Ég er í matar aðhaldi þessa dagana og hef verið að prófa mig áfram með fituminni uppskriftir. Í dag ákvað ég að prófa að búa til lasanja þar sem að það er einn af mínum uppáhaldsréttum. Ég hef alltaf keypt svona Knorr pakka lasanja og fundist það mjög gott en nú ætlaði ég að búa það til sjálf og það heppnaðist alveg ótrúlega vel þó ég segji sjálf frá. Það var enginn eiginleg uppskrift heldur setti ég bara eitthvað saman sem ég átti í ísskápnum og það var nokkurn veginn svona.

350 gr nautahakk
2 stórar gulrætur
1 laukur
3 hvítlauksrif
1 dós tómatsósa
1 msk tómatpúrra
12 lasanjaplötur
100 gr mozarellaostur

Ég byrjaði á að steikja hakkið og kryddaði það með smá season all svo setti ég gulræturnar, laukinn og hvítlaukinn (sem ég var búin að skera smátt) saman við. Þegar það var orðið steikt bætti ég tómatssósunni og tómatpúrrunni saman við og lét það malla í 5 mín. Svo raðaði ég þessu saman byrjaði á sósunni og svo plötunum o.s.frv og setti svo ostinn ofan á allt saman. Þetta bakaði ég svo í ofninum við 200° í 20-25 mín. eða þar til osturinn var orðinn bakaður. Þetta bar ég svo fram með fersku salati og heilhveitihvítlauksbrauði sem ég bakaði líka sjálf. Prófið þetta alveg endilega og segið mér hvernig ykkur líkaði!