Kjúklingur fylltur með mascarpone-osti Ég “stal” þessari uppskrift af vef “Einn, tveir og elda”. Ég var viðstödd þegar að þátturinn var tekinn upp þar sem að þessi uppskrift var notuð. Gestakokkurinn var Andri Snær Magnason.

Ég fékk örlítið smakk af þessu þá og það var nóg til að ég heillaðist, síðan hef ég verið að bíða eftir uppskriftinni.


Hráefni:
1 kjúklingabringa
½ dós mascarpone-ostur
2 msk. sólþurrkaðir tómatar
safi úr einni sítrónu
30 g furuhnetur
basil frá Engi
steinselja
½ dl balsamik
hvítlauksrif
30 g parmesanostur
salt og pipar
kúskús
½ rauðlaukur

Aðferð:
Skerið kjúklingabringuna í tvennt eftir miðju brjóstinu en passið að hún fari ekki alveg í sundur. Setjið hana í plast og fletjið út með sléttum buffhamri.

Maukið mascarpone-ost í blandara ásamt kryddjurtum og sítrónusafa. Smyrjið þessu svo á kjúklingabringuna. Setjið sólþurrkaða tómata og basilpesto á hana. Rúllið upp bringunni og setjið í eldfast mót og hellið balsamik yfir. Bakið í vel heitum ofni í um 15 mínútur.
Látið meðlætið og sósuna á pönnunni á diskinn. Balsamik-edikið er orðið að sírópi. Gott er að baka heilan hvítlauk með.

Furuhnetupestó:
Aðferð:
Ristið furuhnetur á pönnu eða í ofni.
Setjið hneturnar, basilikum, hvítlauk, parmesanost, ólífuolíu, salt og pipar í blandara
og maukið þar til þetta er hæfilega þykkt (ólífuolían ræður þykktinni).
Gott er að setja pestóið yfir kjúklinginn þegar hann er tekinn úr ofninum eða hafa það í skál til hliðar.

Kúskús sem meðlæti með kjúklingi:
Saxið hálfan rauðlauk og svitið í potti.
Bætið bolla af vatni út í og látið suðuna koma upp. Setjið þá bolla af kúskúsi út í og slökkvið undir eða takið pottinn af hellunni. Hafið lokið á og látið standa í um 5 mínútur.
það besta sem Guð hefur gefið mér……… eru börnin mín