Jæja, þá er ég með tilraunastarfsemi í gangi og er að reyna að búa til ekta skyr upp á gamla mátann. Tengdó kom með óhrært skyr og smá ostahleypi, en það þarf til að geta gert lögun.

Sem sagt þá fann ég tvær uppskriftir af ekta skyri á netinu og þær voru ósköp svipaðar. Smá munur á magni ostahleypisins sem notaður var, en ég fór bara milliveg. Önnur var uppskrift sem moose gróf upp handa mér og sendi sem <a href="http://www.hugi.is/matargerd/greinar.php?grein_i d=55470“>svar við greininni minni þar sem ég var að forvitnast um skyrgerð</a>. Hina fann ég á á síðu sem gerð var um <a href=”http://krokur.is/vhlskoli/Nordliv/skyrgerd/welco me.html">skyrgerð hjá nemendum í Varmahlíðarskóla</a>.

Það sem ég gerði var að taka 5 l af undanrennu (skimmed milk) og hita í potti að ca 85-90 gráður og lét hana halda þeim hita í ca 10 mínútur. Það þarf að passa að hræra vel í pottinum á meðan svo það brenni ekki allt við í botninum. Reyndar er ég ekki viss um að það þurfi endilega að halda þessum hita því þetta er eiginlega gerilsneyðing, en undanrenna sem keypt er úti í búð er náttúrulega gerilsneydd. Í annari uppskriftinni var ekkert talað um að það þyrfti að halda þessum hita í einhvern tíma. En ég gerði þetta samt. Var bara með kjöthitamæli til að mæla hitastigið. Síðan hellti ég þessu í stóran plastbala, til að fá sem mest flatarmál í botninn, og þar leyfði ég undanrennunni að kólna að ca 40 gráðum.

Þá tók ég kúfaða matskeið af óhrærðu skyri og hrærði saman við 2 msk. af rjóma ásamt volgri undanrennu þar til þetta var orðið vel þunnt (skyrsúpa). Síðan bætti ég ca teskeið af ostahleypi út í (önnur uppskriftin talaði nefninlega um 6 dropa í 10 l af undanrennu, hin um 10 ml í 5 l af undanrennu) og hrærði þessu svo öllu vel út í undanrennuna í balanum. Þá setti ég handklæði yfir til að þetta kólni hægt og núna bíður þetta bara uppi á eldhúsbekk. Eftir ca 6 tíma á að kíkja á þetta aftur og ef það er hægt að skera kross í skyrið er það tilbúið til síunar.

Síunin fer þannig fram að skyrinu er hellt á grisju (gasbleyju) og bundið svo saman á hornunum og hengt yfir plastfötu eða eitthvað ílát sem getur tekið við sýrunni (mysunni). Það ferli tekur um hálfan sólarhring og best að það gerist á köldum stað (í ísskáp t.d.).

Nú svo er bara að hæra skyrið og sykra og drekka mysuna með (hóst)… passa bara að geyma smá í næstu lögun ;)

Ég er nú voða spennt að vita hvernig þetta tekst til. Læt ykkur vita í kvöld og á morgun hvernig ferlið gengur hehe ;) Ég er ógeðslega montin að nenna að prófa þetta hahaha :Þ
Kveðja,