Infarctus du Myocarde à la Resistance Þetta er frumsamin uppskrift sem varð til fyrir nokkrum vikum og hefur þróast í það að verða eitthvað mikilfenglegt.

Markmið réttarins:

Til þess að útskýra markmiðið þarf að vera ljóst að þessi réttur er fyrir piparsveina, börn með útivinnandi mæður, menn gifta grænmetisætum, eða önnur svipuð tilfelli. Hér er ekki hugsað um hollustu. Allt er látið flakka. Markmiðið er í raun uppreisn gegn heilsuátökum og hugarfari sem því fylgir. Infarctus du Myocarde à la Resistance er lífstíll.

Rétturinn inniheldur:

-Brauð
Brauð í sneiðum. Sniðugt er að nota fransbrauð (óhollast), en menn nota bara það sem þeim finnst best.

-Kjötálegg
Vinsælt er að hafa hamborgarhryggsneiðar, kjúklingasneiðar, roastbeef eða eitthvað í þá áttina. Einnig er sniðugt að hafa kjötafganga í réttinum.

-Ost
Þá erum við að tala um hinn týpíska ost. Hægt er að láta flakka með gráðost (komið verður að því síðar).

-Ólífuolía
Ég kýs Extra Virgin Olive Oil frá Filippo Berio. Einfaldlega vegna þess að það er best. Hún er að vísu dýr og sumir piparsveinar hafa hugsanlega ekki efni á slíkum munaði. En hvaða ólífuolía sem er dugar.

Framkvæmd:

Láttu olíuna á forhitaða pönnu. Hún má vera ein á báti í u.þ.b. mínútu á fullum hita. Næst læturðu brauðið á olíuna. Markmiðið er að steikja brauðið á olíunni þar til að brauðið verður gullið, ekki er verra ef það brennur örlítið. En það gerist ekki fyrr en seinna. Fyrst látum við það kjötálegg sem við höfum valið á brauðið og næst ostinn ofan á áleggið eins og við myndum gera við venjulega brauðsneið. Hér kemur að gráðostinum. Láta má gráðost undir týpíska ostinn. Ef á að fara út í slíkar stórframkvæmdir er gott að nota buff af einhverju tagi eða jafnvel hamborgara, næstum allt er leyfilegt! En slíkt verður að steikja áður en það fer á brauðið.
Hér kemur að flókna partinum, þegar osturinn er kominn á sinn stað þarf að snúa við brauðina til að osturinn bráðni sem best. Gott er að hafa ost niðri í sirka 3 sekúndur en þrátt fyrir stuttan tíma hefur líklega komið ostur á pönnuna. En það er ekki eins slæmt og maður gæti haldið. Hægt er að ná ostinum að mestu lagi af pönnunni með steikingarspaðanum.
Ég mæli með því að meðan menn eru með ostinn niðri að salta brauðið og þá kemur einmitt góð þrenna; brauð, olía og salt. Annars krydda menn með hverju sem menn vilja á ostinn. Season-All t.d. Einnig er hægt að saxa papriku smátt og dreifa yfir bræddan ostinn.
Þegar osturinn er bráðinn og brauðið orðið gulbrúnt er mikilvægasti parturinn búinn. Til hamingju!

Meðlæti:

-Beikon
Hægt er að slá tvær flugur í einu höggi og steikja beikonið með brauðinu (og hamborgaranum ef menn kjósa að nota það sem kjöt). Annars getur verið gott að láta beikonið í ofn á plötu með smjörpappír, en það er fullmikil fyrirhöfn.

-Franskar
Sjálfur hef ég ekki prófað pönnusteiktar franskar. En ef djúpsteikingarpottur er til mæli ég með honum. Ef ekki þá er ofninn klassískur!

-Laukhringir, djúpsteiktar rækjur, o.s.frv.
Hvað sem mönnum dettur í hug. Svo lengi sem það er ekki grænmeti eða eitthvað álíka.

Einnig er hægt að blanda meðlæti saman eins og menn vilja. Mörg meðlæti er einnig hægt að festa í bráðnum ostinum, eins og t.d. beikon.

Það gilda ekki strangar reglur um réttinn. Hann er meira hugsaður sem lífstíll/ímynd og uppreisn gegn heilsuátakinu!

Verði þér að góðu!

baráttukveðjur,
Redfish.