Mér datt í hug að senda inn nokkur gömul húsráð sem ég man eftir, m.a. frá ömmum og mæðrum :) Það er stundum ótrúlegt hvað maður getur bjargað miklu með þessum gömlu ráðum og þau hafa allavegana virkað fyrir mig.

Of mikið salt/krydd: skrallaðu hráa kartöflu og leyfðu henni að sjóða með, hún drekkur einhverra hluta vegna í sig aukabragðið.

Þú gleymdir að sjóða kartöflur: taktu stálnagla og settu þá í kartöflurnar, þá sjóða þær hraðar. (Notar einhver ennþá soðnar kartöflur???)

Eitthvað er ekki alveg rétt með bragðið af sósunni: prófaðu að setja teskeið af rifsberjahlaupi eða einhverju öðru sætu útí. Ég hef ekki hugmynd af hverju þetta virkar, en það virkar oft :)

Pönnukökurnar festast við pönnuna: bættu einu eggi í deigið og vertu viss um að hafa munað eftir að setja næga feiti.

Aldrei hræra mikið í pönnukökudeigi, það skiptir voðalega litlu máli þótt það séu smá kekkir í því. Ef þú hrærir of mikið þá verða pönnukökurnar seigar.

Þú týndir rjómasprautunni: klipptu gat á hornið á plastpoka og notaðu hann í staðinn.

Blettir í teppi (t.d. rauðvín/kaffi): láttu standa salt eða kartöflumjöl á þeim, meðan þeir eru ennþá blautir (draga í sig vökva/lit). Aldrei láta bletti þorna.

Kertavax í fötum/dúkum: 1. settu flíkina/dúkinn í frysti í u.þ.b. klukkutíma, brjóttu svo vaxið af. 2. settu svo dagblað/eldhúsrúllu bæði undir og yfir vaxið í flíkinni og straujaðu með heitu járni, skiptu um blað eftir því sem að drekkur í sig bráðnað vaxið.

Ef rjóminn í ísskápnum er kominn á síðasta snúning, þá er minnsta málið að þeyta hann þar til hann hleypur í smjör, setja útí pínulítið salt og síja frá vökvann sem myndast: Fínt smjör sem endist a.m.k. í viku :)

Setjið brauðskorpu eða hálfa hráa kartöflu í pokann eða krukkuna sem geymir púðursykur. Þá helst hann mjúkur.

Eitt það besta til að þrífa bletti af leirtaui og gólfum er MATARSÓTI. Setjið hann bara beint á með smá vatni, eða útí vatn fyrir bleyti.

Edik er frábært til að eyða reykingalykt. Látið það standa í skál í herberginu þar sem var reykt. Þetta virkar, eins furðulegt og það má virðast! Edik má líka nota til að flýta fyrir því að sogblettir hverfi, það tekur að vísu smá tíma en þeir eru fljótari að hverfa, setjið smá mataredik í bómull og berið á blettinn nokkrum sinnum á dag. Þessi er frá ömmu minni LOL!.

Þetta er allavegana eitthvað sem ég man í augnablikinu, sumt af þessu viðkemur kannski ekki matargerð beinlínis en svona þessu sem er viðkomandi henni.

Skemmtið ykkur vel í eldhúsinu,

L.