Uppskrift frá veitingahúsi Gunnhildur Sverrisdóttir skrifaði okkur okkur og lýsti yfir ánægju sinni með Sjávarkjallarann. “Það var frábær upplifun að borða þar og þá sérstaklega rétt sem heitir Humar ”Pick-Me-UP“. Hann er guðdómlegur á bragðið og skemmtilega borinn fram. Mig langar mikið í uppskriftina því ég get alveg séð þennan rétt fyrir mér sem forrétt eða aðalrétt í veislum yfir jólin.” Steinn Óskar Sigurðsson, aðstoðaryfirmatreiðslumeistari hjá Sjávarkjallaranum, tók ósk okkar einkar ljúflega og töfraði fram humarrétt á augabragði og lét uppskriftina fylgja með. “Þótt undirbúningurinn taki nokkurn tíma tekur eldamennskan sjálf aðeins stutta stund,” sagði hann.


“Humar pick me UP”
300 g humarhalar, pillaðir
90 g blómkál
80 g bok choy (blaðkál fæst í Sælkerabúðinni)
10 gr smjör
ólífuolía
salt
pipar
andalifrarsósa (sjá uppskrift)
chilli-sambal (sjá uppskrift
nokkrir jarðsveppir (trufflur), má sleppa
kryddsalat (sjá uppskrift)

Skerið blómkálið í litla bita og snöggsjóðið í saltvatni. Skerið bok choy í fína strimla. Bræðið smjörið á heitri pönnu og steikið blómkálið og bok choy svo það verði stökkt. Setjið í fjórar krukkur (sjá mynd af rétti) eða á fjóra diska. Hitið ólífu olíuna á pönnu og steikið humarhalana. Bætið klípu af smjöri við, slökkvið undir pönnuni og kryddið humarinn með salti og pipar. Deilið humrinum á krukkurnar fjórar. Sprautið chili-sambal yfir og hellið loks andalifrarsósu yfir humarinn. Skreytið með kryddsalati, rífið jarðsveppina yfir salatið og lokið krukkuni. Berið fram.


Andalifrarsósa:
1 msk. ólífuolía
5 skalottulaukar, fínsaxaðir
2 hvítlauksrif, fínsöxuð
5 greinar timian
2 dl hvítvín
3 dl rjómi
5 dl kjúklingasoð
50 gr smjör
30 g andalifur
1/2 tsk. salt
pipar á hnífsoddi

Hitið olíuna í potti og snöggsteikið skalottulaukinn og hvítlaukinn. Bætið timíani og hvítvíni við og látið sjóða niður um helming. Hellið kjúklingasoðinu útí og sjóðið niður um helming. Hellið kjúklingasoðinu út í og látið sjóða niður um 2/3. Blandið rjómanum saman við og látið sjóða niður um 1/3. Bætið loks smjörinu og andalifrini út í sósuna. Hrærið stöðugt þar til lifrin og smjörið hefur bráðnað saman við sósuna. (Gott er að nota töfrasprota til að þetta blandist betur saman.) Sigtið sósuna og bragðbætið með salt og pipar eftir smekk.


Chili-sambal (chili-kryddmauk)
40 gr sykur
50 ml mirin (sætt sake)
100 g chili-pipar, rauður, kjarnhreinsaður og fínsaxaður
100 g skalottulaukur, fínsaxaður
1 sítrónugras
20 g engifer, fínsaxað
1 hvítlauksrif, fínsaxað
salt

Sjóðið saman sykur og mirin í potti. Skerið sítrónugrasið í tvennt. bætíð því og grænmetinu út í pottinn og látið krauma þar til vökvinn er orðin að sírópi. takið sítrónugrasið upp úr pottinum og hendið. Maukið allt saman í matvinnsluvél, bragðbætið með salti. Kælið.



Kryddsalat:
mynta
kerfill
estragon
dill
ítölsk steinselja

Pillið kryddjurtinar af stilkunum og blandið saman í skál, berið fram með humrinum.




Jólablað Gestgjafans
Umsjón: Sigríður Inga Sigurðardóttir
Mynd: Gísli Egill Hrafnsson

Birtist á www.sjavarkjallarinn.is