háu verði. T.d var núna um daginn seldur hamborgari á 7500 krónur stykkið á einhverju veitingahúsi erlendis. En hvað er Kobe nautakjöt? Af hverju er það svona eftirsótt af sælkerum og af hverju er það svona dýrt?

Það eru mjög margir sem halda því fram að Kobe nautið eða Wagyu eins og það er nefnt í heimalandinu, Japan, sé það besta í heiminum. Það er sett tölvert hærra í gæðaflokk en t.d. Charloise nautið franska og hið skoska Angus. Helstu einkenni kjötsins er gríðamiklir fituþræðir í vöðvanum og mýkt. Bragðið er sagt óviðjafnanlegt. Wagyu kálfurinn er alinn innanhúss og kemst aldrei undir bert loft. Sumum kann að finnast það ómannúðleg meðferð en hvað veit naut um hvað það er að vera úti þegar það kemst aldrei í kynni við það? Reyndar eru ástæðurnar fyrir þessu aðrar en ætla mætti. Nautgripabændur vilja ekki setja dýrin út vegna þess að þeir vilja ekki taka þá áhættu að dýrin sýkist af einhverju í náttúrunni. Einnig er land af skornum skammti í Japan og því ekki mikið um beitiland. Nautgripabúin eru einnig oftast staðsett í fjallshlíðum þar sem hrísgrjónaakrar eru staðsettir og því ekki mikið um fóður fyrir skepnurnar.


Nautgriparækt í Japan er ekki gömul grein. Framundir 1960 þá voru naut eingöngu notuð sem dráttardýr. Með vélvæðingunni og auknum efnahag var ekki lengur þörf á því, þannig að það varð að finna ný not fyrir nautin. Ræktun þeirra til manneldis lá þá beinast við. Flestir Kobe-bændur eru ekki með nema eitt eða tvö naut í ræktun í einu, þannig að afköstin eru ekki mikil. Örfáir bændur eru með fleiri naut en tvö í ræktun. Nautin eru einnig svona fá á hverju búi til að minnka sýkingarhættu. Það er eiginlega of mikið tjón sem verður ef nautgripur sýkist. Mikill tími fer í hvert naut og má nefna að hvert naut er nuddað með höndunum upp úr olíu tvisvar á dag með sérstökum strávafningsburstum og tekur sú athöfn um 20 til 30 mínutur í hvert skipti. En nautin eru aðeins nudduð frá maí til október. Fóðrið eru nýskorin hrisgrjónastrá, rúgur og úrvals kjarnfóður. Nautin fá einnig afgangsframleiðslu frá afurðum unna úr gróðri og plöntum. Nýfæddur kálfurinn fær að vera á spena móður sinnar í 3 mánuði. Það eru oftast sérstök bú sem sjá um fyrstu ævimánuði kálfsins og síðan er hann seldur til búa sem sjá um sjálfa ræktunina þar til sláturaldri er náð, sem er um 36 mánaða. Það má segja að fitun nautgripana sé eiginlega listgrein. Það er gríða mikið nákvæmnisverk að ala upp gripinn og skiptist líftímabil gripsins í nokkur stig. Það vandasamasta er svokallað fitunartímabil þar sem nautið er alið á sérstöku fóðri sem gefur aukna fituprósentu. Frá 10. til 18. mánuð þyngist gripurinn mikið eða frá 285 kílóum í 630 kíló. Nautið þyngist því að meðaltali um tæpt kiló á dag. Á heitasta tímanum í Japan, í mánuðunum ágúst, september og október fer hitinn innanhúss í 27 til 28 gráður og missir þá nautið oft matarlistina. Japanskir nautgripabændur hafa fundið ráð við því. Þeir gefa þeim áfengan bjór að drekka til að auka listina. Oft 2 til 3 flöskur á dag. En ef nautið er með heilbrigða matarlist fá þeir ekki bjór. Japanir hafa náð ótrúlegum árangri þessa fjóra áratugi og endurspeglar hún viðhorf Japana til framreiðslu, almennt. Það er ekki spurning að Kobe nautið er besta nautakjöt sem framleitt er í heiminum. Og verðið ræðst af því, ásamt framboði og hinum mikla kostnaði við framleiðsluna. Annars er óneytanlega skítið að skrifa um eitthvað sem maður hefur ekki smakkað sjálfur. Það er svipað eins og leiklistargagnrýnandi sem skrifar um leikrit sem hann hefur aldrei séð.