Síðustu daga og næstu daga, hef ég og mun vera einn heima. Þá er ekkert elsku mamma heldur verður maður bara takk fyrir að redda sér! Það er hægt að malla ótrúlegustu hluti á eigin spýtur og mig langar að miðla nokkrum af þeim til ykkar, og um leið veita þeim leiðbeiningar sem eiga eftir að lenda í sömu aðstöðu einn góðan veðurdag!

Hamborgarar:

Öll kunnum við nú að meta góða hamborgara, og það er lítið mál að útbúa þá sjálfur! Ég nota gasgrillið helst(þarf ekki að þrífa eins oft og pönnu) en sama aðferð gildir á bæði. Maður skellir þeim einfaldlega á grillið og kryddar(T.d. með McCormick hamborgarakryddi), síðan bíður maður í eilitla stund, ágætt að lyfta þeim upp og líta undir þá og þegar þeir eru orðnir mátulega brúnir er tímabært að snúa þeim við. Þá skellir maður ostinum á og þegar hann er orðinn mátulega bráðinn eiga hamborgararnir að vera tilbúnir! Síðan notar maður einfaldlega meðlæti eftir smekk!

Kjúklinganaggar

Naggar eru hentug fæða því eins og stendur utaná pakkningunum (Nuggets frá Eldfugli) þá eru þeir TILBÚNIR, maður þarf bara að skella þeim í ofn í átta mín, við 200°. Ekki, ég segi EKKI hita þá í bakkanum, hann bráðnar, believe me :) Það er síðan snilldin eina að dýfa nöggunum í eplamauk(barnamat) og líka miklu hollara heldur en kokteilsósa!

Franskar

Franskar eru ómissandi með mörgum mat, eins og t.d. hamborgurum og nöggum! Franskar eru ótrúlega einfaldar að elda, maður bara skellir slatta á ofnplötu(ágætt að hafa smjör- eða álpappír undir svo þær loði ekki við, svo er það líka hreinlegra). Síðan stillir maður ofninn bara á 200° eða svo og blástur. 20 mín. er ágætur viðmiðunartími en maður sér líka á kartöflunum hvort þær eru tilbúnar, þ.e.a.s. þegar þær eru farnar að brúnast ágætlega.

Beikon & Egg

Ég hef nú ekki eldað þetta lengi en það er sáraeinfalt. Eggjum er bara skellt á pönnuna og þau eru síðan steikt hæfilega lengi (hversu lengi er náttla bara smekksatriði). Síðan þegar þau eru tilbúnin skellir maður beikoninu á og steikir þar til það er mátulega stökkt. Athugið að steikja ekki beikonið á undan því pannan verður ekkert sérlega glæsileg eftir að beikonið hefur komist í snertingu við hana!

Pylsur

Þær eru nú eitt það einfaldasta sem maður getur reddað sér! Einfaldlega skellið pulsum í pott(mæli með SS, Goði blows!), setjið vatn í, bara lítið, rétt yfir það sem pulsurnar rúma og skellið síðan á eldavélina, þess vegna bara við mesta hita. Þegar vatnið er við það að sjóða eru pulsurnar svo tilbúnar! (Ef það fer að sjóða eru þær alveg örugglega tilbúnar:)


Þetta eru svona mínar helstu sérgreinar, ekki flókið :) en stendur fyrir sínu! Svo eru náttla til önnur neyðarúrræði eins og t.d. að panta pizzu eða borða úti!

Ps. Skúffukaka er líka einföld, farið bara útí búð og kaupið skúffuköku-muffins frá kexsmiðjunni :) Einfalt og ljúfengt! (sérstaklega með kaldri mjólk!)
_ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _