Þetta er réttur sem er gaman að elda og ennþá skemmtilegra að borða.

1 frosinn kjúklingur (þiðinn)
4 hvítlaukshausar
talsvert af ferskum eða þurrkuðum kryddjurtum, til dæmis basil og/eða eitthvað eða allt af eftirfarandi:
3-5 greinar feskt rósmarín (eða 1 msk þurrkað)
hálfur bolli af steinselju (eða 1 msk þurrkuð)
1 msk heil salvia (sage) (eða 1 tsk mulin)
1 msk timjan
…eða bara það sem til er í skápnum af kryddjurtum
ólífuolía
salt og pipar

Hitið ofninn í 180 gráður. Takið utan af hvítlaukshausunum og losið geirana í sundur, en ekki taka hýðið af þeim. Fjarlægjið ytra, þunna, hvíta hýðið en ekki það innra. Setjið ólífuolíu á pönnu yfir vægum hita og veltið hvítlauksgeirunum upp úr olíunni. Setjið kryddjurtirnar í olíuna líka og veltið þeim með. Setjið kjúklinginn á ofnfat (helst með loki, en það má alveg nota bara álpappír). Hellið olíunni yfir kjúklinginn og makið hann í olíu og kryddjurtum. Bætið við salti og pipar, setjið lok eða álpappír yfir og bakið í ofninum í u.þ.b. 40 mín fyrir hvert kíló sem kjúklingurinn vegur.

Berið fram með ristuðu grófu brauði og fullt af servíettum. Það er frábært að kreista maukaðan hvítlaukinn úr hýðinu og smyrja á brauðið.

Það skiptir máli að lokið sé þétt á fatinu til að bragðið af kryddjurtunum haldist inni. Það má búa til deig úr hveiti og vatni (og örlitlu af salti) og setja það yfir barmana á fatinu eins og kítti til að þétta lokið. Það lítur líka rosalega vel út á borðinu ef maður er með gesti.

Ég sá þessa uppskrift upprunalega í erlendu tímariti. Ég hef eldað þetta oft og öllum sem hefur smakkað finnst það ljúffengt.