Æfingabúðir Grímnis/Usagi 2008 Sælt veri fólkið,

…Og - samkvæmt venju - þá er neðanvert lesefni gripið af Grímnissíðu og sett hér til fræðslu þeirra er forvitnast á stundum…;-)

Nema hvað; og vildi ég þó benda á: http://www.nekron-art.com/Grimnir-News.htm …En þar má sjá hið fyrsta framsal ljósmynda af atburðinum. Góða skemmtun!!!


…Og nú er æfingabúðum Grímnis og Usagi Dojo lokið, en búðirnar fóru fram á tilsettum tíma og stað við Beerenplaat í Hollandi, þátttakan - vægast sagt - mjög góð og atburðurinn lofsverður í heild sinni. Vitanlega var þetta hið mesta slark á tímum, en veðurguðirnir gjörðust miskunnsamir og héldu aftur regndropum og vindi; tja, nema hvað rétt um næturbil en þá voru ninjurnar vökvaðar rétt svo…;-)

Þar sem tjaldað var á ‘vernduðu’ almenningssvæði; þá gerðist hljóðleysi og leynimakk nokkuð mikilvægt svo að framtakið ylli hvorki usla né athygli laganna varða, en svo hefði - mögulega - farið að illúðlegir Grímnismenn yrðu reknir á braut ef til slíks hefði komið. Nema hvað; svo fór ekki og hélst gamanið nær ótruflað frá upphafi til enda. Laugardagskvöld náði þó hápunkti er öryggisvörður nærliggjandi vatnsveitu brá ljóskastara að búðum og varðeldi, en hinn brosmildi Shidoshi Verheij útskýrði nærveru okkar og létti áhyggjum varðarins yfir svartklæddum hryðjuverkamönnum í skóglendinu.

Af svipuðum ástæðum, þ.e.a.s. vegna öryggis og mögulegs gestagangs á svæðinu, gjörðist nauðsynlegt að sleppa ógnvænlegum bitvopnum og öðru slíku er hefði getað skapað neikvæð viðbrögð almennings, en ráðagerðir einfölduðust fyrir vikið og þeim mun betur einblínt á það er lá í fyrirrúmi; nær 40 aðferðir Gyokko Ryu Kosshijutsu, en stíllinn stóð til í heild sinni og fór meginþorri æfingatíma í það nám.

Hvað fleira er fyrir bar og fór jafn kostulega sem annað; þá var það ríkjandi og bróðurlegur andi er settist fljótlega á búðirnar, en allir skemmtu sér konunglega í rósömu og gefandi umhverfi án keppnisáráttu, metings eða annars slíks er hefði einungis ollið leiðindum. Mikið var hlegið, étið og drukkið, æft tímanna á milli þar til svart náttmyrkur lagðist yfir og menn neyddir í svefnplássin. Varðeldurinn hélt þó sumum vakandi við kjaftagang undir morgun, en þegar líða fór á dagana; var þreytan farin að þægja menn nokkuð fljótlega eftir rökkur.

…Og þrátt fyrir ráðagerðir og brugg, áætlanir og annað slíkt, bjó léttúðug skipan í anda Bujinkan svo um að rólega yrði gengið á hlutina og engar tímatöflur hafðar við, en svo hefði einungis myndað stress og annað slíkt er ylli síst þróun og góðu gamni. Semsagt; ‘planið’ haft við lauslega, en eftirfarandi ætti að veita frekari innsýn á erfiði hvers dags á eigin vísu:

Fimmtudagur, 26 júní: Að loknum hlaupum um miðbæ Zoetermeer; þá í leit að hinu og þessu ásamt kaupum á sértilsniðnum Grímnisbolum/-peysum, var haldið til Rotterdam og hið allra nauðsynlegasta keypt í sportbúðinni Herkúles. Þar mátti fá brækur, Gi, viðarvopn, belti og Tabi skó á ágætis verði, en svo fór að nær allir gjörðust tilbúnir á vegsamlega vísu og þaðan vorum við taxaðir til Spijkenisse Centrum þar sem Shidoshi Marco beið okkar með eftirvæntingu.

Að lokinni heilsu, kynningu og kossaflóði; var stefnan sett á 5 km gönguferð, en Grímnismenn nutu útsýnis á heilsusamlegri tvígengisferð um hollenska láglendið og létt vart á sér fyrr en á krossgötur var komið, hafurtaskið gripið úr troðfylltri bifreið og borið stunulaust á áfangastað. Svo fór að áður en hver vissi betur; þá voru búðirnar uppsettar og klárar, varðeldurinn farinn að snarka og brátt draup feitin úr orkuríkum pylsum sem fljótlega fylltu sárar vambir þreyttra gesta. Dagur að kveldi kominn; gerðist lítið um æfingar þar sem afgerandi áhugi mátti sín lítils gegn dvínandi þreki og vaxandi þreytu…


Föstudagur, 27 júní: Nokkuð snemmilega dags; fóru menn rólega á stjá, enda talsvert stirðir eftir hina fyrstu nótt sem bar með sér vætu og kulda gegn öllum vonum. Að loknum dögurði - og kaffisulli - var haldið á nýtroðið Dojo í trjáróðri einu við búðirnar og skammlaust tekið til við að teygja úr sér hrollinn. Þaðan af hófust æfingar í Sanshin No Kata og stöður, viðnám og veltur teknar fyrir á meðan sólin hitaði upp búðirnar.

Að lokinni pásu og kjaftagang, hófust miðdagsæfingar með þjálfun í Hoken Juroppo (að mestu samkvæmt aðferðum Shindenfudo Ryu) og líkamsvopnum beitt gegn refsigjörnum trjábolum er umluktu rjóðrið. 16 aðferðir voru færðar til taks og kom framtakssemi jafnt sem árangur talsvert á óvart, en Grímnisninjurnar hömuðust látlaust gegn trjánum og var farið að sjá töluvert á þeim undir hið síðasta. Héðan af var gripið í svokallað Bujinkan Henka, en þá voru brögðin prófuð gegn hvor öðrum á létta - impróvíseraða - vegu og nýjar leiðir fundnar til nýtinga á spörkum, hnefahöggum, köstum, klóri, sköllunum o.fl… Dagslok báru með sér kastaðferðir Togakure Ryu Shurikenjutsu og var skemmt við Bo-shuriken Nage Waza og annað svipað þar til myrkur kvaddi menn að eldi og málsverði.


Laugardagur, 28 júní: Komið var á miðjan morgun er Paul mætti á staðinn, en sá mátti þó nokkuð halda í sér á meðan búðargestir hámuðu í sig kaffi og grillað brauð. Þrútnir af orku og þó stirðbusalegir til uppstigningar, þurftu menn eitthvað að rétta úr sér áður en æfingar hófust hispurslaust í aldagömlum aðferðum Gyokko Ryu Kosshi Jutsu… En fyrr en varði voru menn komnir á flug og farnir að skemmta sér við nám á einum mikilvægasta stíl Bujinkan Ninjutsu.

Gamanið hófst - vitanlega - með 5 atriðum Sanshin No Kata, en svo tóku meginþættir Gyokko Ryu við og - með pásum hér og þar til afslöppunar - var dæminu nær lokið er kvölda tók og varðeldur kallaði ninjurnar til sín. Ró og næði réð lofum er menn sátu kátir, átu og drukku sér til nægju, en þó var vart setið enda hlaupið í Shurikenjutsu að loknum málsverði og pinnum kastað án afláts undir rökkur. Þó sumir hafi stungið fótum við er síðustu sólargeislarnir hurfu sjónum og náttmyrkrið lagðist yfir kjarrið, héldu nokkrir sér gangandi með sverðtækni og léttu sparri. Ýmsar kúnstir numdar og prófaðar, æfðar hljóðlega og með ýtrustu varkárni þangað til að fyrrnefndur öryggisvörður kveikti á kastara og hrakti okkur í hvarf. Þaðan af lagðist náttúrulegur friður á búðirnar og svefnleysið fór skjótt að láta á sér bera…


Sunnudagur, 29 júní: Ókembdir, skítugir og - vægast sagt - illa lyktandi; grófu menn tennur í brauð, kex og kjötleifar áður en kaffið hvatti til hreyfinga. Paul mætti að lokum og var hleypt af boganum eina stutta stund áður en síðari hluti Gyokko Ryu var tekinn fyrir og kláraður með pompi og prakt. Var hnífurinn mundaður ásamt sverði og undankomu-/bardaga-aðferðirnar æfðar í þaula gegn hvorutveggja áður en lokaatriði Mutodori sverðnámsins í Gyokko Ryu kom til tals. Tók Diðrik sig þá til og faldi nýkeypt, svart belti undir klæðum, setti sig í stöðu gagnvart Paul og steig frá sverðárás, svo aftur innávið, tók fram beltið og slengdi því í gagnauga; þaðan var beltinu svo kastað í jörðu og Paul slengt ofaná. Semsagt: Paul kominn með 1 Dan og tók sá við því feginshendi við lófaklapp og húllumhæ!!!

Þó var leikum ekki með öllu lokið; og þurfti Paul að sanna sig enn frekar er Diðrik réðst að honum samkvæmt aðferðum Kihon Happo, en hér réð flæðið úrslitum og stóð Paul sig með ágætum eins og við var búist. Að loknum ræðuhöldum og umtalsverðu - ahumm - umtali um hinn nýjasta svartbelting Bujinkan, var blástursbyssan tekin fram og áhugasömum leyft að prófa. Að því loknu voru púðurfyllt egg gripin og ískyggilegar aðferðir Metsubushi Nage prufukeyrðar áður en búðum var lokið og pakkað saman í rósamri fljótfærni. Haldið var heim á leið; að þessu sinni gengið að ferju einni sem færði þreytta ferðalanga yfir Spui fljót (þó sumir hafi brugðið sér til sunds áður) og nær ákvörðunarstað, en svo komust menn á leiðarenda með almenningsfarkostum ýmiskonar og að lokum sátum við rósamir í stofu í Zoetermeer, skítugir og að lotum komnir. Sturtubað og ítarlegar sjálfshreingerningar enduðu daginn ásamt indókínversku takeaway í magann…


Búðunum slitið og að enda komið ásamt öllu því - helsta - umstangi er fylgdi. Vitanlega voru menn ekki á öðru en að ná frekari æfingum áður en haldið væri heim á leið, en svo hélst við á nærliggjandi dögum og höfðu Grímnisninjur margt með sér til baka; þá sérstaklega þar sem æft var þetta 6 til 8 tíma á dag og mörgu komið á framfæri. Gráðun hafði einnig farið fram á laugardagaskveldi og grænu beltin vafin til heilla þeirra er stóðu sig með einsdæmum vel, enda áttu áhugasamir nýliðar svo fyllilega skilið að snúa aftur til heims og heimalands búnir öðru mjaðmartági en því hvíta sem tollir einungis byrjendum. Allir stóðu sig sérstaklega vel, sýndu áhuga og komu hressilega á óvart með sjaldséðum kostum og sívaxandi eiginleikum. Það væri vart orðum komið að hversu sjáanlega munaði á hverjum sem einum, frá hinum fyrsta degi og undir þann síðasta. Megi þeir lengi lifa, vaxa og dafna!!!

…Og þó betur haft að þeir komi eigin orðum að, en hér að neðanverðu má lesa reynslu þeirra og íhuga þá upplifun er sumir hverjir nutu á eigin vísu:


Ari Freyr: Sko! Ef ég ætti að velja eitt atriði sem mér fannst skemmtilegast myndi ég fá heilablóðfall, eða eitthvað í þeim dúr! Gamanið byrjaði einfaldlega bara á mómentinu sem ég lenti, þar blasti hann Nonni þjálfari við og vinur hans Hjalti. Ferðin í bílnum heim til hans Didda var eins flippuð og karlmanleg og hægt var að við 4 karlmenn villtumst held ég oft! Heim var komið og æfingar byrjuðu, byrjað var að setja eitt stykki einkennismerki á okkur vinina (eitt stykki hjúdge marblettur sem er ekki enn farinn). Svoleiðis hélt það áfram þar til við lögðum inn í skógin! Þar hittum við Marco (5dan) sem gerði eld og allt það. En æfingarbúðirnar í heild sinni gengu bara áfram, ALLT var alveg geggjað stuð og ekki síst þegar við tókum pásur.
Með þessari ferð hef ég lært að Bujinkan er mitt uppáhaldsáhugamál og sport, æðislegt fólk í þessu og ég hvet alla til að mæta til okkar í Grímni til að prufa!!


Siggi Raggi: Mín reynsla af æfingabúðum grímnis 2008. Það sem mér fannst standa upp úr í þessari ferð var fyrst og fremst þessi rosalega góði andi sem er alltaf einkennandi á æfingum grímnis, allir vinir og enginn metingur. Búðirnar sjálfar voru mjög vel heppnaðar aðstæðurnar voru góðar veðrið gott og maturinn frábær. Ég upplifði búðirnar eins og þær væru klipptar út úr einhverju góðu ævintýri, mjög skemmtileg upplifun sem ég get ekki beðið eftir að upplifa aftur. Hvað listina varðar lærði ég ótrúlega mikið á svona stuttum
tíma og áhuginn jókst mikið.


Daði Steinn: Æfingabúðirnar voru geðveikar og hjálpaði mér mikið með að ná skilningu áhreyfingum og tækni i bujinkan. Við fengum að nota allskonar vopn, græjur og sváfum i hengirúmum út í skógi sem var geðveikt gaman. Ég get ekki beðið eftir næstu æfingabúðunum.

Marco Verheij: Fjórir dagar og þrjár nætur í einu af villtum úthverfum Hollands. Helsta þeman var Gyokko Ryu og kenndi Paul sína síðustu tvo daga sem grænbeltingur. Diddi tók í aðferðir Hajutsu á föstudegi. Hjalti bjó til klósett. Seglin hnýtt þegar rigna fór yfir hengirúm Sigga og Hjalta. Græðisúran (Plantago Major) nýtt gegn blóðnös Ara og blæðandi hendi Nonna á meðan hann sagaði. Allt dótið sem við burðuðumst með, þar á meðal eldkarfa unnustu minnar sem stóð í miðju búðanna. Allar vatnsflöskurnar fylltar og endurfylltar. Kjötið frá slátraranum. Blandað salat með ólífum og gulum baunum. Ljós- og kvikmyndir liggja eftir ásamt góðum minningum um stórfenglegar búðir sem tókust vel. Þökk sé öllum fyrir að hafa komið og til hamingju Paul; áfram nú!

Diðrik Jón: Þetta var umtalsverð og stórfengin samkoma sem taldi fárra þjóða kvikindi: Átta Íslendingar, þrír Hollendingar og einn Grikki… Allir saman í sátt og samlyndi þar sem vinir æfðu og gerðust bræður fyrir vikið. Við kennararnir deildum út flestöllu því er við máttum; þá helst til að auka á getu og möguleika nýgræðinga, en okkur þótti mikilsvert að þeir færu til baka eitthvað betri en þeir komu, þó ekki síst fylltir góðum ráðleggingum, hugmyndum og þekkingu sér til framfærslu. Þó mikilvægast af öllu; allir skemmtu sér konunglega og reynslunni ríkari er stefnt er að halda búðirnar á Íslandi að ári liðnu!!!


…Og nú skyldi vart meira kveðið að sinni, en afköstum er lokið um skeið og - eins og getið er að ofanverðu - ágætt að láta sig hlakka til hins næsta skiptis er mannamót Grímnis og Usagi Dojo miðla þekkingu og vináttu undir fána Bujinkan.

Vildi ég - enn og aftur - veita þakkir, fyrir hönd Grímnis og Usagi Dojo, öllum þeim er mættu og stóðu sig svo með einsdæmum vel. Minna á orð þau er lögð voru í belg og óska öllum velferðar þangað til að við sjáumst næst. Æfið og lifið vel!!!

Með kveðju,

Diðrik Jón Kristófersson - Bujinkan Yondan Shidoshi-Ho