Tekið af
www.SsangYongTaeKwon.com

Sami höfundur (fyrir hatarana:-)
Beltaprófi í Miacatlan og Cuernavaca lokið
Næst-stærsta félagið innan Ssangyong, Dojang Pequenos og það nýjasta, dojang Borealis í borginni Cuernavaca í Mexíkó héldu beltapróf í liðinni viku. Master Sigursteinn fór suður ásamt þeim Ingibjörgu Erlu Grétarsdóttir, nemanda ársins 2008 og Jóni Hermanni Jóhannessyni. Bæði eru þau í A-landsliði Minior í sparring og í Svarta klúbbnum.

Jón Levy, kennari Ssangyong í Mexíkó tók vel á móti gestunum og við tóku æfingar og próf fyrir þá tæplega 150 nemendur Ssangyong sem eru í Mexíkó. Jón Hermann tók einnig próf fyrir 3. geup úti, við hliðina á Valeriu og Daniel sem voru að taka rauða beltið. Þau eru Íslendingum að góðu kunn eftir að þau heimsóttu okkur í mars. Þau, ásamt Siviu, bera góðar kveðjur til allra á Íslandi, sérstaklega Eyglóar, Helga Flex, Rutar og nemendum og foreldrum í Ssangyong.

Gríðarlega efnilegir nemendur eru að koma upp undir kennslu Jóns Levy, þar á meðal 16 ára stelpa sem stóð sig með eindæmum vel og vann sér inn ferð til Íslands, samdægurs ef leyfi hefði fengist, með frábærri frammistöðu og keppnisvilja.

Master Sigursteinn stóð á gati yfir hæfileikunum og bauð henni til Íslands á staðnum. Ichel tók bæði grænt og blátt belti í prófinu og undirstrikaði þannig góða frammistöðu á æfingunum.

Þau tíðindi urðu í þessu prófi að Ssangyong barst mikill og góður liðsauki i formi master Cesar Rodriques Luna, 5. dan. Hann hefur tvisvar náð silfri á HM, er fyrrverandi landsliðsþjálfari Mexíkó í bardaga, tæknilegur ráðgjafi Mexíkanska TKD-sambandsins, Member TKD Hall of Fame, stofnandi og meistari Absolut TKD sambandsins í Mexíkó og svo mætti lengi áfram telja. Eftir formlegar kynningar og sýningu nemanda hans tóku master Sigursteinn og master Cesar sig til og lýstu yfir samstarfi þessarra tveggja sambanda í framtíðinni og er fyrsta skrefið það að master Cesar mun hefja kennslu í Fjölni, elsta félagi Ssangyong, þegar hann flytur til landsins í september. Hann hreifst mjög af kraftinum, gleðinni og skipulaginu í kring um prófið og segist hlakka verulega til að láta til sín taka á Íslandi á komandi árum. Lily, kona hans, er með 1. dan og tók virkan þátt í prófhaldinu ásamt dóttur þeirra hjóna Valeriu.

Nánari upplýsingar um master Cesar og hans feril má fá á wikipedia og á www.absoluttaekwondo.com


myndir og meiri upplýsingar á:
© SsangYongTaeKwon