Ég hef oft heyrt (og lesið) fólk tala um að það sé ekki sniðugt að hafa svona og hinsegin mat (yfirleitt það sem talað er um sem fínni mat, eins og rækjur, humar, villibráð o.s.frv.) þegar börn eiga einnig að sitja við matarborðið vegna þess að þau séu ekki hrifin af svoleiðis. En ég meina, það læra börnin sem fyrir þeim er haft. En ekki viljum við venja börnin okkar á matvendni og/eða ruslfæði, er það? Ég hef aldrei skilið hvers vegna svo margir foreldrar láta börnunum sínum það eftir að borða bara það sem þeim sýnist og skilja hitt eftir, hamstra jafnvel eitt og hunsa annað. Mér finnst einmitt að það eigi að venja börn við að borða svona mat og þá læra þau að vera ekki matvönd og kunna að meta nýjungar í mataræði. Það var gert við mig og mín systkini og við höfðum öll mjög gott af því. Og þó svo maður hafi ekki alltaf kunnað að meta það á þeim tíma þá vandist maður á það og núna finnst mér fátt skemmtilegra en að smakka eitthvað alveg nýtt, eins og t.d. þegar ég fer á veitingahús og svoleiðis. Þessar umræður sem maður hefur orðið var við hefur vakið mig til umhugsunar um þessi málefni, sérstaklega þegar maður lítur til Bandaríkjanna og sér vandamálin með ruslfæðið þar og sér að það er að verða eins hérna heima (hægt og bítandi þó). Maður fer að spá hvort að foreldar séu bara svona eftirlátir við börnin sín eða hvort þeir nenni einfaldlega ekki að elda fjölbreyttar máltíðir.

Auðvitað er ég ekki að tala um að fólk eigi að pína mat ofan í börnin sín. Ég var til dæmis alltaf mjög treg að smakka nýja rétti. En málum var til dæmis miðlað þannig við mig að ég mátti velja einn rétt sem ég þurfti aldrei að borða og þegar hann var á boðstólnum þá mátti ég velja mér eitthvað allt annað (auðvitað af því sem var til heima). Svo þurfti ég alltaf að smakka, alveg sama hvað það var, en ef mér þótti það vont var ég aldrei pínd til að borða það. Hvað litla bróður minn varðar þá er hann duglegur að smakka en hann er ofsalega ragur við að borða grænmeti. En málum er miðlað þannig að hann þarf alltaf að fá smá af öllu grænmeti nema einu sem hann má sleppa. Litla systir mín hins vegar er ekki hrifin af kjöti, þannig að hún fær lítið af því en öllu meira af grænmeti í staðinn og fær t.d. að sleppa kjöti með hamborgara (ég veit, það er fáránlegt) og borðar bara brauðið með grænmetinu. Nú á ég sjálf ekki börn svo ég hef ekki reynslu af því að finna leiðir til að passa að börn fái nógu fjölbreytt fæði og að þau séu tilbúin til þess að borða fleira en barnarétti. Þið sem eruð foreldri, hvað gerið þið? Og þegar þið voruð börn, hvað gerðu foreldrar ykkar?