Master Sigursteinn Snorrason vinnur í ritgerðarsamkeppni WTF, TPF og Kukkiwon

Master Sigursteinn er nýkominn heim eftir viðburðaríka viku í Kóreu þar sem hann dvaldist í góðu yfirlæti í boði WTF (World Taekwondo Federation), Kukkiwon og TPF (Taekwondo Promotion Foundation). Forsaga málsins er sú að að master Sigursteinn skrifaði í sumar ritgerð fyrir 5. dan prófið sem hann þreytti og náði í Kóreu í júlí. Í stað þess að skila henni inn til Master Kim sem Sigursteinn gerði að vísu líka sendi hann ritgerðina sína inn í samkeppni sem opin var öllum erlendum meisturum í Taekwondo í heiminum. Skipuleggjendur samkeppninnar, TPF auglýstu samkeppnina í byrjun árs 2007 og var skilafrestur til loka ágúst sl. Ritgerðin átti að fjalla um starf meistara í Taekwondo, erfiðleika og aðferðir við að kynna Taekwondo fyrir umheiminum og öðru fólki. Einnig átti að setja fram hugmyndir um kynningu á Taekwono, bæði í heimalandi sínu sem og á alþjóðlegum vettvangi.

Tæplega 100 meistarar sendu inn ritgerðir og komu þær frá öllum heimshornum og mismunandi aðstæðum. Svo fór að lokum að 14 meistarar fengu boð um að koma til Kóreu og taka á móti verðlaununum úr hendi Dai Sun Lee, 9. dan forseta TPF og Un Kyu Uhm 9. dan forseta Kukkiwon. Forseti WTF, master Choe var því miður vant við látinn og vildi þá svo vel til að master Lee er einnig varaforseti WTF og sá hann um afhendinguna fyrir hans hönd. Við afhendingu verðlaunanna mættu svo allir hæstu svartbeltingar heimsins, allir stofnendur upprunalegu Kwan-skólana. Þar á meðal var grandmaster Sun Bae Kim, 9. dan stofnandi Chang Moo Kwan en grandmaster Kim gráðaði einmitt Sigurstein í 5. dan núna í júlí. Sárasjaldgæft er að svo háttsettir menn taki sér tíma til að gráða einstaklinga en grandmaster Kim sýndi Sigursteini þennan mikla heiður nú í sumar.

Úti í Kóreu var farið eftir stífu prógrammi allan tímann. Hópurinn heimsótti höfuðstöðvar Kukkiwon og tók á móti verðlaunum frá forsetanum auk þess sem forsetinn ræddi ýmis málefni sem koma meisturum mikið við eins og reglubreytingar, skipulagsmál og styrki. Greinilegt er að gríðarlega mikið er að gerast hjá Kukkiwon og WTF þessa dagana, miklar breytingar væntanlegar í keppni, bæði í Púmse og Kjorúgí. Sem dæmi má nefna að ný keppnisform eru nú í þróun hjá WTF og fengu meistarahópurinn að sjá frumflutninginn á tveimur formum, púmse Hanrjú og púmse Píga. Bæði voru gríðarlega flókin og það síðarnefnda með miklum fimleikahreyfingum, flugspörkum og erfiðum sparkútfærslum. Sigursteinn náði að taka þetta upp á kubb í símanum sínum og geta áhugasamir nálgast upplýsingar hjá honum. Einnig fékk hópurinn sérstaka kynningu á LA JUST skorbrynjukerfinu nýja. Það þótti koma nokkuð vel út en þó ekki gallalaust.

Eftir heimsókn til Kukkiwon var farið í heimsókn í nýjar höfuðstöðvar WTF þar sem hópurinn ræddi við helstu ráðamenn þar auk þess sem nokkrir af meisturunum nýttu tækifærið og spurðu ráðamenn WTF í þaula um nokkur málefni sem valdið hafa miklum titringi innan meistarasamfélagsins seinustu misseri. Forsvarsmaður WTF þótti verulega sleipur og svaraði minnstu af spurningunum en var þó kurteis allan tímann, eins og Kóreubúum er lagið. Nýjir Púmse búningar voru ræddir sem og mismunurinn á áherslum í bardaga og formi hjá WTF og Kukkiwon.

Hópurinn heimsótti einnig staðinn þar sem gríðarmikið verkefni er að hefjast, Taekwondo-garðurinn í Muju. Þar á næstu 6 árin að byggja upp svæði upp á milljónir fermetra og fjárhagsáætlun upp á 750 milljóna bandaríkadala. Meistarahópurinn tók saman fyrstu formlegu æfinguna á staðnum og vígði þannig svæðið sem verður mekka Taekwondo í heiminum þegar allt er tilbúið. Ritgerðir meistaranna verða settar upp í sérstöku Taekwondo-safni og munu verða þar til frambúðar. Auk þess kom fram að meisturunum verður boðið til vígslu garðsins árið 2013 ásamt 14 öðrum helstu meisturum ættuðum frá Kóreu. Saman munu þessir meistarar vígja nýja garðinn ásamt ráðamönnum WTF, Kukkiwon og Suður-Kóreu.

Heimsmeistaramótið í púmse fór fram eftir afhendinguna og var hópurinn að hluta viðstaddur fyrsta keppnisdaginn. Þar var fylgst með keppni úr VIP-stúkunni ásamt helstu meisturum Kóreu og ráðamönnum WTF. Áberandi var hversu góðir kóresku keppendurnir voru flestir, en aldrei þessu vant náði Kórea ekki að vinna alla flokka. Forvitnilegt var að sitja fyrir aftan helstu kóresku meistarna tala frjálslega sín á milli um keppendur, sérstaklega í ljósi þess að Sigursteinn skildi vel hvað fram fór og það var greinilega ekki eitthvað sem meistararnir hefðu viljað að færi lengra. Enda verður svo. Annars vakti það mikla lukku Kóreubúanna að Sigursteinn hjálpaði nokkrum sinnum með kóreskuna, kóreskum meistara sem búið hefur í Evrópu í 35 ár.

Sigursteinn var mjög ánægður með verðlaunin og talaði um að það væri sérstaklega gaman að fá verðlaun fyrir eitthvað sem talist gæti andlegt afrek. Sigursteinn hefur áður unnið sér inn viðurkenningu frá Kukkiwon fyrir frammistöðu í 1. dan prófinu 1995 og einnig hefur hann fengið viðurkenningu frá WTF og Kukkiwon fyrir útbreiðslu og störf í þágu Taekwondo. Þau verðlaun fékk hann afhend þegar hann tók og náði prófi fyrir 3. gráðu alþjóðlegs meistara árið 2002, í Kukkiwon. Þannig að hann hefur fengið viðurkenningu frá æðstu stöðum Taekwondo fyrir líkamleg og andleg störf auk viðurkenningarinnar fyrir útbreiðslu á Taekwondo.

“Ég lít þannig á þetta að nú hafi ég fengið viðurkenningu frá æðstu stöðum fyrir þá þrjá þætti Taekwondo sem mynda saman sterka heild. Ég vona að þetta sé einungis byrjunin á mínu ævistarfi og þetta gefur mér óneitanlega mikla orku fyrir komandi tíma í mínum Taekwondo-ferli. Ég var mjög ánægður með hópinn og var gaman að ræða málin við fólk sem er í svipuðum sporum og ég sem og meistara sem hafa farið þá leið sem ég stefni á í lífinu.”

Ritgerðin mun birtast á síðum WTF og TPF á næstunni en fyrir þá sem hafa áhuga er bent á það að TPF hefur nú öðlast útgáfuréttinn á ritgerðinni og þ.a.l. ekki hægt að gefa hana út hérlendis fyrr en leyfi fæst. Gefin verður út bók með ritgerðunum sem send verður m.a. á öll landssambönd um áramótin.