Ég hef aðeins fengið fyrirspurnir vegna viðtals við Paul Daley í gær þar sem hann fullyrti að Gunnar yrði partur af hans undirbúningsliði fyrir bardagann við Josh Koscheck í UFC. Það sem Daley sagði m.a. var:

“Guys like Gunnar Nelson are going to be in camp, you know, a Renzo Gracie black belt and an ADCC fighter.”

Bara til að forðast misskilning fyrir þá sem hafa séð eða lesið viðtalið við Daley þá er þetta ekki alveg sannleikanum samkvæmt. Staðreyndin er hins vegar sú að fyrir rúmri viku fékk ég póst frá umboðsmanni Paul Daley þar sem hann óskaði eftir því að Gunnar yrði hluti af undirbúningsteymi Daley fyrir Koscheck bardagann. Þeir myndi auðvitað borga alla kostnað og greiða Gunnari fyrir þetta. Jafnframt hafði Daley sjálfur samband við Gunna gegnum Facebook. Hvað um það, ég skrifaði þeim bréf þar sem ég óskaði þeim til hamingju með frábæran árangur Paul Daley og þakkaði þeim fyrir áhugann en sagði jafnframt að af þessu gæti sennilega ekki orðið því Gunnar færi til New York mjög fljótlega eftir bardaga sinn í London þar sem Renzo Gracie vildi fá hann út sem allra fyrst til að hjálpa honum við undirbúninginn fyrir bardaga Renzo gegn Matt Hughes í UFC sem fram fer í Abu Dhabi þann 12. apríl. Þeim væri samt velkomið að hafa samband við okkur aftur síðar ef betur skyldi standa á. Gunnar sagði Daley það sama á Facebook. Ég fékk hins vegar aftur bréf frá umboðsmanni Daley þar sem hann lagði áherslu á að þeir hefðu mikinn áhuga á að fá Gunna til að aðstoða Daley þó ekki væri nema í eina til tvær vikur í lok febrúar eða byrjun mars. Þeir lögðu jafnframt til að við myndum hittast í London eftir bardaga Gunna. Ég svaraði þeim aftur og endurtók eiginlega bara það ég hafði áður sagt, þ.e. að litlar líkur væru á að af þessu gæti orðið núna því miður. Því er það nokkuð undarlegt að Daley skyldi fullyrða í gær að Gunna kæmi en þar sem ég hef fengið fyrirspurnir um þetta ákvað ég að skella þessu bara fram hér þannig að þetta færi ekkert á milli mála. Gunnar er sem sagt að öllu óbreyttu á leiðinni til New York fljótlega eftir bardagann í London en ekki að fara til Amsterdam að aðstoða Paul Daley en æfingabúðir hans verða þar fyrir bardagann við Koscheck.