Grein fengin frá Taekwondo Ísland www.taekwondo.is:
—————

Björn Þorleifsson æfir með norska landsliðinu

Master Michael Jørgensen landsliðsþjálfari Noregs hefur boðið Birni Þorleifssyni að koma til Noregs í boði norska landsliðsins og æfa hjá þeim. Master Michael og Björn hittust á Wonderful Copenhagen Taekwondo Tournament í sumar og lagði Master Michael þetta undir Björn þá. Þetta er einstakt tækifæri fyrir íslenskan íþróttamann að fá að æfa með liði eins og norska landsliðið er í dag, og þetta á án efa eftir að vera reynsla sem á eftir að vera honum til mikilla góða.

Master Michael hefur gert gífurlega góða hluti í Noregi, og hefur bætt árangur landsliðsins til muna eftir að hann tók við því. Hann hefur unnið til margra viðurkenninga í Noregi, og var valinn ársins Taekwondo maður 2001 af norska Kampsports sambandinu. Þess má geta að norska landsliðið vann félagsbikarinn á Wonderful Copenhagen Taekwondo Tournament annað árið í röð nú í sumar.

Björn fer núna 3. nóvember til Noregs, og er þetta í annað skipti sem hann fer og æfir með þeim. Eftir æfingabúðirnar mun Björn svo halda til Danmerkur og taka þátt í Scandinavia Open sem haldið verður 9. nóvember í Árósum.

Texti: Erlingur Jónsson