Nú kom vel á vondan og finnst mér ég endilega þurfa að standa fyrir einhverjum útskýringum/svörum, þó á þann veg að sem síst skyldi (þeir skilja sem æfa…).

Hvað varðar álit margra (td. Mjölnismanna samkvæmt neðanverðum ‘Reiðipósti’) á Bujinkan og þeirri þjálfun sem ég stend í og fyrir; þá hef ég bara gott um það að segja, enda margt undarlegt í gangi og þarfaleiðandi erfitt fyrir suma að sjá hversu dugandi þjálfunin er í raun. Ef fólk getur skemmt sér yfir þessu og gert gott grín (nú vitna ég td. í ákveðinn útvarpsþátt sem hljómaði nokkuð skemmtilega hér fyrir u.þ.b. ári síðan), þá finnst mér það bara ágætt og sé einungis eftir því að hafa ekki barið afköst grínista eigin augum eða eyrum…

Margar hreyfingar og form í Ninjutsu eru sérstaklega einkennileg og koma oft undarlega fyrir sjónir, td, ‘krabbalabbið’ svokallaða (Yoko Aruki hliðarskref) sem er með því fáránlegasta sem ég hef séð (nú hef ég staðið í því að kvikmynda þetta til uppsetningar á námsefni og verð að segja að mig skortir oft orð til lýsingar…). Aftur á móti, get ég talað af reynslu og bent á að þeir sem iðka þetta innan Bujinkan og halda sig við síbreytilegar – skrautlegar – líkamsæfingar Taihenjutsu; sjá yfirleitt ekki eftir því og læra ‘öðruvísi’ aðferðir sem fáir geta ímyndað sér…

Ef til tals kemur – og umræðuefnið gengst inná – hvort Bujinkan virki eður ei; þá get ég sagt ‘Já!!!’ með fullri vissu og svosem freistast útí margar skemmtilegar – eða miður skemmtilegar – sögur því til staðfestu, en þar sem sannanir mér til fulltingis eru nokkuð sjaldgæfar og/eða þá eitthvað sem ég einfaldlega nenni ekki að leitast eftir… þá læt ég svoleiðis ‘slúður’ eiga sig óhikað og þó svo að ég ætli mér ekki að halda því fram að Ninjutsu sé betra en hvað annað, og þá allra síst grenja yfir því hvað ég sé dugandi í mann og annan (hvað þá sérhæfðan keppnismann); þá tel ég mig þó til þess búinn að tala um hvað virkar og hvað ekki (þá af eigin reynslu). Ég myndi sannarlega hugsa mig tvisvar um, ef skorað væri á mig í bardaga – hvort sem innan hrings eða utan – enda tel ég þess til festu; að ég hef komist lifandi úr vopnaðri árás og get þakkað Ninjutsu fyrir það…

Hvað varðar Bujinkan og þá sem iðka þessa sérstæðu bardagalist, þá er þetta oft ‘stórskrítið lið’ upp til hópa og mjög svo undarlegt í hegðun og framfærslu (þeir sem hafa athugað listaferil minn geta þá staðfest að ég er sjálfur kannski ekki eins og fólk er flest)… En oftar en ekki; ágætis fólk fyrir því og læt ég það duga. Bujinkan eru stóreflis samtök og skipa svo tugþúsundum skiptir út um allan heim, enda misjafn sauður í mörgu fé og margt gott á ferðum, en líka margt slæmt… Ástæðan fyrir því að ég vara nemendur mína við því að gleypa við hverju sem er; er einmitt sú að þjálfun sem þessi gengur út á að gera ákveðnar hreyfingar eðlislægar og þarafleiðandi nokkuð ‘hættulegt’ ef einblínt er á of mikla hörku og/eða refsiaðgerðir. Mér finnst þá betra að standa fyrir því að fólk nái að beita sér til undankomu og öryggis; og geta svo gengið á mis við flestallar ‘aðrar’ bardagalistir og lagt áherslu á að fólk noti þetta hispurslaust þá er við má…

…En svo að ég snúi almennilega að þeirri þjálfun sem ég er að koma á fót á Íslandi, í samráði við gott og áhugasamt fólk, þá vona ég einungis að efasemdir gefi undan forvitni að einhverju leyti og að fólk leyfi sér að bragða á lífslistinni þrátt fyrir undarlegan keim. Ég einblíni á frjálsa og óhefta hegðun, leik og gaman, enda ætlast ég einungis til þess að fólk ‘æfi og læri’ frekar en að það þurfi endalaust að vera að sanna sig á einhvern hátt. Þeir sem hafa mætt og æft með mér undanfarið, virðast ánægðir og hafa sýnt frábæran árangur hingað til… Ég vona bara að þeir haldi áfram á góðri leið og að Bujinkan vaxi á Íslandi samfara öðrum bardagalistum og íþróttum.

Að lokum – og svo ég standi undir titli – þá vildi ég einungis minnast á að þótt lítið hafi verið um skrif af minni hálfu undanfarið (alltaf jafn mikið að gera), þá hef ég fylgst náið með umræðum hér á Huga og þrátt fyrir einhverskonar ‘hörku og hroka’ af og til, get ég ekki mikið kvartað. Mér finnst þetta alltsaman bara ágætt og gaman að sjá skoðanaskipti og annað slíkt á ferðum reglulega; hvort sem í góðu, illu og/eða gamni. Vitanlega er óskin alltaf sú að fólk standi í heiðvirðum umræðum og sýni hvoröðru virðing og athugulsemi, en svo er ekki alltaf farið og ef fólk er þannig aðstandandi að það geti dregið að sér hendur (þó eftir á) og jafnað aðeins um sárin, þá tel ég það lofsvert athæfi og öðrum til fyrirmyndar…

…En ég óska ykkur öllum góðs gengis og vona að fólk standi saman í því að halda bæði fjölbreytni og áhuga í vexti á landinu kalda (nema Phuk greyið sem virðist víst strandaður á Ítalíu). Við sjáum svo hvernig gengur þá er ég kem í febrúar, en ég hlakka mikið til og vonast til að sjá sem flesta…

Kveðja,

Diðrik/Nekron