Hlustaðu nú! Ýmislegt gagnlegt lærir maður nú á lífsleiðinni en með því gagnlegasta, skemmtilegasta og mest gefandi er að læra að elda góðan mat. Ef maður kann að búa til góðan mat getur maður notið árangursins um ókomna tíð og sífellt bætt við þekkinguna og búið til nýjar útgáfur. Kannski kunna allir sem þetta lesa það sem ég mun minnast á en þó hlýtur einhver að læra eitthvað af lestri þessum. Flestar greinarnar á þessu áhugamáli snúast um að birta uppskriftir, það er gott og blessað en gengið er út frá ýmsum forsendum sem ég hafði ekki fyrir örfáum árum.

Hér koma sem sagt almenn atriði sem fara skal eftir ef snæða skal góðan mat. Allt atriði sem mér hafa dottið í hug við spurningar og umræður á þessu áhugamáli.

Kjöt og fiskur skal ekki soðið, nema sem hluti af súpu. Flest grænmeti ætti heldur ekki að lenda ofan í vatni. Við soðningu fara öll næringar og mörg bragðefni út í vatnið og útkoman verður lit-og bragðlítil. Steiking, ofnbökun, grillun og gufusoðning er mun betri.

Hita pönnur áður en hráefnið er sett á. Þó þú sért með gas þá þarf pannan smá stund til að hitna, leyfðu pönnu og olíu/smjöri að hitna áður en þú lætur hráefnið útá. Munar miklu meira en þig grunar, bæði í bragði og hversu miklu auðveldara er að snúa td fisk við.

Nota smjör eða olífuolíu. Smjörvi og smjörlíki eiga ekki heima í eldamennsku (veit reyndar ekki um neitt sem smjörlíki á heima í). Ef þú átt smjörlíkisstykki, hentu því og keyptu smjör. Ef þú vilt passa línurnar skaltu sleppa smjörinu og hafa olíu í staðinn (eða þurrsteikja þar sem hægt er). Olífuolía (venjuleg) gefur besta bragðið við steikingu.

Nota gróft sjávarsalt. Fínt borðsalt er þyngdar sinnar virði í rotnandi rottuhræum (sum sé verðlaust, en samt borgar fólk fyrir það). Salt skal vera án allra viðbætra efna og viðkomu í efnaverksmiðjum. Persónulega myndi ég mæla með Maldon salti, en eflaust eru mismunandi skoðanir á því. Myljið saltið á milli fingranna eða fáið ykkur saltmyllu.

Nota nýmalaðan pipar. Pipar er bestur nýmalaður. Fáðu þér piparkvörn og piparkorn en losaðu þig við malaðan pipar.

Nota ferskt eins og frekast er kostur. Þetta á við allt: krydd, kjöt, grænmeti, fisk osfrv osfrv. Þurrkað krydd og ferskt er mjög ólíkt (prófaðu bara að smakka grillað tómatbrauð með osti og ferskri basilíku og það sama með þurrkaðri basilíku). Sama á við um öll hráefni (ferskt vinnur alltaf frosið).

Eina sósan sem þú þarft að kaupa er tómatsósa (etv remúlaði ef þú ert að halda puslupartý). Pítusósa, hamborgarasósa og svoleiðis er algjörlega óþarft drasl. Rýmdu fyrir alvöru mat í ískápnum. Ef þú átt sinnep, tómatsósu, sýrðan rjóma og smjör þarftu ekki að eiga neitt annað ofan á/undir hamborgara, pítur, samlokur.

Lærðu á hráefnin. Einfalt að lesa á innihaldslýsinguna. Því minna unnin sem vara er, því meira getur þú gert við hana, því betri verður hún, því meira ræður þú hvað þú gerir. Skinka ætti til dæmis að innihalda svínakjöt og ekkert annað. Góð skinka er skorin af einum kjötbita. Íslensk skinka er kjötafgangar, vatn og endalaust af efnum til að gefa lit, halda þessu ófögnuði saman, passa upp á geymsluþol og gefa eitthvert bragð.

Augljóslega hef ég ekki kennt neinum að elda með þessu röfli. En vonandi hjálpar þetta fólki að komast frá þeim ranghugmyndum að brauð+pítusósa+skinka sé uppskrift.