Martini Jæja, nú fæ ég að sjá hvort það er í lagi að senda inn efni um drykki.

Þurr Martini, konungur kokteilanna, er uppáhalds-kokteillinn minn og hérna er uppskrift og góðir punktar.

Það eru til ótrúlega mörg afbrigði af Martini kokteilum. Þegar sagt er að hann sé þurr er verið að meina að gin sé í yfirgnæfandi hlutföllum. Það er einfalt að blanda Martini kokteil en ekki endilega auðvelt. Það er líka mjög erfitt að finna bar þar sem maður fær góðan Martini að staðaldri þannig að ef þið eruð forvitin er um að gera að blanda svona heima, ellegar mæli ég helst með Kaffibrennslunni. Annar kostur er sá að ef þið eigið flösku af góðu gini er eini verulegi kostnaðurinn við að prófa kaup á lítilli vermúð flösku.

Hvað þarf:
Klaka, alls ekki mulinn
Martini Extra Dry Vermouth, eða sambærilegt, verður að vera Dry.
Gin, best að hafa geymt það í frysti um tíma. Ekki hafa áhyggjur, það frýs ekki!
Grænar, fylltar ólívur
Tannstöngla eða kokkteilpinna

Svo þarf augljóslega glös og áhöld til blöndunar. Mest gaman að hafa þetta í Martini glösum, þau eru keilulaga á löngum stilk. Kokkteilar eiga undantekningarlítið að vera fallegir, takk fyrir. Kokkteilhristari er óþarfi ef maður er hóflega sniðugur.

Það eru helst tvö atriði sem skipta máli í Martini blöndun. Annarsvegar að kokkteillinn sé sem kaldastur því maður þambar svona nokkuð almennt ekki. Hann er aldrei mjög góður nema ískaldur og þarf að haldast þannig, þessvegna er best að frysta ginið. Hitt atriðið eru hlutföll en mér finnst að 5 hlutar gins á móti einum af Martini Dry sé það daufasta sem gengur upp. Þeir sem eru að byrja vilja kannski prófa 3 eða jafnvel bara 2 hluta gins á móti hverjum af Martini en það má deila um hvort kokkteillinn sé þurr lengur þá. Til hægðarauka ætla ég að nota 5 á móti 1.

(Athugið, þetta er nóg í tvö glös)
Frystið glösin eða a.m.k. setjið klaka í þau meðan drykkurinn er blandaður
Setjið klaka í blöndunarílátið, hellið ca. 15 cl af gini og 3 cl af Martini Dry út í.
Hrærið MJÖG létt.
Hellið blönduðum drykknum af klakanum í drykkjarglösin.
Bætið út í einni eða tveimur ólívum á pinna í hvort glas.
Drekkið, en rólega!

Fyrir þá sem líkar ekki ólívur en líst vel á drykkinn er t.d. hægt að nota örlítinn strimil af sítrónuberki í staðin. Svo er líka hægt að skipta ólívunum út fyrir kokteillauk en þá er þetta ekki lengur Martini heldur Gibson. Fyrir þá allrahörðustu má líka reyna að minnka Martini magnið enn meira. Ég ætla að prufa næst að hella fyrst Martini út á klakann og hella því svo aftur af áður en gininu er bætt út í. Þá er aðeins sá Martini sem loðir við klakann í blöndunni. Ég get garanterað að maður vaknar við þannig!

Ég mæli eindregið með Tanqueray gini, það er dýrast en peninganna virði. Önnur helstu gin sem almennt er mælt með eru Bombay Saphire og Beefeater. Ég er loksins búinn að komast yfir flösku af Plymouth Gin og mun reyna það í framtíðinni í Martini, en er ekki búinn að smakka það ennþá. Það ku vera eitt það besta á markaðinum.

Biðst velvirðingar ef þetta var í lengri kanntinum en það hafa verið skrifaðar heilar bækur um Martini kokteila. Ég hefði getað skrifað aðra eins grein í viðbót og haft gaman af!


“I love to drink Martinis
Two at the very most
Three I'm under the table
Four I'm under the host”

- Dorothy Parke