Önnur uppskrift sem ég skáldaði upp á staðnum meðan ég var að versla í matinn og kom svona líka asskoti vel út.

Fyrir tvo..
U.þ.b. 400g kjúklingalundir (ég keypti kryddaðar “western” lundir, en ef þú notar ferskar lundir hentar vel að krydda þær með chili og papriku)
1 haus romainesalat
1 kvartdós maísbaunir
Handfylli af nachoflögum
Handfylli af rifnum cheddarosti (ég notaði jurtaost þar sem ég tímdi ekki að eyða 500kalli í oststykki fyrir eina uppskrift, og það kom allt í lagi út, en það er örugglega mun betra að nota “alvöru” ost)
Ranchdressing eftir smekk (tilbúin Wishbone Ranchdressing fæst í Hagkaupum á sumrin, veit ekki með aðrar búðir, né heldur hvort það er til einhver dressing sem er til allan ársins hring)

Aðferðin er mjög blátt áfram, þú steikir kjúklingalundirnar í svona 5 mínútur, rífur salatið niður, skolar það og skellir í stóra skál. Svo þegar lundirnar eru að verða tilbúnar seturðu dressinguna út á salatið, tekur nachoflögurnar og brýtur þær aðeins smærra og bætir út í, og setur svo ostinn og baunirnar út í og hristir aðeins.
Svo geturðu annað hvort sett kjúllann út í salatið eða bara beint á diskinn til hliðar við það. Eðalmáltíð tilbúin á undir 10 mínútum með sáralítilli fyrirhöfn.
Verði ykkur að góðu