Drunk Monkey in the Tiger’s Eyes (US: Drunken Master) Drunk Monkey in the Tiger’s Eyes (US: Drunken Master)

Dir.: Woo-ping Yuen
*Jackie Chan, Siu Tien Yuen, Jang Lee Hwang, Bolo Yeung o.fl.


‘Drunken Master’ var myndin sem skaut Jackie Chan upp á stjörnuhinmininn svo um munaði hjá aðdáendum kung fu mynda. Chan var að vísu búinn að vera að klífa þennan markað nokkuð örugglega í nokkur ár áður en ‘Drunken master’ kom út, eða eftir að hann fór að leika í kung fu myndum sem skeyttu saman góðum bardagasenum og léttu gríni. Gjarnan var þá gert grín að kung fu mynda markaðnum sem dældi út 10 hrútlélegum myndum fyrir hverja eina almennilega.

Drunken Master kom út 1979 og var óbeint framhald af myndinni Snake in the Eagle’s Shadow, sem náð hafði gífurlegum vinsældum. Hún er sérstök fyrir þær sakir hversu vel var vandað til allrar vinnu við hana. Útkoman er ein af flottustu bardagamyndum sögunnar, full af fagmannlega gerðum bardagaatriðum og góðri heildaruppbyggingu.

Söguþráðurinn er eitthvað á þessa leið: Naughty Panther (Jackie Chan) er svo óforbetranlegur uppreisnarseggur að faðir hans sendir hann út í skóginn til síns gamla sifu (Simon Yuen). Hann kennir og þjálfar Chan í stíl sem kallast “Eight drunken fairies” sem krefst þess að menn drekki óhóflegt magn af alkólhóli. Chan fer í gegnum magnaðar þjálfunarsenur milli þess sem hann reynir að flýja frá meistraranum. Á endanum “útskrifast” hann og sýnir áhorfendum hvað hann hefur lært með átta kötum. Á endanum þarf hann svo að nota hina nýfengnu þekkingu til að bjarga föður sínum frá launmorðingja. Til þess að sigra launmorðingjann þarf hann að finna upp nýja samsuðu af drykkjustílnum á meðan þeir berjast.

Þessi söguþráður var ekkert annað en endurnýting á þáttum sem fallið höfðu vel í áhorfendur í fyrri myndum jackie Chan. Samt sem áður hefur þessi mynd löngum verið talin sú sem endanlega festi þessa uppbyggingu kung fu mynda í sessi einkum vegna þess hve gríðarlega vinsæl hún varð. Enn í dag er ‘Drunken Master’ ein af “stóru” bardagamyndunum, ein af þeim sem allir verða að sjá og dúkkar alltaf upp þegar settir eru upp topp tíu listar yfir þær bestu. Hún er einnig ein af þeim myndum sem flestir hafa séð eða þekkja til.

Það er óhætt að mæla með ‘Drunken Master’ fyrir þá sem vilja kynna sér heim bardagalistakvikmynda. Hún rennur ljúflega niður, er nánast ein “action-sena” frá upphafi til enda og með góðum skammti af húmor. Þetta er ein af þeim myndum sem hægt er að horfa á aftur og aftur og aftur.

Þess má að lokum til gamans geta að leikstjóri myndarinnar Woo-ping Yuen var action choreographer fyir allar Matrix myndirnar.


obsidian