Íslendingar komu, sáu og sigruðu þegar verðlaunaafhending fyrir árið 2012 hjá stærsta sambandi Írlands í blönduðum bardagaíþróttum (e. MMA), Cage Contender, fór fram við hátíðlega athöfn á Louis Fitzgerald hótelinu í Dublin í gærkvöldi.

Verðlaun voru veitt í sjö flokkum en fjórar tilnefningar voru í hverjum flokki. Skemmst er frá því að segja að Íslendingar hlutu meðal annars tvö stærstu verðlaun kvöldsins; Mjölnir var valið lið ársins (e. Team of the Year) og Gunnar Nelson bardagamaður ársins (e. Fighter of the Year). Auk þess hlaut Gunnar Nelson einnig verðlaun fyrir besta uppgjafartak ársins (e. Submisson of the Year) gegn Alexander Butenko í febrúar.

Íslendingar hlutu alls fimm tilnefningar á hátíðinni en auk ofangreindra verðlauna var Árni Ísaksson tilnefndur fyrir rothögg ársins (e. Knock Out of the Year) gegn Wayne Murrai í október og sem persónuleiki ársins (e. Personality of the Year). Árni hlaut hins vegar ekki verðlaun að þessu sinni. Þess má geta að þetta er í fyrsta skipti sem lið utan Írlands hlýtur verðlaunin Lið ársins hjá Cage Contender. Einnig er þetta í fyrsta sinn sem Íslendingur hlýtur nafnbótina Bardagamaður ársins hjá sambandinu.