Úrslit Scottish Open
Glasgow 17. febrúar

Um helgina fór fram sterkt mót í Taekwondo í Glasgow, Skotlandi. Þar kepptu yfir þrjátíu Íslendingar undir stjórn formanns Taekwondo-sambands Íslands, Snorra Hjaltasonar. Sverrir Tryggvason og Sigursteinn Snorrason fóru með sem þjálfarar hópsins. Öll félög landsins sem sem leggja stund á Taekwondo tóku höndum saman og sendu flesta af sínum sterkustu keppendum og lét árangurinn ekki á sér standa. Þetta er einn glæstasti árangur Íslendinga á erlendri grund í þessari vinsælu bardagalist.
Helst ber að nefna sigur Einars Carls Axelssonar, Fjölni í fjaðurvigt fullorðinna svartbeltinga. Einar sigraði fyrst Finna nokkuð örugglega. Í öðrum bardaga vann hann Afríkumann sem keppti sem gestur á mótinu og var spáð sigri. Einar vann bardagann 3-1 og var nú orðinn mjög heitur. Í undanúrslitum varð andstæðingurinn að hætta við keppni vegna meiðsla og var Einar kominn í úrslit þar sem hann mætti gríðarsterkum Íra sem var yfir á stigum mestallan bardagann. Þegar einungis tíu sekúndur voru eftir náði Einar sannkölluðu draumasparki, í stöðunni 6-4 fyrir hinum og vann Einar með rothöggi á seinustu stundu. Fögnuður íslenska liðsins var mikill þegar Einar lyfti bikarnum og öskraði “hverjir eru bestir svo að glumdi í höllinni”.

Sveinn Kjarval, ÍR stóð sig frábærlega á sínu fyrsta alþjóðlega móti og vann báðar greinarnar, Púmse (form) og Kjorugí (bardaga). Hann komst örugglega í úrslit í forminu og keppti þá við annan íslenskan keppanda, Magneu Kristínu Ómarsdóttur, Fjölni. Það var jöfn rimma en Sveinn hafði sigur að lokum. Sveinn var ekki hættur og vann hann einnig með nokkrum yfirburðum í sínum flokki í bardaga. Sannarlega sterk innkoma í alþjóðlega keppni hjá honum.

Stærð og styrkur íslenska liðsins vakti mikla athygli úti og þá sér í lagi samstaðan og hvatningin sem þeir sýndu hvert öðru. Það er ánægjulegt að sjá fólk úr mismunandi félögum sameina krafta sína og styðja hvort annað og ná viðlíka árangri.

Gullverðlaun í Púmse (formi):

Sveinn Kjarval ÍR

Silfur í Púmse:
Magnea Kristín Ómarsdóttir Fjölnir

Brons í Púmse:

Þorri Birgir Þorsteinsson Fjölnir
Írunn Ketilsdóttir Fjölnir

Gull í Kjorugí (bardaga):

Þórdís Úlfarsdóttir Þór, Akureyri
Rut Sigurðardóttir Þór, Akureyri
Reynir Guðmundsson Þór, Akureyri
Haraldur Óli Ólafsson Fjölnir
Einar Carl Axelsson Fjölnir
Írunn Ketilsdóttir Fjölnir
Magnea Kristín Ómarsdóttir Fjölnir
Þóra Kjarval ÍR
Sveinn Kjarval ÍR

Silfur í bardaga:
Tómas Eyþórsson Þór, Akureyri
Sigurður Óli Ragnarsson Þór, Akureyri
Þorri Birgir Þorsteinsson Fjölnir
Hergeir Már Rúnarsson Keflavík
Svavar Jón Bjarnason Fjölnir
Örn Sigurbergsson Fjölnir
Sigrún Nanna Karlsdóttir ÍR

Brons í bardaga:
Helgi Leifsson Þór, Akureyri
Helgi Sigurðarson Fjölnir
Steinar Örn Steinarsson Fjölnir
Eggert Gunnarsson Þór, Akureyri
Sverrir Ingi Sverrisson Ármann

Samtals:
10 gull
8 silfur
7 brons