Samkvæmt frétt á Fighter Only hefur því verið haldið fram af japanskri fréttastofu að uppi séu viðræður um að Fedor mæti Hidehiko Yoshida í næsta mánuði. Ef af þessu verður, sem maður verður að telja ólíklegt, þá finnst mér þetta afar undarleg ákvörðun. Þó þetta sé sett upp sem kveðjubardagi Yoshida þá get ég með engu móti skilið af hverju hann ætti að berjast við Fedor. Í fyrsta lagi þá hefur Yoshida ekki það merkilegan MMA feril að baki og í öðru lagi þá verður þetta með styttri kveðjubardögum þar sem allar líkur eru á því að sá sem er að kveðja verðir laminn í buff í fyrstu lotu. Ég veit vel af “vinsældum” Yoshida í Japan en það verður að segjast eins og er að hann hefur ekki mörg (ef nokkur) merkileg nöfn á sínum sigurlista. Hann hefur auðvitað mætt mörgum góðum gegnum árin en tapað fyrir öllum verulega stórum nöfnum sem hann hefur mætt, ef ég man rétt. Það verður að teljast afar undarlegt og ólíklegt að Yoshida fái bardaga gegn hæst rankaðasta þungavigtarmanni í heimi. Fedor hlýtur að hafa stærri fiska að steikja… so to speak.

Auðvitað er rétt að leggja áherslu á að þetta hefur ekki verið staðfest og reyndar hefur Eugene Kogan hjá M-1 sagt að þetta hljóti að vera brandari hjá japönsku fréttastofunni sem birti þetta fyrst. Og þetta hlýtur eiginlega að vera það. Ef ekki þá er eitthvað verulega að í umboðsmennskunni hjá Fedor. Væntanlega er þetta bara eitthvað bull í japönsku pressunni.