Vegna umræðna um íslenska glímu og hvort hún geti talist til bardagalista fannst mér kominn tími til að kynna Hugamenn fyrir einum mesta afreksmanni Íslenskrar íþróttasögu, sem því miður virðist vera fallinn í gleymskunnar dá.

Þeir sem vilja læra meira um kosti íslensku bændaglímunnar á alþjóðvettvangi ættu að lesa ævisögu hins mikla snillings Jóhannesar Jósepssonar, kenndur við Borg. Hér er stutt yfirlit yfir lífshlaup hans:

Jóhannes fæddist rétt fyrir 1890 á Oddeyri, sem í dag er hluti af Akureyri. Hann ólst upp í sárri fátækt, skapstór, drykkfelldur faðir hans lamdi hann eins og harðfisk, gerði hann að háði og spotti og kallaði hann aumingja upp á hvern einasta dag.

Jóhannes leitaði huggunar í glímunni og stofnaði fyrsta ungmennafélagið á Íslandi þegar hann komst á unglingsár. Var hann mjög virkur í ungmennafélagshugsjóninni og ferðaðist um allt land og hélt ræður þar sem að hann hvatti æsku íslands til þess að stofna ungmennafélög og stunda íþróttir, glímu stökk og hlaup til að efla sál og líkama, og einnig var lögð mikil áhersla á þjóðernisvitund, en á þessum tíma var Ísland ennþá dönsk nýlenda.

Jóhannes fór fyrir hópi íslenskra glímumanna sem að héldu sýningu á Ólympíuleikunum í London árið 1908 auk þess sem að Jóhannes tók þátt í Grísk-Rómversku glímunni undir fána Dana, en árið áður hafði hann lagt besta mann Dana í sínum þyngdarflokk í Hermod glímuklúbbinum í Kaupmannahöfn og þannig unnið sér inn þáttökurétt. Hann fór alla leið í fjórðungsúrslit þar sem að hann því miður handleggsbrotnaði vegna bolabragðs andstæðings síns Þessi ólympíuför var einnig merkileg fyrir þær sakir að nærri lá við áflogum milli 7 manna glímuflokks Jóhannesar og alls danska liðsins, u.þ.b 50 manna þegar danirnir reyndu að koma í veg fyrir að þeir gengu inn á leikvanginn undir óopinberum fána Íslands, sem að þá var blár kross á hvítum bakgrunni.

Uppúr þessari ólympíuferð bauðst Jóhannesi og nokkrum af hans nánustu félögum í glímunni að ferðast um Evrópu með farandsýningu sem bauð upp á alls kyns skemmtanir fyrir almúgann, en kvikmyndir og sjónvörp voru ekki til á þessum tíma.

Sú ferð átti eftir að reynast tveggja áratuga víkingur sem spannaði alla Evrópu frá Portúgal til Rússlands, og einnig ferðuðust þeir um Bandaríkin þver og endilöng með karnivölum þesslenskum. Á hverju kvöldi gat hvaða maður sem etja vildi kappi við íslendingana sett á sig glímubelti og reynt að skella þeim gegn vægu gjaldi. Það gekk sjaldnast upp. Einnig glímdi Jóhannes fjölbragðaglímu(Catch Wrestling) við nokkra af fremstu fjölbragða- og Grísk-Rómverkrar glímukappa Evrópu, kynntist boxaranum Joe Lewis, fjölbragðaglímu goðsögninni Farmer Burns og blaðabaróninum William Randolph Hearst, glímdi í Madison Square Garden og sigraði þar Jiu-Jitsu meistara frá Japan, og komu sér í ýmis vandræði og skondnar klípur sem eru of margar til að segja frá hér. Allt þetta afrekaði hann fyrir 1930.

Eftir að Jóhannes kom heim lagði hann allt það fé sem hann hafði safnað í byggingu Hótel Borgar, hússins sem að hann er ávallt kenndur við, og rak það þangað til að hann settist í helgann stein upp úr 1960.

Ég hvet alla áhugamenn um sögu íslensku glímunnar og sögu Íslands almennt að lesa ævisögu Jóhannesar, hún er ekki bara fróðleg heldur lystilega vel skrifuð og skemmtileg lesning. Hana er hægt að finna með lagni í fornbókabúðum Reykjavíkur.