Með bardagana í blóðinu tekið frá: http://visir.is/article/20080622/IDROTTIR/276967932

Hjalti Þór Hreinsson skrifar:

Ég hitti Renzo Gracie í húsakynnum Mjölnis. Hann var þá nýkominn úr Bláa lóninu og lét vel af. Hann hélt námskeið helgina 14.-15. júní fyrir iðkendur í Mjölni þar sem færri komust að en vildu. Renzo var boðið til Íslands í gegnum Royal Group, fyrirtækjasamstæðu þrjátíu fyrir­tækja í Abu Dhabi, næststærstu borg Sameinuðu arabísku furstadæmanna (SAF) á eftir Dubai. Stjórnendur Royal Group hafa mikinn áhuga á Íslandi og þreifa fyrir sér hér á landi upp á samstarf.

Maðurinn á bak við Royal Group er Sheikh Tahnoon Bin Zayed Al Nahyan, krónprins Abu Dhabi. Renzo hefur verið einkakennari frá árinu 1993. Bróðir Tahoons er Sheikh Khalifa Zayed Al Nahyan, forseti SAF. Þeir bræður eru synir Zayeds bin Sultan Al Nahyan sem er arkitektinn á bak við SAF; hann stýrði landinu í tuttugu ár og er enn þjóðhetja.


Fimm ára á æfingar hjá afa

En nóg um það. Renzo fæddist í Rio de Janeiro í Brasilíu árið 1967. Fjölskylda hans var engin venjuleg fjölskylda. Hann er af þriðju kynslóð bardagamanna en Gracie-fjölskyldan er sú virtasta innan bardagaheimsins. Afi hans, Carlos, fann upp brasilískt jiu-jitsu ásamt bróður sínum, Hélio.

„Ég reyndi að sýna einhverja sambatakta í fótbolta en ég gat ekki neitt,“ segir Renzo glaðbeittur en afi hans og faðir byrjuðu að kenna honum að berjast þegar hann var fimm ára gamall. „Afi minn lærði hina upprunalegu íþrótt jiu-jitsu af Japönum og útfærði hana á sinn hátt. Hann skapaði því brasilískt jiu-jitsu sem ég er mjög stoltur af.”

„Ég ólst ekki upp í hörðu hverfi en fjölskyldan mín er stútfull af bardagamönnum. Ég ákvað því strax að halda heiðri fjölskyldu minnar á lofti. Þetta er lífsstíllinn minn," segir Renzo sem reyndar gerðist atvinnumaður á brimbrettum í skamman tíma. Hann gerðist síðan atvinnumaður í bardaga­íþróttum og vann fjölda titla.


Helgar sig íþróttinni

„Ég ákvað að helga mig íþróttinni algjörlega. Ég er ánægður með að vinnan mín er nokkuð sem ég hef unun af. Þetta er reyndar ekki eins og vinna fyrir mér, þetta er bara ánægja. Að fá að lifa inni í þessu," sagði Renzo, sem fór í háskóla en hætti þá skólagöngunni.

Renzo hefur keppt í brasilísku jiu-jitsu og í blönduðum bardaga­íþróttum (MMA, Mixed Martial Arts) og náð framúrskarandi árangri í báðum greinum. Vinsældir MMA náðu nýjum hæðum þegar UFC-samtökin (Ultimate Fighting Championship) hófu keppni til að skera úr um hvaða bardagalist, þar sem vopn koma ekki við sögu, væri best. Einn af stofnendum UFC var Rorion Gracie, náfrændi Renzos.

Áður fyrr voru reglur í keppnum á vegum UFC ekki strangar og ljót meiðsli voru tíð. Í dag hafa reglurnar verið hertar þrátt fyrir að harkan sé enn gríðarleg. Renzo er með sitt eigið lið sem keppir í IFL-deildinni (International Fighting League). Það er fyrsta deildin í MMA-heiminum en hún var stofnuð árið 2006. Lið Gracies kallast nú The Gracie Academy en hét áður New York Pitbulls. Lið hans varð meistari á síðasta ári og fór það í gegnum tímabilið án þess að tapa bardaga.


Ört stækkandi skóli

Gracie býr nú í New York þar sem hann starfrækir samnefndan skóla, The Gracie Academy. „Ég hef alltaf kunnað vel við New York. Hún hefur þann eiginleika að fagna öllum, þarna er fólk af nær öllu þjóðerni. Ég gat fundið Brasilíumenn, brasilískan mat og slíkt,“ segir Renzo, sem stofnaði skólann fyrir tólf árum. Skólinn fer ört stækkandi og æfingaaðstaðan er glæsileg.

Í henni æfa 950 manns og eru fjórtán tímar starfræktir á hverjum degi. Skólinn er í 3.000 fermetra húsnæði sem Renzo vonast til að stækka fljótlega til að geta komið allt að 1.500 manns fyrir. Hann stefnir jafnframt á að opna fjóra nýja skóla í New York og nágrenni á næstu árum. „Skólinn hefur stækkað ótrúlega hratt. Við byrjuðum með um fjörutíu manns en höfum heldur betur hækkað töluna. Hann stækkar með hverjum deginum,” segir Renzo.


Því eldri, því betri

MMA er líf hans og sál en grunnur þess er brasilískt jiu-jitsu, að mati Renzos. „Ef þú kannt ekki BJJ, þá skaltu ekki keppa í MMA, þá taparðu bara,“ segir hann eins og hann sé að gefa blaðamanni föðurleg ráð. „Íþróttin er gríðarvinsæl. Þetta er í sjónvarpinu allan sólarhringinn í Bandaríkjunum og iðkendum fjölgar stöðugt. Á heimsmeistaramóti í Kaliforníu um daginn kepptu yfir 1.500 manns,” segir kappinn en yfir milljón manna horfðu á fyrsta bardagann í IFL-deildinni í sjónvarpi á síðasta ári.

Renzo keppir enn, síðast snemma árs 2007, en stefnir á bardaga á þessu ári. „Ég fer fljótlega að æfa aftur. Þá æfi ég sex daga vikunnar, tvisvar til þrisvar á dag, og fer á sérstakt mataræði,“ segir Renzo, sem orðinn er 41 árs gamall. Aldurinn er alls ekki farinn að hafa slæm áhrif á kappann.

„Ég hef verið að bæta mig frá því ég var fimm ára. Ólíkt mörgum íþróttum, þar sem menn vilja ekki eldast, þá er maður eins og gott vín í þessari íþrótt. Þetta er eins og skák, hugurinn skiptir öllu máli. Eini munurinn er að í skák eru menn ekki að kyrkja hver annan,” segir Renzo og hlær dátt.


Ekkert án íþróttarinnar

Hann á konu og þrjú börn sem öll hafa stundað bardagaíþróttir, mismikið þó. „Elsta dóttir mín er ekki mikið fyrir þetta. Hún stundaði smá sparkbox en er meira fyrir tísku og slíkt,“ segir hann og brosir. „En yngri tvö börnin eru stórhrifin af þessu og stunda íþróttina af miklum móð. Bakgrunnur í þessari íþrótt jafnast á við hvaða háskólanám sem er, heimspekilega séð. Ég myndi ekki vilja að börnin mín misstu af því að upplifa það að vera á gólfinu og æfa sig.”

Ein besta upplifun Renzos á ferlinum kemur úr þjálfunarhliðinni. „Að gera meistara úr nemendum mínum er ótrúleg reynsla,“ segir Renzo, sem lifir fyrir íþróttina. „Þessi íþrótt gefur mér allt sem ég er. Ef þetta verður tekið frá mér verð ég eins og tóm skel. Allt sem ég geri og kann kemur frá íþróttinni. Þetta hefur opnað ýmsar dyr fyrir mér og gert líf mitt afar skemmtilegt og viðburðaríkt. Að vera í kringum fólkið sem ég dáist að. Ef ég myndi deyja núna og mætti ráða hvernig líf mitt yrði, myndi ég hafa það nákvæmlega eins og það hefur verið,” segir Renzo Gracie.
Stjórnandi á