Ég er búin að vera með flensu uppá síðkastið (játakk mér líður betur núna) og minntist þess í veikindunum hvað það er gott að geta fengið einhvern svona virkilega óhollan og sveittan mat öðru hvoru þegar manni líður eitthvað hálf-illa. Þ.a. ég ákvað að rifja upp uppáhalds “huggu-matinn” (comfort food) minn, sem hann Baddi frændi eldaði handa mér þegar ég var lítil :)
ATH! Þessi matur er ofboðslega fitandi og hræðilega óhollur, þ.a. þeir sem hafa áhyggjur af línunum/hjartasjúkdómum ættu ekki að reyna þetta heima hjá sér ;)

Subbupylsur á la Baddi frændi:

1 stór pakki pylsur (mæli með SS)
1 dós bakaðar baunir
1 græn paprika
1 peli rjómi (venjulegur EKKI fituskertur/matreiðslurjómi)
salt
pipar
chiliduft

Skerið pylsur í bita og brúnið á pönnu (eftir smekk). Hellið bökuðu baununum útá og látið krauma í smástund. Hellið rjómanum útí. Kryddið eftir smekk (smakka til s.s.). Skerið paprikuna frekar smátt og bætið henni útí alveg síðast, rétt áður en borðað er.

————–

Gott er að hafa með þessu soðin hrísgrjón, Subbu-hvítlauksbrauð (einnig að hætti Badda frænda) og banana með kokteilsósu :D
————–

Subbu-hvítlauksbrauð:

Brauð
mæjónes
hvítlaukssalt
rifinn ostur

Blandið saman mæjónesi, hvítlaukssalti og osti. Smyrjið á brauðið og grillið í ofni þangað til það verður pínulítið brúnað ofaná :)

————–

Borðist helst allt í einni hrúgu á STÓRUM disk, fyrir framan sjónvarpið, í ullarsokkum og náttslopp :) Gott er að hafa gamla góða Kötlu súkkulaðibúðinginn á eftir, með þeyttum rjóma. *smjatt*

Bon appetit!

L.