Ferðasaga frá Kóreu

Við félagarnir, Helgi Rafn Guðmundsson og undirritaður höfum nú verið hér í Kóreu í tvær vikur og mikið hefur gerst á þeim tíma. Af Helga er það helst að frétta að hann skráði sig í kennaranámskeiðið hjá Kukkiwon og mætti þar á hverjum degi í viku. Námskeiðið er það sama og undirritaður fór á í júlí 2002. Helgi hlustaði þar á marga góða fyrirlestra og einhverja misgóða líka. Því miður þá voru ekki allir fyrirlesararnir með enskuna á hreinu og urðu menn að geta í eyðurnar. Meirihluti verklega þáttarins fór í Púmse og breytingarnar sem hafa verið gerðar upp á síðkastið. Landsliðsmenn og heimsmeistarar aðstoðuðu master Lee, sem var einn af þeim sem gerðu formin á sínum tíma, með kennslu.

Sparring þátturinn var einnig fyrirferðamikill og var ýmislegt fróðlegt sem fram fór þar. Til að mynda eru menn greinilega ekki á sömu blaðsíðu varðandi reglur og þess háttar. Nú þegar búið er að tilkynna að 7 og 12 stiga reglan sé ekki lengur í gildi voru enn margir sem vissi ekki hvaða reglu væri verið að tala um. Af þessum 120 manns sem sóttu námskeiðið voru því margir sem komu af fjöllum með marga hluti.

Helgi náði prófinu á seinasta degi en það var bæði skriflegt og verklegt. Verklega prófið var í formum og dæmdu helstu meistarar Kukkiwon prófið. Bóklega prófið varð á endanum frekar skrítið þar sem kom í ljós að meirihluti þátttakenda frá araba-heiminum og asíubúar höfðu lítinn sem engan skilning á því sem fram fór á námskeiðinu og varð að leiða suma í gegn um prófið, sem var á ensku.

Undirritaður notaði tímann á meðan Helgi var á námskeiðinu til að æfa formin og undirbúa 5. dan prófið. Auk þess þurfti að skila inn ritgerð upp á 30 bls. sem master Kim tók á móti. Þegar ritgerðin var klár og formin einnig var tíminn notaður í að fá tilboð í galla og aðrar æfingagræjur fyrir félögin. Svo fór að lokum að Pine Tree gerði gott tilboð og ef allt gengur að óskum kemur stór sending til landisns í lok september. Í henni eru m.a. nýju handa- og fótahlífarnar sem eru endurbættar frá fyrstu útgáfu og langtum betri og þægilegri. Þessar hlífar eru nú skylda á mótum í Kóreu og verða skylda á öllum stórmótum framvegis.

Á prófdeginum sjálfum skall á mikil hitabylgja hér í Seoul og fór hitinn upp í 34°C og rakinn upp úr öllu valdi. Prófið fór fram í Yonsei háskólanum en sama dag var að klárast landsmót menntaskólanna í Kóreu í Taekwondo. Þar voru 60 5 manna lið mætt til leiks og hart barist. Lið mótsins varð að lokum Lila-skólinn sem við þekkjum ágætlega þar sem nokkrir íslendingar hafa fengið að æfa með þeim, þar á meðal Helgi. Hann hitti einmitt nokkra af æfingafélögunum fyrir utan Yonsei eftir mótið og fór vel á með þeim. Eftir mótið þurfti að þrífa til á dýnunum þar sem mörg hundruð keppendur höfðu hreiðrað um sig þar og notað sem nestisaðstöðu.

Undirritaður sópaði og skrúbbaði í tæpa tvo tíma þar til gólfið var orðið þolanlegt og prófið gat hafist. Í þessum hita lak svitinn af manni og það áður en í gallann var komið.

Prófið sjálft hófst svo um 6-leytið um kvöldið. Ásamt master Kim, sem er 7. dan og meistari undirritað, dæmdi prófið grandmaster Kim, Sun Bae sem er meistari master Kim. Grandmaster Kim er með dan-gráðu númer 1000011, s.s. sá ellefti í röðinni í heiminum til að fá staðfesta gráðu hjá Kukkiwon. Við spurðum hann að því seinna um kvöldið hversu margir væru enn á lífi af hinum tíu. Þá glotti hann og sagði “fimm, en fer fækkandi”. Grandmaster Kim er vel sprækur og tók vel á því í prófinu sjálfu og stökk ítrekað upp og lagfærði og pússaði smáatriði í formunum. Grandmaster Kim er líka einna af þeim sem komu saman í byrjun og gerðu formin sem við notum í dag. Þannig að hann hlýtur nú að kunna þau.

Prófið byggðist upp á formum þar sem Keumgang, Taebaek, Pyongwon og Sipjin voru gerð. Grandmaster Kim sá mörg smáatriði sem undirritaður hefur aldrei hugsað um og því var hvert form gert 4-5 sinnum þar til hann varð ánægður. Eftir formin tók við bardagi sem var 2 lotur 3 mínútur á móti strák sem átti merkilega sögu ásamt undirituðum. Árið 1995 byrjaði hann æfa og merkilegt nokk var fyrsti kennarinn hans á fyrstu æfingunni, undirritaður. Á þessarri æfingu var sparring og þar sem hann, Park heitir hann, var og er vel massaður var hann notaður sem sýningardýr þá og sagði hann að hann myndi mjög vel eftir mér.

Master Kim gerði mikið grín að þessu og sagði að eina ástæðan fyrir því að Park kallinn væri enn að æfa væri til að geta hefnt sín á mér. Að öllu gríni slepptu gekk sparring vel, Park var talsvert betri en seinast, enda kannski ekki við öðru að búast, kominn með 3. dan og 12 ára reynslu.

Eftir það voru spurningar og umræða um ritgerð á dagskránni. Spurningarnar reyndust fáar og master Kim ræddi um hvernig próftaki hefði breyst og þroskast frá því hann sá hann fyrst og hann ræddi einnig um Ísland og hvað væri að gerast þar á Taekwondo-sviðinu.

Með prófinu fylgist einnig master Jang sem er okkur að góðu kunnur og að prófi loknu fórum við í hóp út að borða og var Bóshín Tang á matseðlinum, uppáhald grandmaster Kim. Af tilfinningaástæðum verður eðli réttarins ekki uppgefið opinberlega.

En svo fór að deginum lauk og 5. dan-gráðan orðin staðreynd. 6 mánaða undirbúningi fyrir prófið lokið og tími fyrir einn kaffibolla sem undirritaður hafði lofað sér ef prófi yrði náð. Eftir hvíld yfir helgi tóku svo við æfingar í Yonsei og vorum við svo heppnir að master Jang þekkti vel til master Lee, sem er ríkjandi heimsmeistari í Púmse.

Við gerðum áætlanir til að hitta hana og æfa keppnisstílinn með henni. Á fyrstu æfingunni voru Tae Geuk formin tekin fyrir og vorum við eins og gulbeltingar í höndunum á henni. Formin voru meira og minna öll breytt og öðruvísi en við eigum að venjast. Mesta breytingin er þó að síson (augnfókus) er með öllu horfið og stöðurnar styttri og grynnri en maður gæti ímyndað sér að væri rétt.

Eftir tæpa 3 tíma kláruðum við Tae Geuk og fórum vel þreyttir og sveittir upp á herbergi. Á næstu æfingu voru svartbeltis formin tekin fyrir og voru breytingarnar engu minni þar og sérstaklega í hraðanum á tækni og stöðunum, enn og aftur. Breytingarnar eru mjög miklar og margt sem er á skjön við grundvallarhugsun okkar í grunntækni. Reynslan af því að æfa með heimsmeistaranum mun nýtast okkur vel og minnispunktarnir sem við skrifuðum verða líklegast lesnir einu sinni eða tvisvar þegar heim er komið.

Sigursteinn æfir nú stíft hjá John Frankl, sem er svartbeltingur í Brazilian Jiu Jitsu.

Æfingarnar fara fram í Yonsei á júdógólfinu sem er við hliðina á Taekwondo-gólfinu. Þessa dagana er hitin í kring um 34°C og rakinn nálægt 100% þannig að á hverri æfingu fara ca. 3-5 kg af svita.

Það var vel tekið á því í dag og svitinn lak. Eftir æfinguna fór maður í sturtu í fötunum og sló þar með tvær í einu og losnaði við að vinda svitann úr fötunum fyrir æfinguna seinna í dag…

John tók vel í hugmyndina um að heimsækja Ísland einhvern tíma og vonandi fáum við hann sem fyrst. Hann er virkilega vel að sér í BJJ og kemur öllu vel frá sér, á ensku og kóresku. Aðstoðarþjálfarinn hans er fyrrverandi landsliðsmaður í TKD og vinnur hann nú hjá WTF (World Taekwondo Federation). Það væri náttúrulega fínn pakki að fá þá báða til landsins einhvern tíma:-)

Það verður ekki fleira í bili en við höfum núna eina viku í viðbót til að æfa meira,læra meira, ja og borða meira. Matseðillinn hefur verið óvenju skrautlegur og kallar undirritaður ekki allt ömmu sína í þeim efnum.

Kveðja, frá Kóreu

Sigursteinn og Helgi Flex