Hrefnukjöt er hnossgæti mikið, en hefur undanfarin ár verið allt að því ófáanlegt vegna alþjóðlegs banns við hvalveiðum. En nú geta íslenskir sælkerar glaðst á ný því ákveðið hefur verið að hefja aftur hrefnuveiðar í vísindaskini, allavega í einhvern tíma.

Hérna eru nokkrar uppskriftir, sumar frá mér komnar en aðrar eru úr gamalli (en mjög góðri) matreiðslubók sem ég fann hérna heima og ber heitið Lærið að matbúa eftir Helgu Sigurðardóttur

Hvalbuff (Helga Sig.)
fyrir 4-5
¾-1 kg hvalkjöt [greinarhöf. mælir með snitsel]
50gr smjörlíki eða tólg [bókin er yfir 50 ára gömul, flestir myndu sennilega nota matarolíu í dag]
2-3 laukar
salt og pipar

6-7 dl vatn
2 dl mjólk
Sósulitur [má eflaust sleppa, þori samt ekki að lofa því]
50 gr hveiti

Kjötið er hreinsað, skorið í buffsneiðar, sem eru barðar [óþarfi er notað er tilbúið snitsel úr Hagkaup]. Laukurinn skorinn í sneiðar. Smjörlíkið brúnað, kjötsneiðarnar lagðar þar í og brúnaðar vel, raðar í pott og salti og pipar stráð á. Laukurinn brúnaður, helmingurinn lagður með kjötinu, hitt geymt. Vatni hellt á pönnuna, því hellt yfir buffið sem soðið er í 3-4 stundarfjórðunga, eða þangað til það er meyrt. Hveitið er hrært út með mjólkinni, buffið tekið upp og sósan jöfnuð og soðin í 10 mín. Kryddað eftir smekk og sósulitur látinn í, buffið hitað, raðað á fat og laukurinn settur yfir. Soðnum kartöflum og grænmeti raðað utan um og söxuð steinselja og grænt stráð yfir
Ef til vill má snúa kjötsneiðunum upp úr hveiti, áður en þær eru brúnaðar. Eins má sjóða lárberjalauf og annað krydd með kjötinu.

Snitsel í raspi (þessa fékk ég hjá konu sem vinnur með mér)
fyrir 5
ca. kg Hrefnusnitsel
egg og rasp

Eggin sett í skál og hrærð. Kjötinu velt upp úr eggjum og síðan raspi og steikt á pönnu í ca. 5-10 mínútur á hlið. Borið fram t.d með kartöflum / kartöflumús, svissuðum lauk, hrásalati og brúnni sósu

Teriaki-hvítlauksgrillsteik (Dionysos)
fyrir 2
400 gr Hrefnusteik
slurkur af teriaki-sósu (t.d. Blue Dragon)
1-2 hvítlauksrif

Hvítlaukur marinn og blandað saman við tilbúna sósuna. Kjötið smurt með blöndunni og látinn standa. Best er ef þetta er gert deginum áður en kjötið skal snætt.
Grillað örstutt við mikinn hita og síðan í 3-5 mínútur á hlið við meðalhita.
Snæðist með ykkar uppáhalds grillmeðlæti.

Steik úr hvalkjöti (Helga Sig.)
fyrir 5-7
1-1½ kg hvalkjöt
100 gr reykt flesk [bacon] EÐA steinselja og smjörlíki
100 gr smjörlíki
8-10 dl mjólkurbland [ekki viss hvað hún á við, myndi giska á blöndu af mjólk og rjóma]

Sósan:
40 gr. smjörlíki
50 gr. hveiti
5 dl. soð
Salt og pipar
Sósulitur
Aldinmauk
1-2 dl. rjómi

Hvalkjötið er hreinsað vel og skorið í jöfn stykki svo auðvelt sé að skera steikina í sneiðar. Fleskræmum er stungið í steikina bæði langsum og þversum. Ef steinselja er notuð, er henni hnoðað saman við smjörlíki og stungið inn í kjötið. Kjötið nuddað upp úr salti og pipar. Steikið móbrúnt á öllum hliðum. Mjólkurblöndunni helt á og soðið við hægan eld í 1½-2 klst. eða þangað til það er vel gegnumsteikt. Soðið síað.
Sósan: Smjörlíkið hitað vel, hveitinu hrært útí, þynnt með steikarsoðinu, krydd og aldinmauk sett útí (helzt rifsberjahlaup). Þeytta rjúmanum blandað í sósuna rétt áður en borðað er. Nota má súran rjóma, en honum má sleppa. Kjötið skorið í sneiðar, raðað á fat með soðnum og brúnuðum kartöflum og soðnu grænmeti. Gott er að hafa hrátt grænmetissalat með rjóma, með þessum rétti.

Uppskriftir 1 og 4 eru úr bókinni “Lærið að Matbúa”(þriðja útgáfa) eftir Helgu Sigurðardóttur, gefin út árið 1950 af Ísafoldarprentsmiðjunni, Reykjavík.

Ég hef verið að leika mér með þetta hráefni undanfarið, og ég veit að Hugarar eru flestir of ungir til að muna eftir hvalkjöti frá því í gamla daga (þósvo sumir hafi verið svo heppnir að fá í hverfisfiskbúðunum hvali sem flækst höfðu í netum eða rekið á land)svo það gæti vel farið svo að fleiri uppskriftir séu væntanlegar ef áhugi er fyrir hendi.