Æfingabúðir Hajutsu Kyu Ho Sælt sé fólkið og nú ágætt að láta að sér kveða, en hér að neðanverðu má finna (a lá ‘copy/paste’ af Grímnissíðu) lýsingu á æfingabúðum þeim er haldnar voru 3 og 4 nóvember síðastliðinn í húsakynnum Fjölnis í Grafarvogi.

Ég bendi svo bara á: http://www.flickr.com/photos/20580259@N04/sets/72157603195027145/show/ …En þar má sjá - ásamt öðru svipuðu - myndir af þessum skemmtilega atburði.

Ég bið ykkur svo vel að lifa og óska þess einungis að lesning þessa efnis sé að einhverju leyti fræðandi um okkar mál og aðferðir.

Vinsamlegast,

D/N



Nú og þar sem heimkomu, ásamt aukaæfingum, er lokið og Grímnismenn græddir, slegnir gullhömrum og æfðir í þaula; þá er ekki verra að fara ljúfum orðum um atburð þann er við stóðum að og gerðum svo vel okkur til sóma og bóta:

Æfingabúðir ‘Hajutsu Kyu Ho’ voru haldnar með pompi og prakt á settum dögum og samkvæmt fyrirhugaðri áætlun; enda reyndist andinn sérstaklega góður, mikið hlegið og aðferðirnar stundaðar óspart í dugandi félagsskap sem þróaðist og þroskaðist ófyrirsjáanlega vel á þessum einstæðu mannamótum. Þátttakendur stóðu sig vel og sýndu alla þá kosti er búast mátti við, léttlyndi og síbreytilegt viðmót ásamt heilshugar áhuga og ósérhlífni í hvívetna, enda var vel uppskorið og sæði Bujinkan vel sáð í íslenska vætti.

Flestöll grunnatriði ‘Hinna Níu Leiða Undankomu’ voru tekin fyrir, en stundinni virtist oft nær lokið þá er hún var upprunnin og margt enn til staðar - og ógert - sem íhuga þarf á komandi misserum, en svo virðist ætíð standa á málunum innan Bujinkan. Nóg að gera og svo ósköp margt sem læra má, en þá skyldi jafnframt íhuga meiningu fleygra orða ‘Banpen Fugyo’ eða ‘Tíuþúsund breytingar - Engin undrun’, en hér er - meðal annars - vikið að hversu óteljandi aðferðir Bujinkan eru og að hver æfing/aðferð/tilbreyting er sérstök á eigin vísu…

Þó var skipulaginu vel fylgt og hver dagur látinn njóta sín, en áætlun og aðferðir voru samkvæmt eftirfarandi töflu og útskýringum:

Laugardagur 3 nóvember (13:00 til 17:00)

(a) Aðferðir Taihenjutsu Ukemi Gata voru stundaðar og eiginleikar ‘síbreytilegra líkamshreyfinga’ teknar fyrir með nokkuð alvörukenndara ívafi umfram þeim lauslegu tilþrifum er ósjaldan þekkjast á venjulegum æfingum. Öryggi og viðbrögð voru þá helst lögð fyrir ásamt högg- og sparkaðferðum blöndnum möguleikum til viðnáms, meðfærni og fjarlægða. Hér leystust menn eilítið úr læðing og fóru að bæta eigin háttu samkvæmt frjálslegum meðferðum Ninjutsu. Velturnar hlutu dýpri skilning og aukna virkni, en mjaðmarhreyfingar Taijutsu vöktu óséða krafta og möguleika án stirðleika, taktfestu og fyrirsjáanleika.

(b) Hajutsu Kyu Ho kom loks á daginn og - samkvæmt viðvörun - forminu fylgt í þaula án spurninga og/eða efasemda. Hvert atriði var vel numið og þó skreytt með ‘Henkum’ (tilbreytingum) okkur til gamans, en níu atriðum var skjótt lokið og óhætt að segja hversu einfaldar aðferðirnar voru fljótlærðar. Hér - og samkvæmt útskýringu - reyndist mikilvægast að nema formið sér til þekkingar og leitast eftir ‘réttilegum’ tilburðum umfram því frjálslega viðmóti er skyldi taka við degi síðar. Hver sem einn lærði og sýndi lofsverðan áhuga blandinn hjálpfýsi, þolinmæði og alúð, enda þurfti sjaldan að benda fólki á afslöppun og tilkomuminni vöðvanotkun. Hápunkti var þó náð er ‘hálf-klassísk’ Gi-köst voru æfð berbrjósta og án yfirhafna, en hér gerðust margir nokkuð hold- og hörundsárir og - á stundum - emjað þá er gripið var til kasts…

© Að lokum var hlaupið í glímu og - samræmandi vaxandi keppnisanda - fólk látið reyna örlítið á með sér, en margvíslegar æfingar voru teknar fyrir og ‘hóp-sparring’ eitt af því sem þátttakendur skemmtu sér við undir lok dagsins. Höggin gengu nokkuð óspart, en engin slys urðu á mönnum og viðnáms-aðferðirnar farnar að láta ljós sitt skína undir hið síðasta þá er margir voru orðnir hálf slappir og marðir, enda enginn notkun á hlífðarbúnaði til staðar samkvæmt venju. Keppnisandinn vék þó loks úr vegi er sigurgjarnari - og þeim mun ágjarnari - menn fengu að njóta sín og við hinir fengum að tapa…

Sunnudagur 4 nóvember (13:00 til 17:00)

(a) Aðferðir ‘Taihenjutsu Ukemi Gata’ voru endurvaktar og færðar - þó nokkrum - skrefum lengra, en hér fóru veltur og viðbrögð að leiða lítið eitt út í möguleika til annaðhvort árása og/eða undankomu. Festan fór minnkandi og opið viðmót réð ráðum er fólk fór að ná áttum sér til betrunar og það - strax - á öðrum degi!!!

(b) Hajutsu Kyu Ho var aðalrétturinn og borinn fram sem slíkur; þó með ívið lauslegra sniði en daginn áður og frekar horft á notagildi og síbreytilegt viðmót Uke (þolanda) til sannprufu aðferða og tækni. Hér jókst hreyfingin umfram staðfestu og nýting margvíslegra smávopna (Kakushi Bukki) svosem: Rýtinga, smápeninga, kúlupenna og ýmissa - handhægra - barefla okkur til skemmtunar og skilningsauka, ef ekki til bættra aðferða og möguleika. Hér reyndist leikurinn einnig sá; að geta svindlað og valdið smávægilegum sjónblekkingum sér til trausts og halds ef til átaka kæmi, enda var þeman sjálfsvörn og málið að veita nothæfa vitneskju frekar en fjölkunnugar aðferðir Ninjutsu í heild sinni. Úlnliðslásar og tök voru sannprófuð gegn mótvirkum sem meðvirkum árásarmanni og/eða mönnum, óséðar undankomuleiðir fundnar og nýttar, óséð högg veitt, bitið og klórað svo eitthvað sé nefnt, stungið, lamið og stokkið. Allir reyndust varkárir og vinsamlegir svipað deginum áður, enda þurfti oft á rósemi að halda er ískyggilegar drápsaðferðir voru teknar fyrir og korraði eitthvað í sumum er hálstökin veittust með snúning og kasti.

© Að lokum var stungið í sparring og þar á meðal léttar aðferðir með flugbeitum kutum, en allir voru - sem áður - rósamir og áhugasamir, enda keppnisandanum útrýmt deginum áður og þátttakendur vel tilbúnir að leika sér án tiltölulegrar hættu á mannskemmdum. Stór skref voru tekin er fólk hætti að hræðast og fór að taka létt til sín í fyllsta öryggi, enda taldi hið eina slys dagsins; smá stungu í vísifingur og blóðdropa er þurrkaðist í Gi árásarmanns honum til sannfestu og heiðurs. Aðrar æfingar voru teknar fyrir með léttri - þó fullri - snertingu og hræðsla sem ofsi látin víkja úr vegi jafnt og þétt, en allir virtust sáttir við sig og sitt er kveðjan var þulin í lok dags… Æfingabúðum lokið og vitneskjunni miðlað til þeirra er unnu fyrir á svo lofsverðan hátt.

Undir hið síðasta má kveða hversu vel var að staðið; þótt sumra hafi verið saknað, en ekki komust allir sem vildu. Einnig má um kenna, hversu þátttaka var eitthvað fámennari en ætlað var; að auglýsingahernaði hafi ekki áskotnast sem skyldi vegna takmarkaðs tíma Grímnismanna og þ.a.l. skorts á hengdum tilkynningum og auglýsingaspjöldum. Þá eitthvað til að bæta úr í næsta skipti, en drög færast þegar nær höndum og fótum aðstandenda Maraþons, enda verið að dagsetja atburðinn og spjótin farin að beinast að marsmánuði 2008. Áfram nú og ‘Gambatte!!!’